Kvennaveldið: Konur og kynvitund

„Kvennaveldið: Konur og kynvitund“ heitir sýning sem opnuð verður á vegum Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum í Reykjanesbæ föstudaginn 13. nóvember kl. 18. Á sýningunni er að finna verk eftir tólf listakonur, Doddu Maggý, Guðnýju Kristmanns, Guðrúnu Tryggvadóttur, Hlaðgerði Írisi, Huldu Vilhjálmsdóttur, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Louise Harris, Magdalenu Margréti Kjartansdóttur, Rósku, Valgerði Guðlaugsdóttur og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.

 

Leiðarstef sýningarinnar er að finna í texta sem bandaríska skáldkonan Joan Didion skrifaði um konur og femínisma, nefnilega: „Hvað það er að vera kona, ósættanlegar andstæðurnar sem í því felast – hvernig það er að lifa dýpsta vitundarlífi sínu líkt og neðansjávar, við dimman nið blóðs, barnsburða og dauða“. Í þessum texta deilir rithöfundurinn einnig á bandarískan femínisma, sem hún taldi gera lítið úr girnd, myrku ímyndunarafli og líkamlega tengdum áhyggjum þroskaðra nútímakvenna.

 

Um listakonurnar á sýningunni segir í sýningarskrá: „(Þær) fara ekki í felur með langanir sínar og ímyndanir. Þær segja frá tilurð kynhvatar og kynþroska, opna meira að segja fyrir eldfima umræðuna um kynþokka barna, upphefja áður „óumræðanleg“ fyrirbæri á borð við sköp og fýsn kvenna, flétta saman eigin líffræði, táknfræði og sagnfræði...Áhorfandinn fær á tilfinninguna að í hispursleysi sínu séu myndlistarkonur komnar lengra í tilfinningaþroska en karlkyns starfsbræður þeirra, sjálfskipaðir umsjónarmenn stórra sanninda.“

 

Í sýningarskrá er einnig að finna ritgerð eftir Sigríði Þorgeirsdóttur, prófessor í heimspeki, sem ber heitið „Meiri spennu og minna stríð milli kynjanna“. Þar deilir hún m.a. á peningahagkerfi nútímans, sem „á upptök sín í hlutgervingu kvenna og meinar þeim á margan hátt að vera þær sjálfar.“

 

Sýningin í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum stendur til 24. janúar 2016 og er opin frá 12.00-17.00 alla daga.

 

 

Dimmur niður blóðsins

Einhverjum kann að þykja borið í bakkafullan lækinn að setja á með enn eina kvennasýninguna á þessu afmælisári kosningaréttar kvenna, hvað þá sýningu sem gefur sig út fyrir að höggva nærri  rótum kveneðlis. Þó vil ég halda því fram að þessi  sýning sé mikilsverður viðauki við aðrar sýningar á listaverkum kvenna sem haldnar hafa verið á undanförnum  árum og misserum. Óhætt er að segja að þær hafi mestmegnis fjallað um það sem kalla mætti félagslegar aðstæður myndlistarkvenna í bráð og lengd:  sýnileika þeirra – eða vöntun á sýnileika – á myndlistarvettvangi, fordóma karlasamfélags andspænis verkum þeirra og langvarandi skeytingarleysi þessa samfélags  um reynsluheim þeirra.

 

Þar sem ofangreindar myndlistarsýningar taka til meðferðar einkanlega grunninn í listaverkum kvenna, hina svokölluðu „birtingarmynd kynferðis“, er eftirgrennslanin sjaldnast mjög nærgöngul. Kannski að það megi að hluta skrifa á reikning listakvenna sjálfra, því það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem þær fjalla feimulaust um sjálfar sig sem kynverur fremur en félagsverur.

 

Hvernig hefur umfjöllunin breyst? Og hvert er þá viðfangsefni þessarar sýningar? „Hvað það er að vera kona, ósættanlegar andstæðurnar sem í því felast– hvernig það er að lifa dýpsta vitundarlífi sínu líkt og neðansjávar, við dimman nið blóðs, barnsburða og dauða.“ Þetta segir bandaríski rithöfundurinn Joan Didion í ádrepu á bandarískan femínisma, sem hún taldi gera lítið úr girnd, myrku ímyndunarafli og líkamlega tengdum áhyggjum „þroskaðra nútímakvenna“.

 

Listakonurnar á sýningunni fara ekki í felur með langanir sínar og ímyndunarafl. Þær segja frá tilurð kynhvatar og kynþroska, opna meira að segja fyrir eldfima umræðuna um kynþokka barna, upphefja áður „óumræðanleg“ fyrirbæri á borð við sköp og fýsn kvenna, flétta saman eigin líffræði,  táknfræði og sagnfræði. Eru síðan heimavanar á orrustuvelli kynjanna þar sem öllum brögðum er beitt.  Áhorfandinn fær á tilfinninguna að í hispursleysi sínu séu myndlistarkonur komnar lengra í tilfinningaþroska en karlkyns starfsbræður þeirra, sjálfskipaðir umsjónarmenn stórra sanninda.

 

Ég vil þakka þeim sem hjálpuðu mér að að gera þessa sýningarhugmynd að veruleika, listakonunum sjálfum ásamt  Valgerði Guðmundsdóttur og hennar fólki, að ógleymdum eigendum verkanna. Ég er einnig þakklátur Sigríði Þorgeirsdóttur, prófessor, fyrir að láta tilleiðast að fylgja sýningunni úr hlaði með hugvekju.

 

 

The theme of the exhibition, entitled „Women´s Lot“, centers on a passage written by American essayist Joan Didion, where she muses on „what is it like to be a woman, the irreconcilable difference of it – that sense of living oneʽs deepest life underwater, that dark involvement with blood and birth and death“. The twelve women artists featured in the exhibition frankly challenge taboos and misconceptions about female sexuality. They deal with the emergence of sexuality and blossoming of sexual maturity, celebrate women‘s sexual organs and attributes, even touch on controversial topics such as child sexuality, sexual surrender and desire. In their openness to the vagaries and obsessions of the „instinctual life“ these women artists exhibit emotional maturity far beyond that of their male colleagues.

Að skapa meiri spennu og minna stríð milli kynjanna

Ímyndum okkur að þessi sýning héti „Karlveldið: Karlar og kynvitund.“ Hvernig virkaði það? Karlveldið er orð sem er orðið okkur tamt og espir fáa lengur upp að heyra það. En „karlar og kynvitund“? Hljómar það skringilega? Er orðið kynvitund aðeins tengt konum í huga okkar?

 

Hér eru myndir af konum í alls konar aðstæðum. Í þessum listaverkum berskjalda konur sig og afhjúpa í öllum sínum mætti og í öllu sínu varnarleysi. Þær eru með opinn faðm. Þær eru hinn rólegi ofurkraftur, kyrrð, viska og kraftbirting, þögn og hávaði í senn. Þær galopna sálina með því að sýna líkamann í öllum sínum myndum, sýna sárin, lekandi farða, marblettina, ruglið og vitleysuna. Stundum eru þær á ystu brún, í hnipri, að missa sig. Gangandi þversagnir. Og í öllu þessu eru þær með ástina á útopnu. Það er rosa kynvitund og það er alvöru kvennaveldi. Veldi ástarinnar sem þorir, veldi sem getur skapað mótvægi. Að óttast að tala um eigin kynvitund andspænis slíkum krafti virkar eins og spéhræðsla – ótti sem er eins og skjöldur þegar nánar er að gáð. Gæti fallega konan sem stendur við rúmið í málverki Huldu Vilhjálmsdóttur verið að segja: „Leggðu frá þér skjöldinn, ég elska þig eins og þú ert, svo vertu bara þú sjálfur.“ Hvern er þessi skjöldur að verja? Er þessi skjöldur kannski miklu frekar að kúga karla með því að halda þeim við efnið, að telja þeim trú um að karlveldið sé þeirra vald þegar það er í raun eitthvað sem stýrir þeim? Er karlveldið að innprenta körlum að tal um eigin kynvitund sé eitthvað ókarlmannlegt vegna þess að það gæti grafið undan yfirráðakarlveldinu sem stýrir körlum og konum? Hvers vegna skyldu karlar sem verða konur vera ofsóttastir allra? Væri aukin kynvitund leið fyrir alla, konur og karla, til að brjótast undan þessu valdi og finna nýjar leiðir fyrir samskipti kynjanna? Og þroska með sér ástir kynjanna á nýjum forsendum og virkja hugmyndir um annars konar vald.

 

Það er á færi fárra nema listamanna að tjá af listfengi kynvitund á holdlegan hátt. Fræðimenn ræða um kynvitundina og líkamleikann með orðfæri og hugtökum sem eru kölluð greiningartæki. Svona eins og meinafræðingar sem kryfja lík á skurðarborðinu með hárbeittum og fíngerðum skurðhnífum. Andstætt ríkisfemínisma sem stendur vörð um lög og réttindi, fyrirtækjafemínisma sem fjallar um stöðu og hlut kvenna í atvinnulífi má segja að listin sem hér er sýnd birti þriðja andlitið: femínísma tilfinningalífsins, líkamans og hversdagslífsins. Listakonurnar á þessari sýningu leggja sjálfar sig á skurðarborðið í verkum sínum, rista í eigið hold. Þær snerta sjálfar sig og aðra, klæða sig og mála, finna fyrir sér sem kynverur, eru varnarlausar og máttugar, finna fyrir móðurlífinu og skynja hinn erótíska lífskraft, sjálfan leyndardóm sköpunarinnar. Verk Kristínar Gunnlaugsdóttur, „Sköp“, má túlka sem nokkurs konar stofnskrá Kvennaveldisins. Merki kvenleikans saumað úr eldrauðum lopaþræði. Þarna er hann, sjálfur rauði þráðurinn sem rennur gegnum lífið allt.

 

Það er ekki lítið að búa yfir þessum krafti. Á forsögulegum tímum var þetta afl frjósemi og ástar tilbeðið. Svo var farið að gera lítið úr því. Við verðum að læra að elska þennan kraft aftur, eins og Þórdís Aðalsteinsdóttir segir með verki sínu af blæðandi píku sem minnir á eldrautt blóm sem hendur eru tilbúnar að gæla við og hún kallar „Sjálftillífun“. Við þurfum að sjá okkur sjálfar í eigin spegli og ekki sem endurspeglun valds sem hefur gert lítið úr kvenleikanum í aldanna rás. Helgimyndir af konum, eins og íkónumynd Huldu Vilhjálms af gyðju, triptikon Rósku og mynd hennar „Boðun Maríu“ eru ákall um að konur geti verið guðlegar eins og karlar sem hafa í okkar menningu átt sér fyrirmynd í almáttugum guði. Að konur hafi óendanlega möguleika til að vaxa og dafna, að sál kvenleikans sé síbreytilegur lífskrafturinn.

 

Eitthvert menningarrof varð til þess að byrjað var að gera lítið úr þessum erótíska lífskrafti. Allt var gert til að smætta þennan kraft sem er lífsnautnin í öllum sínum myndum, hann var einskorðaður við kynlíf eða móðurina. Andstaðan gegn þessum lífskrafti nýtist enn ráðandi öflum til þess að höfða til karla og sameina þá í baráttu sem gerir ráðandi öflum kleift að deila og drottna. Þeim sem eru óöryggir og þeim sem eru valdagírugir er safnað saman og þeir verða að verkfærum afla sem nýta þá til að ná efnahagslegum og pólitískum yfirráðum. Valdaklíkur verða til með fulltingi þeirra sem ofurselja einstaklingseðlið eineltiseðlinu. Hvers vegna þurfti vísindabylting nýaldar að hefjast á því að brenna nornir, konur sem bjuggu yfir ævafornri visku um líkama, heilsu og heilbrigði? Hvernig er enn hægt að sameina pólitísk öfl undir merkjum andstöðu gegn fóstureyðingum eins og heill heimsins standi og falli með þeim? Hvers vegna eru sömu karlar hlynntir dauðarefsingum og byssueign eins og karlmennskan sé tryggð með slíku? Hvernig má blása öfgatrúarmönnum baráttuanda í brjóst með því að brenna „fallnar“ konur, hella yfir þær sýru og lofa stríðsmönnum hreinum meyjum að launum í Paradís? Hvers vegna eru þessir öfgahópar ekki að berjast við þann fjandmann sem eru veraldleg, peningaleg yfirráð í heiminum í stað þess að setja sig í fornaldarlegar dómarastellingar yfir kyn- og æxlunarfærum kvenna? Verðugur fjandmaður væri vígvélin sem viðheldur sér á stríðum og maskína hnattræns fjármagnskapítalisma sem þurrkar upp auðlindir til að breyta þeim í peninga.

 

Upphaf peningahagkerfis sem þess hugmyndakerfis sem nýtur mests átrúnaðar nú á dögum má rekja til þess að konur voru skildar sem hverjar aðrar vörur til skipta. Konur voru flokkaðar í mæður, jómfrúr eða hórur. Verðgildi þeirra byggðist ýmist á náttúrulegu eða félagslegu skiptagildi og því hafa mæðurnar notagildi, jómfrúrnar skiptagildi og hórur nytjagildi sem gengur kaupum og sölum. Hulda Vilhjálmsdóttir lýsir vöruvæðingu hórunnar í kláminu með málverki af karli að horfa á klám í sjónvarpinu og konu sem liðast uppfrá viðtækinu eins og reykur. Hugtakið eiginkonur er samofið hugmyndum okkar um eignaréttinn. Sem eignarhlutur hafa konur verið hlutgerðar líkt og náttúran og auðlindir hennar. Öll viðleitni fjármálakerfisins gengur út á að setja verðmiða á sem flest, auðlindir og hráefni og kalla starfsfólk mannauð. Hvað er ekki talið til tekna? Helstu hagfræðikenningasmiðir hafa ekki viljað viðurkenna framlag kvenna. Í marxískri hagspeki er vel flest talið til vinnu nema það að fæða og ala börn og er þó víst engin „framleiðsla“ mikilvægari hagkerfinu en það. Í peningalegum hástéttum kapítalísmans eru til eiginkonur sem kallast „verðlaunagripir“ auðugra eiginmanna. Draumsýn flestra eru samt starfsframakonur sem hafa komist áfram af eigin rammleik en mikið er búið að fjárfesta í til að mennta og þjálfa. Þær fá oft til sín konur frá fátækari heimshlutum sem yfirgefa eigin börn til að sjá þeim fjárhagslega farborða með að sjá um og elska börn ríka fólksins. Eru ríku konurnar að sjúga brjóst þessara kvenna sem veita ást og umhyggju líkt og konan í mynd Þórdísar Aðalsteinsdóttur? Er Guðný Kristmanns að lýsa konum af peningaelítu heimsins með myndinni af sjálfri sér sem dreka með áfastan dildó? Erum við að hengja á okkur dildóa með því að taka þátt í peningahagkerfi sem á upptök sín í hlutgervingu kvenna og meinar þeim á margan hátt að vera þær sjálfar? Kannski hrynur þetta kerfi ef við tökum þennan dildó af okkur. Þetta kerfi er orðið álíka máttugt og dildó og virkar bara öflugt svo lengi sem við trúum á það. Við þurfum að segja upp þessum gúmmítjekka yfirráðakarlmennskunnar.

 

Hvaða vísbendingu um annars konar hagkerfi gæti mynd Guðrúnar Tryggvadóttur af „Mæðrum og börnum“ gefið okkur? Á seðli helstu gjaldmyntar heimsins, bandaríska dollarnum, stendur „In God we Trust“ sem er í raun viðurkenning á því að peningakerfi eru manngerð kerfi sem við ákveðum að reiða okkur á eins og allt annað í mannlegu samfélagi. Við leggjum traust okkar á verðgildi peninganna. Við ákveðum að trúa á veruleika þeirra. Annað getur ekki skýrt hvers vegna sumir hlutir eru metnir til verðgildis og aðrir ekki og hvernig blætisdýrkun er allsráðandi í því hvernig við metum verð hluta, eftirspurnin sem hækkar verðið er oft algerlega óháð efnisveruleika þeirra. Myndu hugmyndir okkar um verðmæti breytast ef myndin „Mæður og börn“ prýddi gjaldmiðilinn? Gamla íslenska hundraðkrónuseðilinn skreytti mynd af sauðfé, á gamla fimmþúsundkrónuseðlinum var mynd af vatnsaflsvirkjun og Einari Benediktssyni og krónupeninginn prýðir mynd af fiski. Hér eru auðlindirnar allar eitthvað til að nýta, eitthvað sem stendur utan okkar eins og við værum ekki hluti þeirrar náttúru sem nærir okkur. „Mæður og börn“ sýnir hvernig við erum hvert öðru tengd, að við eigum ekki jörðina heldur erum með hana að láni frá komandi kynslóðum. Áðurnefnd mynd Þórdísar Aðalsteinsdóttur af konu sem sýgur brjóst minnir á að hinn nærandi móðurleiki er víða en sjö milljarðar mennskra dýra slátra yfir 50 milljörðum ómennskra landdýra á ári hverju.

 

Á sínum tíma var það mikið menningarlegt stökk og afrek að koma á peningahagkerfi í stað skiptahagkerfis. Nú er svo komið að peningaskuldir heimsins eru vaxnar langt út yfir tekjur og þetta kerfi hefur misst alla jarðtengingu. Hlaðgerður Íris lýsir þessu ástandi með mynd sinni af „Svefngengli“. Fallegt, varnarlaust barn á undirfötum einum klæða stendur á strönd sem vatn er að flæða yfir og þar stendur dautt tré í bakgrunni. Barnið er sakleysið sjálft á meðan peningakerfi veraldar rústar náttúrunni og er orðið að einum allsherjar sektarmiða. Ríki og einstaklingar eru skuld við lánadrottin sem við munum aldrei geta endurgoldið því hún er vaxin út í hið óendanlega. Samt gæti jörðin verið gnægtarbrunnur og engin ástæða til skorts nema ef væri fyrir peningana. Við búum við vald sem tekur sér bólfestu í alls konar kerfum, peningakerfum, vísindakerfum, heilbrigðiskerfum og hugar ekki að öðru en að viðhalda sjálfu sér, sama hvað það kostar. Þetta er vald sem á ævinlega bara tvo kosti: að styrkja sjálft sig eða veikja andstæðinga. Þetta vald þarf mótvægi.

 

Hvenær missti valdið mótvægið og varð að kúgun? Það eru til margar sögur af því eins og til dæmis ein í Völuspá. Þegar Ragnarök blasa við fer Óðinn í vandræðum sínum til völvunnar. Hann hefur misst stjórn á veröldinni og allt er í upplausn. Völvan minnir hann á hvernig hann gaf annað auga sitt fyrir völd og sér því ekki nema hálfan sannleikann. Hann er búinn að gleyma hvernig hann átti þátt í að skapa valdatogstreitu og hefja stríð. Völvan minnir hann á hvernig goðin vildu í blindni sinni greiða fyrir virkisvegg með því að selja Sól, Mána og sjálfa Freyju. Málverk Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur af „Lífsdansinum“ lýsir lífsdansi kynjanna eins og hann er og eins og hann gæti orðið. Fyrir miðju myndarinnar sjáum við svartan karl og eldrauða konu. Valdið heillar eins og áfengi til að koma sér í stuð en of mikið af því afskræmir. Karlinn er myrkur og djöfullegur á svipinn eins og hann sé nýbúinn að selja Freyju og konan eldrauð og afskræmd í framan. Hún virðist á valdi valds, reið út í karla og gerir lítið úr þeim. Aðrar konur á myndinni eru venjulegri og bjartari. Þær svíða ekki jörðina eins og miðjuparið sem gæti brunnið upp.

 

Konur og karlar myndu frelsast og leysast úr læðingi við það að stíga lífsdans þar sem kynin fengju að njóta sín, laus úr viðjum valds sem egnir þau hvert gegn öðru. Þau fengju að vera þau sjálf. Ólík hvert öðru. Óræð hvert öðru. Mynd Doddu Maggýjar af fjöllistakonu, liggjandi í hnipri með hendur fyrir andlitinu tjáir öng og örvæntingu. Vatnslitamyndir Louise Harris af förðuðum kvenandlitum minna á fótósjoppaðar ljósmyndir úr tískublöðum. Sæt og svolítið tóm andlit. Nú er ekki þar með sagt að konurnar eigi að þurrka af sér varalitinn til þess að geta risið upp úr rústum yfirráðakarlveldisins sem fullkomnari verur. Öll verkin á þessari sýningu sýna konur í öllum sínum margbreytileika. Í hégóma, í narkisissma, grænar í framan af löngun í vald, í óöryggi, í öllu því sem gerir okkur mennsk. Hvað er að því að vilja vera „Drottning í einn dag“ eins og Magdalena Margrét Kjartansdóttir spyr með samnefndu verki sínu? Þessi mynd minnir á að vald er alltaf að láni. Það er bara hægt að vera drottning í veraldlegum skilningi tímabundið. Í dýpri skilningi er hið raunverulega drottningarveldi annars eðlis. Allar konur búa yfir því og eru tilbúnar að gefa af því. Þetta er veldi sem kemur á undan öllu því sem skilur konur að, hvort sem það er kynhneigð, stétt, uppruni og hvort sem þær eru mæður eða ekki. Svo einkennilegt sem það kann að virðast þá er hin blæðandi píka sem hefur verið vanvirt, jafnframt undin þaðan sem heilun getur hafist. Af því að þar býr mikil viska og mikil orka. Konurnar í verkunum sem hér eru sýnd ganga um hina sviðnu jörð, sem sumar þeirra hafa líka átt þátt í að brenna. Hér gildir ekki að endurreisa völd sem komu okkur í þessar aðstæður. Hér gildir að skapa mótvægi við öfl sem hafa orðið einráð og skapað stríð milli kynjanna. Nú þarf að segja þessum öflum upp. Púff! Farin! Að hafna valdi og verða veldi. Að verða kvenvitund og karlvitund. Að verða sjálf, að hugsa sjálf. Að skynja af lífs- og sálarkröftum. Að skapa meiri spennu og minna stríð milli kynjanna. Og hefja ástir kynjanna við aðstæður sem leyfa kynvitund þeirra að blómstra því við erum öll hvert öðru ólík.

 

Sigríður Þorgeirsdóttir