Tvísýna

Hjónin Hlaðgerður Íris Björnsdóttir og Aron Reyr Sverrisson eru í senn ólík og samhent í myndlist sinni. Samhent eru þau að því leyti að bæði hafa þau valið sér að draga upp myndir af fólki og náttúru í anda raunsæisstefnu sem ekki hefur átt sér marga áhangendur á Íslandi, en úrvinnsla þeirra á þessum efnivið er býsna ólík. Hlaðgerður Íris málar myndir af börnum í blóma sakleysis, Aron Reyr setur saman myndir af húsum og náttúru.

 

Við fyrstu sýn virðast verk þeirra svo gegnsæ, svo blátt áfram, að áhorfandinn freistast til að nota þau sem eins konar sýnisbækur grundvallarviðhorfa í allri myndlist. Þannig virðast verk Hlaðgerðar Írisar fela í sér hið hlutlæga viðhorf margra myndlistarmanna og ljósmyndara til viðfangsefnisins, að því leyti að börnin í þeim koma okkur fyrir sjónir nákvæmlega eins og þau "eru" í veruleikanum, að því er virðist án minnstu íhlutunar listamannsins. Flutningur viðfangsins frá veruleika yfir á striga gæti komið okkur fyrir sjónir sem aldeilis ópersónulegur, nánast eins og úrlausn á formrænum vanda.

 

Um leið erum við sennilega reiðubúin að álykta sem svo að dökkar, frjálslega málaðar myndir Arons Reyrs hljóti að falla undir hið persónulega - rómantíska - viðhorf, einkum og sérílagi eftir að listamaðurinn hefur upplýst að þær séu tilbúningur frá upphafi til enda, hluti af leit hans að eigin sýn og sjálfi.

 

En verk þeirra beggja eru öllu flóknari en þessi stuttaralega aðgreining gefur til kynna. Málverk Hlaðgerðar Írisar eru eins fjarri því að vera hlutlæg skýrslugerð og þau geta verið, heldur afrakstur heilmikillar ljósmyndavinnu, stöðugrar endurskoðunar á myndbyggingu, tilfærslu á formum frá forgrunni til bakgrunns, endurmálunar smáatriða og ekki síst á svipbrigðum og augnsvip barnanna sem eru viðfangsefni hennar. Öll þessi vinna beinist að því að magna upp nærveru þeirra, fá þau til að endurspegla með fasi og augnaráði tilfinningalega dýpt sem heldur okkur hugföngnum, dýpt sem við færum örugglega á mis við í bláköldum "veruleika".

 

Sömuleiðis tekst Aroni Reyr í myndum sínum að hrista upp í viðteknu viðhorfi okkar til rómantískrar tjáningar. Við erum ekki fyrr búin að afgreiða myndir hans sem heilber hugarfóstur, sérkennileg ljóðræn tilbrigði um 19 aldar táknhyggju, þegar við rekum augun í hvelfda gluggaumgjörðina utan um þær, eða það sem virðist vera gluggapóstar í lest eða flugvél við ytri mörk myndflatarins. Við þetta "effekt" fáum við á tilfinninguna að við séum á ferðalagi gegnum ímyndað landslag, svona líkt og Hringur Jóhannesson málaði "alvörulandslagið" út um bílglugga á leiðinni norður í land forðum daga. Sem hlýtur að vekja með manni undarlegar kenndir.

 

Á hinn bóginn velkjumst við ekki í vafa um myndir Arons Reyrs frá æskustöðvum hans í Kópavogi; þær sýna okkur fúnkíshús og ýmiss önnur ummerki ört vaxandi byggðar sem við þykjumst öll hafa séð á lífsleiðinni. Þegar gengið er á listamanninn viðurkennir hann hins vegar að þessar myndir séu jafn uppdiktaðar og landslagsmyndirnar.

 

Verk þeirra Hlaðgerðar Íris og Arons Reyrs þrífast á þessari víxlverkan hins þekkta og óþekkta, um leið og þau kasta á milli sín - og til okkar - spurningunni um náttúru hinnar hlutlægu listsýnar, hvort er hún spegill eða gluggi? Er hún fyrst og fremst sjálfsmynd eða gluggi út á við, tæki til að öðlast vitneskju um veröldina?

 

Aðalsteinn Ingólfsson