Við sjónarrönd

„Við höfum ekki fast land undir fótum heldur er yfirborð jarðar á hreyfingu. Náttúrulegt umhverfi okkar er ekki stöðugt heldur í sífelldri mótun og undirorpið breytingum.“

Þetta er viðfangsefni sýningarinnar Við sjónarrönd, sem Listasafn Reykjanesbæjar opnar föstudaginn 11.nóvember n.k. kl. 18.00.  Sýningin er unnin er í samvinnu þeirra Elvu Hreiðarsdóttur, Phyllis Ewen frá Bandaríkjunum og Soffíu Sæmundsdóttur. Á sýningunni má sjá verk þeirra þriggja og einnig sameiginlegt sköpunarverk þeirra. Listakonurnar fjalla meðal annars um landslag og landmótun, umbreytingar, jarðhræringar og áhrif loftslagsbreytinga, í listrænni nálgun við viðfangsefni sem einnig hafa verið vísindamönnum hugleikin.  Reykjanesskaginn er eins og opin jarðfræðibók með ummerkjum eldsumbrota og jarðhræringa, land í mótun og á hreyfingu, umlukið opnu hafi sem teygir sig í vestur allt að ströndum Bandaríkjanna.

Samstarf listakvennanna hófst árið 2014 þegar Phyllis Ewen kom til Íslands vegna sýningar Boston Printmakers sem haldin var í sal íslenskrar Grafíkur. Í framhaldinu komu í ljós snertifletir sem þær hafa unnið með síðan og sýna afraksturinn á þessari sýningu.

Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Sýningin stendur til 15.janúar n.k. og er í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnhúsum og þar er opið alla daga frá kl. 12.00-17.00.

 

 

Við sjónarrönd

Við höfum ekki fast land undir fótum heldur er yfirborð jarðar á hreyfingu. Náttúrulegt umhverfi okkar er ekki stöðugt heldur í sífelldri mótun og undirorpið breytingum.

Þetta er viðfangsefni sýningarinnar Við sjónarrönd, sem unnin er í samvinnu þeirra Elvu Hreiðarsdóttur, Phyllis Ewen og Soffíu Sæmundsdóttur. Á sýningunni má sjá verk þeirra þriggja og sameiginlegt sköpunarverk þeirra. Listakonurnar fjalla meðal annars um landslag og landmótun, umbreytingar, jarðhræringar og áhrif loftslagsbreytinga, í listrænni nálgun við viðfangsefni sem einnig hafa verið vísindamönnum hugleikin.

Hér birtist náttúran á stórum og smáum skala, með aðferðum kortagerðar, í gegnum augu málarans og allt að því áþreifanlega með óvenjulegum þrykkaðferðum. Listaverk þeirra Elvu, Phyllis og Soffíu eiga sér samastað í glufu milli vísindalegrar nálgunar og listrænnar skynjunar, milli rökhugsunar og tilfinninga. Saman birta þau margbreytilega sýn.

Náttúran hefur lengi verið viðfangsefni listamanna og tekið á sig ýmsar myndir í gegnum aldirnar. Hún hefur birst sem óþekkt svæði sem býr yfir furðum og hættum, eða verið uppspretta ógnvekjandi fegurðar. Samfara vaxandi borgarmyndun varð náttúran kærkominn griðastaður frá erli nútímasamfélags. Á síðustu áratugum hefur ásýnd náttúrunnar breyst enn á ný. Í dag er verndun hennar efst á baugi. Loftslagsbreytingar eru sívaxandi ógn við lífríkið. Hlýnun jarðar hefur áhrif á sjávarföll sem í vaxandi mæli valda jarðvegseyðingu, náttúruöflin eru á yfirsnúningi.

Vísindamenn streða við að skoða og skilja flókið ferli náttúrunnar á sinn hátt, beita mælingum, rökhugsun, þekkingu og reynslu. Á sjötta áratug síðustu aldar varð bylting í kortlagningu hafsbotnsins þegar bandaríska vísindakonan Marie Tharp uppgötvaði tilvist Norður-Atlantshafshryggjarins, uppgötvun sem renndi stoðum undir kenninguna um flekaskilin.

Uppgötvun Tharp, þessi óvænta niðurstaða kortlagningar undirdjúpanna og staðsetning Íslands á skilum Evrópu- og Ameríkuflekans er hluti af því sem varð listakonunum innblástur að sýningunni. Nálgun listamanna og vísindamanna á sitthvað sameiginlegt, í báðum greinum er leitast við að hugsa út fyrir rammann og finna óvæntar lausnir. En mælingatækin eru önnur og niðurstaðan fundin og metin á ólíkum forsendum.

Reykjanesskaginn er eins og opin jarðfræðibók með ummerkjum eldsumbrota og jarðhræringa, land í mótun og á hreyfingu, umlukið opnu hafi sem teygir sig í vestur allt að ströndum Bandaríkjanna. Þetta svæði fanga listakonurnar þrjár hver á sinn hátt.

Uppspretta verka Elvu Hreiðarsdóttur er jarðskorpan, yfirborðið. Hún er í beinni snertingu við náttúruna þegar hún lítur niður fyrir fætur sér, einbeitir sér að því nálæga og fangar jarðveginn bókstaflega í verkum sínum. Elva notar sérstaka aðferð við þrykk sín sem nefnast collagraph en hún vinnur með þrykkplötur úti í náttúrunni, með línur, fleti og áferð grjóts, hrauns og sands.

Hún tekur mót af yfirborði jarðar, leitar uppi myndir sem hún færir yfir á pappírinn og vinnur áfram. Áferð hrauns og grjóts verður nálæg og vekur upp minningar í lófum, strokur um hrjúft hraun, snertingu við kalda steina. Í þessum myndum er áhorfandinn staddur í náttúrunni miðri, sjónarhornið er bundið við nánasta umhverfi, það beinist ekki upp og í fjarska heldur snýr að því smáa og nálæga. Jarðskorpan sjálf og mótun hennar, yfirborð hraunsins felur í sér sögu ólgandi kviku. Í augnablikinu hefur hún tekið á sig fast form en getur hvenær sem er umbreyst að nýju.

Tengsl manns og náttúru hafa verið viðfangsefni bandarísku listakonunnar Phyllis Ewen um áraraðir, undanfarið með æ meiri áherslu á loftslagsbreytingar. Á sýningunni Við sjónarrönd byggja verk hennar annars vegar á hreyfingum sands á strönd á Cape Cod, Massachusetts og hins vegar á áhrifum jarðhita á Reykjanesi.

Í myndunum býr sterk tilfinning fyrir því að eitthvað sé í þann mund að riðlast, leysast upp, jafnvel brotna, slitna í sundur. Phyllis hefur notað landakort töluvert í verkum sínum, meðal annars til að sýna yfirráðasvæði og eignarhald mannsins – og draga þau í efa um leið. Hér sýna landakortin eyðingu strandlengju sem á sér stað á ógnarhraða af völdum hlýnunar jarðar. Myndir hennar frá hverasvæðum á Reykjanesi draga einnig fram hreyfinguna í náttúrunni, umbreytinguna og óvissuna.

Phyllis hugsar verk sín á stórum skala og ýtir þannig undir tilfinningu fyrir ógnarafli og hverfulleika. Á endanum getur náttúran tekið völdin, ef við hugum ekki að henni breytir hún landakortinu og kippir föstu landi undan fótum okkar.

Soffía Sæmundsdóttir varpar fram hugmyndum um landslag í verkum sínum. Um árabil hefur hún þanið þolmörk teikningar á pappír og dregið upp myndir af landslagi sem er í senn kunnuglegt og goðsagnakennt. Sjóndeildarhringurinn margfaldast og umbreytist, hraunið kemur fram í öllum sínum mögulegu myndum.

Listakonan beitir skynjun málarans á nákvæman hátt við gerð verka sinna, skoðar flæði í pensilstrokum og kallar fram tilfinningu fyrir þeirri stöðugu hreyfingu sem veður og vindar skapa í umhverfinu. Grálitaskali Reykjanesskagans endurómar, hann er brotinn upp með grænum lit sem minnir á mosa, eða fer frá ósnertum hvítum yfir í dýpstu myrkur.

Myndverk Soffíu kalla fram síbreytilegt umhverfi þar sem hraunið teiknar upp sjónarrönd. Yfir og allt um kring fjúka himinn og haf saman í vatnsflaumi og minna á að náttúran er ekki bara staður, heldur líka stund. Málarinn nálgast umhverfi sitt á markvissan máta og niðurstaðan er ekki mæld í vísindalegum einingum heldur í hvössum línum og mjúkum strokum, hughrifum og birtubrigðum.

Listir og vísindi hafa um aldir dregið upp myndir af veröldinni með margvíslegum hætti og þannig leitast við að skilja heiminn. Listin er fær um að birta myndir af heiminum sem enginn vísindamaður getur leikið eftir. Niðurstaða sýningarinnar Við sjónarrönd birtist í myndrænni útfærslu, línum og litaflötum. Hún kveikir hughrif og hugarmyndir sem á sinn hátt vekja áhorfandann til umhugsunar og auðga sýn okkar á umhverfið, þvert á höf og landamæri.

 

 

 

Það sem náttúran skráir

Í vefriti hugvísindasviðs Háskóla Íslands HUGRÁS er að finna umfjöllun um sýninguna eftir Aðalheiði Valgeirsdóttur myndlistarmann, listfræðing og sýningarstjóra.