Stofnskrá safnsins

I kafli

Um eigendur safnsins, stjórn, rekstur þess og lagaumhverfi.

1. gr.

Listasafn Reykjanesbæjar er í eigu Reykjanesbæjar og heimili þess er í Reykjanesbæ.

2. gr.

Menningarráð Reykjanesbæjar er stjórnarnefnd safnsins.

3. gr.

Listasafn Reykjanesbæjar starfar í almannaþágu og er ekki rekið í hagnaðarskyni. Starfsemi þess heyrir undir safnalög, lög um flutning menningarverðmæta úr landi og skil á menningarverðmætum til annarra landa og önnur lög og sáttmála sem varða starfsemi þess.

4. gr.

Safnið og stjórnarnefnd þess starfa samkvæmt stofnskrá þessari og samkvæmt alþjóðlegum siðareglum ICOM.

5. gr.

Safnið vinnur samkvæmt Höfundarlögum og skal samið við rétthafa hverju sinni.

6. gr.

Listasafn Reykjanesbæjar hefur sjálfstæðan fjárhag. Reykjanesbær tryggir safninu rekstrarfé samkvæmt fjárhagsáætlunum ár hvert. Það fé sem safnið aflar sjálft, með styrkjum, tekjum eða gjafafé rennur óskipt til safnsins sjálfs. Reikningar safnsins eru hluti af reiknishaldi Reykjanesbæjar og eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum.

7. gr.

Stjórn safnsins tryggir að starfsaðstaða safnsins sé viðunandi, að starfað sé samkvæmt lögum, að fjármögnun safnsins sé tryggð, að unnið sé samkvæmt samþykktri stefnumótun safnsins og að safnið haldi sjálfstæði sínu.

8. gr.

Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri og stjórnsýslu safnsins, þar með talið fjármálum og starfsmannamálum. Hann ber ábyrgð á faglegum rekstri safnsins, vinnur að almennri stefnumótun til samþykktar hjá stjórnarnefnd safnsins og að listrænni stefnumótun með listráði safnsins.

9. gr.

Ráðning forstöðumanns safnsins fer fram samkvæmt starfsmannastefnu Reykjanesbæjar. Forstöðumaður skal hafa sérfræðimenntun sem nýtist í starfi.

 

II. kafli

Um starfssvið Listasafns Reykjanesbæjar

10. gr.

Helstu verkefni Listasafns Reykjanesbæjar eru:

1.Að safna, varðveita og skrá listaverk í eigu safnsins og í samræmi við söfnunarstefnu safnsins sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti.

2.Að rannsaka og stuðla að rannsóknum eftir föngum á samtímalist og listiðkun heimamanna samkvæmt áætlun.

3.Að miðla myndlist með fjölbreyttu sýningahaldi, fyrirlestrum, leiðsögn, útgáfu og á vefnum samkvæmt áætlun.

4.Að vera ráðgefandi um meðhöndlun listaverka innan bæjarfélagsins.

5.Að sjá um innkaup á listaverkum fyrir hönd bæjarins.

11. gr.

Listráð er skipað við safnið af Menningarráði Reykjanesbæjar. Í því sitja: Forstöðumaður safnsins og tveir aðilar sem skulu hafa sérfræðimenntun á sviði myndlistar. Hlutverk listráðs er að móta og framfylgja listrænni stefnu safnsins.

12. gr.

Forstöðumaður tekur ákvarðanir í samræmi við söfnunarstefnu safnsins um gjafir sem safninu eru boðnar og metur hvort taka eigi við þeim. Allir gripir skulu skráðir í viðurkennda safnskrá og skal safnskráin vera aðgengileg almenningi Það er ekki heimilt að taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Gjöf skal fylgja gjafabréf undirritað af gefanda.

13. gr.

Listasafn Reykjanesbæjar sér um innkaup listaverka fyrir hönd bæjarins.

14. gr.

Gjafir og fjárframlög til safnsins eru frádráttarbær til skatts, samanber ákvæði laga um tekjuskatt og eignaskatt nr. 75/1985 með áorðnum breytingum.

15. gr.

Safngripir safnsins skulu ætíð varðveittir í safninu á sýningum þess eða í tryggum geymslum á vegum þess. Forstöðumanni er heimilt að lána verk til sýninga í stofnunum Reykjanesbæjar. Eins er honum heimilt að lána verk til annarra viðurkenndra aðila.

16. gr.

Safnið sinnir og tekur þátt í rannsóknum er varða starfssvið safnsins, samkvæmt rannsóknaráætlun sem endurskoðuð er á fjögurra ára fresti.

17. gr.

Safnið skal vera opið almenningi á auglýstum tímum.

Safnið og starfsemi þess skal kynnt nemendum í skólum í samráði við skólayfirvöld í Reykjanesbæ. Einnig skal efnt til slíkrar fræðslu fyrir almenning í safninu eins og kostur er.

18. gr.

Húsnæði safnsins skal uppfylla kröfur um öryggi og aðgengi allra eins og kostur er.

 

III. kafli

Samstarf og styrktarfélög

19. gr.

Heimilt er að stofna styrktarfélag (eitt eða fleiri) við Listasafn Reykjanesbæjar. Skal aflafé þess sett í sérstakan sjóð og varið til afmarkaðra verkefna. Slíkt fé skal ekki dragast frá þeirri fjárhæð sem er árlega ætlað til starfsemi safnsins í fjárhagsáætlun bæjarins.

20. gr.

Forstöðumanni er heimilt að ganga til samstarfs við önnur söfn innanlands sem utan og/eða viðurkenndar stofnanir um málefni er varðar safnið.

IV. kafli

Um stofneign, lokun safnsins og gildistíma

21. gr.

Skráð stofneign safnsins eru 244 listaverk úr eigu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafnahrepps.

22. gr.

Ef safnið verður lagt niður rennur allur safnkostur þess til Listasafns Íslands en aðrar eigur til Reykjanesbæjar í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

23. gr.

Stofnskrá þessi tekur gildi við samþykkt stjórnarnefndar safnsins, Menningarráðs Reykjanesbæjar. Heimilt er að endurskoða hana enda eru þær breytingar samþykktar af meirihluta Menningarráðs Reykjanesbæjar.

 

Samþykkt í Menningarráði Reykjanesbæjar þann 12. nóvember 2013