Þrykkt

ÞRYKKT
Samsýning með sögulegu ívafi

 

Laugardaginn 5. mars kl. 15.00 verður opnuð í Listasafni Reykjaesnbæjar sýningin ÞRYKKT, samsýning með sögulegu ívafi. Á sýningunni má sjá ný verk eftir 16 íslenska grafíklistamenn auk þess sem hægt verður að skoða sögulegt og tæknilegt yfirlit íslenskrar grafíkur í hliðarsal. Sýningin er unnin í samstarfi við félagið Íslensk grafík og sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson. Höfundar sögusýningarinnar eru Valgerður Hauksdóttir og Elva Hreiðarsdóttir. Eftirtaldir listamenn eiga verk á sýningunni: Anna Snædís Sigmarsdóttir, Bragi Ásgeirsson, Daði Guðbjörnsson, Elva Hreiðarsdóttir, G. Ármann Sigurjónsson, Ingiberg Magnússon, Irené Jensen, Karólína Lárusdóttir, Kristín Pálmadóttir, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Nicole Pietrantoni, Ríkharður Valtingojer, Sigrid Valtingojer, Sigríður Melrós Ólafsdóttir, Sigrún Eldjárn og Valgerður Hauksdóttir.

 

Í sýningarskrá segir A.I. : Á ögurstundum í lífi þjóða hefur alltaf mátt reiða sig á grafíklistina. Boðskap siðaskipta var dreift í grafísku formi, franskir grafíklistamenn voru meðal þeirra sem harðast deildu á ofríki og dáðleysi franska konungdæmisins á 19. öld, grafík var notuð til að vekja listvitund alþýðu á öndverðri tuttugustu öld, sömuleiðis til að virkja pólitískan samtakamátt hennar. Lengi vel átti grafíklistin örðugt uppdráttar hér á landi, en á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar þéttbýliskjarnar landsins þöndust út, voru það grafíkmyndir sem rötuðu inn á heimili ungra íslenskra húsbyggjenda og mótuðu myndlistarsmekk þeirra.
Allt helgast þetta af eðlisþáttum grafíklistar, margfeldi myndanna, sem tryggja að boðskapur þeirra, listrænn sem pólitískur, fer óhindraður víða um lönd. Margfeldið tryggir síðan að hægt er að selja hvert þrykk við vægu verði; það hafa allir efni á að eignast grafík. Um leið er grafíklistin svo fjölbreytt að hver og einn finnur eitthvað í henni við sitt hæfi. Hún hefur einnig reynst fær um að laga sig að öðrum miðlum: málaralist (samanber einþrykkið), ljósmyndum, grafískri hönnun og stafrænni tækni.


Sýningin stendur til 17. apríl og er safnið opið virka daga kl. 12.00-17.00 og um helgar kl. 13.00-17.00. Aðgangur er ókeypis.

 

Nánari upplýsingar gefur sýningarstjóri: adalart@mmedia.is.