Jóhanna Kristín Yngvadóttir (1953-1991)
Nafn
Jóhanna Kristín Yngvadóttir (1953-1991)
Ferilskrá
Þegar Jóhanna Kristín lést, aðeins 37 ára að aldri, var að baki stuttur en engu að síður glæsilegur ferill helgaður myndlistinni. Í sýningarskrá yfirlitssýningar á verkum hennar sem haldin var á Kjarvalsstöðum 1992 segir Kristín Guðnadóttir m.a. að í verkum sínum noti Jóhanna Kristín jafnt ytri sem innri raunveruleika sem hráefni til miðlunar djúpstæðra tilfinninga og sá hugmyndaheimur, er birtist á lérefti hennar, sé oft all nöturlegur. Dýpt og einlægni í túlkun einkenni verk hennar, sem máluð séu af öryggi og krafti. Hún skapaði af sannfæringarkrafti áleitin verk sem vektu erfiðar spurningar, sem sumum hverjum verður seint svarað.
Jóhanna Kristín nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1972 til 1976, og var við framhaldsnám í borgunum Haag og Amsterdam í Hollandi til ársins 1980. Hún hélt fimm einkasýningar; fjórar í Reykjavík og eina á Grænlandi, og átti verk á fjölda samsýninga, hér heima og erlendis.
Þrátt fyrir að á mótunar- og námsárum Jóhönnu Kristínar væri hugmyndalistin hvað mest áberandi, þá átti málverkið ætíð hug hennar. Hún leitaði á mið tilfinninganna og sá tjáningarmáti sem hentaði henni best var fígúratívur expressjónismi, og einkennast myndir hennar af einlægri tjáningu sprottinni úr persónulegri upplifun.
Myndefni Jóhönnu Kristínar var fólk, og frekar konur og börn en karlmenn. Í viðtali í Þjóðviljanum 20. maí 1984 segir hún: „Ég mála persónur en ekki portrett endilega. Fólk inspírerar mig, einkum börn. Stundum fæ ég þau til að sitja fyrir ... Oftast mála ég þó upp úr sjálfri mér, eitthvað sem hefur snert mig persónulega, minningar eða fólk sem er mér náið."
Heimild: Lesbók Morgunblaðsins,22. febrúar 1992.