Stjórn Listasafns Reykjanesbæjar ákvað snemma á síðasta ári að vera með sýningu í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri og hugmyndafræðingur verkefnisins hófst strax handa við undirbúninginn og eru honum færðar kærar þakkir fyrir vel unnið starf. Allt myndefnið á sýningunni skyldi tengjast Þingvöllum með einum eða öðrum hætti, þar sem sá staður skipar sérstakt hlutverk í hjarta þjóðarinnar og var ætlunin með verkefninu að velta fyrir sér gildi þessa helgasta staðar Íslendinga fyrir þjóðarvitundina og þá um leið áhrifum Þingvalla á myndlist þjóðarinnar. Leitað var til safnarans Sverris Kristinssonar og var hann viljugur að lána listasafninu nokkur verka sinna og eru honum færðar sérstakar þakkir fyrir höfðingsskapinn. Meðal listamannanna sem eiga verk á sýningunni eru margir helstu málarar Íslendinga á tuttugustu öldinni s.s. Þórarinn B. Þorláksson, Jóhannes Kjarval, Ásgrímur Jónsson og Jóhann Briem og var það mikill fengur að komast í verkin hans Sverris. Einnig var leitað til Birgis Hermannssonar lektors við Háskóla Íslands og hann beðinn um að gera grein fyrir tengslum íslenskrar þjóðmenningar og Þingvalla í sýningarskránni. Honum eru einnig færðar kærar þakkir.
Samhliða sýningunni mun safnið standa fyrir fjölda viðburða í samvinnu við ýmsa aðila s.s. Byggðasafn Reykjanesbæjar, Leikfélag Keflavíkur, Sögufélag Suðurnesja og Kvennakór Suðurnesja. Þessir viðburðir verða bæði af sagnfræðilegum og myndlistarlegum toga og sömuleiðis munu tónlist og bókmenntir koma við sögu. Í heild sinni er verkefnið hugsað fyrir almenning, sérstaklega skólahópa og fjölskyldur og er þetta framlag Reykjanesbæjar til fullveldishátíðarinnar 2018. Að síðustu vil ég koma þökkum til þeirra sem styrktu verkefnið fjárhagslega en það eru Uppbyggingarsjóður Suðurnesja og Fullveldissjóður íslands.
Valgerður Guðmundsdóttir
Myndin af Þingvöllum
Um það bil eitt hundrað árum áður en íslenskir listamenn hófu að setja niður trönur sínar á Þingvöllum, hafði staðurinn vakið athygli nokkurra erlendra listamanna sem hingað komu, gjarnan sem förunautar og myndasmiðir á vegum þekktra landkönnuða. Viðhorf þeirra til staðarins einkennist tæplega af sömu andakt og Íslendinganna sem fylgdu í kjölfarið, enda var þekking útlendinganna á bæði sögulegri þýðingu staðarins og meintri „helgi“ hans af skornum skammti. Og er ekki að furða, því eins og kemur fram í ritgerð Birgis Hermannsonar hér á eftir, tók það Íslendinga sjálfa allnokkurn tíma að skilgreina mikilvægi Þingvalla fyrir sjálfum sér og öðrum.
Fyrst og fremst er það óvenjulega harðhnjóskuleg náttúra staðarins sem höfðar til aðkomumanna. Ágætur danskur teiknari og málari, Emanuel Larsen (1823-59), sem var þar á ferðinni um miðja 19 öld, er fyrst og fremst upptekinn af ýmsum afbrigðum birtunnar og kynjamyndunum sem birtast í hrauninu. Sama má segja um tvo samlanda hans, August Schiøtt (1823-95) og Carl Frederik Sørensen (1818-79), sem fjölluðu um náttúrufar Þingvalla af frásagnarlegri nákvæmni. Bresk kona, Mary C.J. Leith (1840-1926) , kemur til Þingvalla seint á 19 öld og þykir mannlíf, húsakynni og búskaparhættir ábúenda á Þingvallajörðunum sýnilega áhugaverðari en dramatísk náttúran allt um kring. Loks eru blaðaljósmyndarar síns tíma, listamenn sem sendir voru til Þingvalla til að skrásetja heimsóknir höfðingja, t.a.m. áðurnefndur Carl F. Sørensen, sem gerði grafíkmyndir af heimsókn Kristjáns IX á staðinn, 7. ágúst 1874. Í þeim myndum er náttúran fyrst og fremst frekar ómerkilegur bakgrunnur hinnar hátignarlegu heimsóknar.
Stórbrotnust allra Þingvallamynda fyrir daga hinna íslensku málara er án efa víðáttumyndin sem þýski listmálarinn Heinrich Hasselhorst (1825-1904) gerði árið 1861, en hún er meira en tveir og hálfur metri á breidd og tæpir sextíu sentimetrar á hæð. Frank Ponzi hafði upp á þessari mynd fyrir bók sína um Ísland á 19 öld (AB 1986). Hún er nokkuð einkennandi fyrir sýn útlendinga á Þingvöll að því leyti að ekki er gert upp á milli staða; allir hafa þeir nokkurn veginn jafnt vægi. Fyrir listamanninn liggur aðdráttarafl Þingvalla í hinu opna, takmarlausa rými og tærri birtunni, ekki einstökum kennileitum – sögulegum sem staðfræðilegum - innan þessarar stóru heildar.
Ekki verður heldur greint af málverki Þóru Pétursdóttur Thoroddsen (1847-1917), fyrsta íslenska listamannsins sem vitað er að málaði Þingvallamynd, allnokkru á undan Þórarni B. Þorlákssyni (1867-1924), að hún geri sér grein fyrir „helgi“ hinna ýmsu staða á hinum sögufræga vettvangi. Mynd hennar frá 1883 sýnir Þingvallabæinn, og einbeitir hún sér að því að gera skil útliti húsanna fremur en náttúrunni allt um kring. Enda listakonunni kannski vorkunn, þar sem hún hafði ekki fengið þjálfun í landslagsmálun.
Ef einhver á „höfundarétt“ á „Þingvallamótífinu“, eins og ótal íslenskir listamenn, frá Þórarni B. Þorlákssyni til Georgs Guðna (1961-2011) , hafa unnið úr því frá níunda áratug 19 aldar fram á 21stu öldina, þá er það sennilega Sigfús Eymundsson ljósmyndari ( 1837-1911) . Sigfús var ekki fyrr búinn að setja á fót ljósmyndastofu sína 1867, þegar hann lagðist í ferðalög til að taka myndir af íslenskri náttúru, fyrstur íslenskra ljósmyndara. Árið 1886 sótti hann um og fékk styrk frá hinu háa Alþingi til að gefa út Ísland í myndum, „myndabók með myndum af fegurstu stöðum landsins og úr þjóðllífinu.“ Þessi bók kom ekki út fyrr en eftir aldamótin, en myndirnar notaði Sigfús við ýmiss önnur tækifæri, m.a. seldi hann ferðalöngum og erlendum blöðum og tímaritum þær til kynningar á landinu.
Í eins konar verklýsingu sem Sigfús lét skrifa fyrir sig svo snemma sem árið 1872, og fylgdi styrkumsókn hans, er að finna eins konar réttlætingu þessa verkefnis. Frá hans bæjardyrum séð er Ísland sérstaklega „auðugt af einkennilegri náttúrufegurð, eins og hitt er alkunnugt, hve margir staðir hér eru helgaðir af endurminningu sögu vorrar.“ Ljósmyndirnar í bókinni sýna m.a. þau Þingvallamótíf honum þótti markverðust, bæði fyrir „einkennilega náttúru“ og sögulega þýðingu. Meðal fyrstu myndsmiða beinir Sigfús sjónum að Almannagjá, að Öxarárfossi úr mikilli nálægð, að Hakinu, svo að helstu gjám á svæðinu út frá nýjum sjónarhornum.
Við vitum af áhuga listmálaranna á ljósmyndum Sigfúsar, t.d. eru til landslagsmyndir eftir þá Þórarinn B. Þorláksson og Jóhannes Kjarval (1885-1972) , sem augljóslega eru unnar eftir ljósmyndum Sigfúsar. Dramatískar ljósmyndir hans af Almannagjá, teknar tiltölulega þröngt og lágt frá Hakinu, verða fyrirmyndir margra íslenskra listmálara þegar fram líða stundir. Undir áhrifum þeirra eru t.d. helstu Þingvallamyndir Kjarvals, Kristínar Jónsdóttur (1888-1959) og myndir ýmissra sporgöngumanna þeirra
Á fyrstu árum tuttugustu aldar festi Þórarinn B. Þorláksson sig svo kirfilega í sessi sem helsti Þingvallamálari landsmanna, að lengi vel vogaði sér enginn annar listmálari inn á hans áhrifasvæði, ef svo má segja. Við upphaf þriðja áratugarins vaknaði hins vegar mikill og almennur áhugi á Þingvöllum, jafnt meðal almennings sem listamanna. Tilefnið var Þjóðhátíðin sem blásið var til árið 1930, og stóð undirbúningur hennar yfir mestan hluta áratugarins. Tvær kynslóðir listmálara skunduðu á Þingvöll til að kynnast staðnum og „treysta sín heit“. Frá því u.þ.b. 1922 og fram á sjötta áratug aldarinnar verður sköpun Þingvallamynda síðan eins konar manndómsvígsla íslenskra listamanna. Svo margar eru þessar myndir, að eflaust væri hægt að nota þær til að rekja gjörvalla sögu íslenskrar myndlistar á 20stu öld.
Tveir íslenskir listamenn, þeir Jóhannes Kjarval og Ásgrímur Jónsson !876-1958), eiga þó ríkari hlutdeild í Þingvallaímyndinni en flestir aðrir. Kjarval er málari hinna miklu ævintýra sem gerast í hrauninu, en Ásgrímur skrásetur þau undur og stórmerki sem gerast í augsýn okkar þar sem mætast láð, lögur og himinn.
Þegar kemur að Þingvallamyndum síðustu áratuga, er óhætt að segja að hugmyndir listamanna um staðinn séu fyrirferðarmeiri en staðurinn sjálfur. Hvort sem listamenn vilja skerpa á vitund okkar um þjóðleg gildi eða að vekja upp efasemdir um þau, eru Þingvellir notaðir sem minni, sem vettvangur fyrir listrænar uppákomur eða sem efniviður í margræðan skáldskap. Sú staðreynd að einn af myndbrjótunum í SÚM-hreyfingunni, Magnús Tómasson (1943), skuli vísa til Þingvalla í stórbrotinni – og um leið skemmtilega fáránlegri - hugleiðingu sinni um fyrirbærin „nálægð“ og „fjarlægð“ (Burt, 1982-83), er til marks um það hve samgróinn staðurinn er vitund okkar nútíma Íslendinga.
Aðalsteinn Ingólfsson
Hjartastaðurinn: Þingvellir og íslensk þjóðernishyggja
Í lögum um friðun Þingvalla frá 1928 segir að Þingvellir skuli vera „friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.“ Í greinargerð með frumvarpinu er því lýst að „takmark þjóðrækinna manna“ með friðlýsingu Þingvalla sé „að vernda sem best hina sögulegu helgistaði og náttúrufegurð Þingvallasveitar.“ Jónas Jónsson frá Hriflu, dómsmálaráðherra og flutningsmaður frumvarpsins, kallaði í umræðum á Alþingi Þingvelli „listaverk frá náttúrunnar hendi“ og „dýrgrip“ sem þyrfti að vernda. Þessi sjónarmið eru næsta algeng þegar rætt er um Þingvelli. Þegar „hið erlenda setulið“ setti upp tjaldbúðir á Þingvöllum sumarið 1941 þótti ritstjórum Morgunblaðsins ástæða til að árétta að Íslendingar verði að „eiga Þingvelli einir.“ Á Þingvöllum eru „hin helgustu vé íslensks þjóðlífs að fornu og nýju“ og skipar staðurinn að mati leiðarahöfundar sérstakan sess hjá þjóðinni af tveimur ástæðum: Annars vegar að við „Þingvelli eru tengdar margar þær sögulegu minningar, sem þjóðinni eru kærastar“ og hins vegar að „Þingvellir sameini öðrum stöðum fremur hið fegursta og svipmesta í íslenskri náttúru.“ Mikilfengleg saga og fögur náttúra renna þar saman í eina heild, samofin í „hjarta Íslendingsins,“ eins og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands orðaði það eitt sinn. Þegar Guðmundur Davíðsson gerði það að tillögu sinni árið 1913 að gera Þingvelli að þjóðgarði vísaði hann í Þingvelli sem „fegursta og frægasta sögustað landsins – hjartastaðinn.“
Þessi samtenging sögu og náttúru í „helgistaðnum Þingvöllum“ er lítt umdeild. Þegar betur er að gáð er þó ekkert sjálfgefið við hina upphöfnu stöðu Þingvalla; í raun má segja að tilurð „helgistaðarins Þingvalla“ og tilurð íslenska þjóðríkisins séu nátengdir atburðir. Veigamesti skýringarþátturinn er íslensk þjóðernishyggja; án hennar væru Þingvellir ekki helgistaður, né sérstakt þjóðríki á Íslandi. Hin þjóðernislega orðræða sem varð til í sjálfstæðisbaráttunni tengir saman Þingvelli og þjóðríkið og útskýrir þann sess sem saga og náttúra Þingvalla hafa í „hjörtum Íslendinga.“ Í raun eru Þingvellir helgistaður þar sem þeir eru hluti af helgisögu, pólitísku viðhorfi til fortíðarinnar sem er mótað af íslenskri þjóðernishyggju, sjálfstæðisbaráttunni og lögmætingu á tilvist íslenska þjóðríkisins.
Sigurður Guðmundsson málari gaf út stutta en merka bók um Þingvelli árið 1878. Í bókinni fjallar Sigurður á athyglisverðan hátt um tengsl fyrirframgefins hugmyndaheims og raunverulegrar upplifunar af Þingvöllum. Sigurður benti á að „flestir Íslendingar skapi sér Þíngvöll í huganum, þó þeir hafi aldrei Þíngvöll séð.“ Að mati Sigurðar var þó erfitt að hugsa sér „svo ómenntaðan og einfaldan Íslending“ að hann gerði sér ekki einhverja hugmynd um Þingvelli vegna glæstrar sögu í fornöld eða vegna „viðburða og hryðjuverka“ á síðari öldum. Fyrir allan þorra þjóðarinnar á dögum Sigurðar voru Þingvellir því vettvangur sögulegra atburða eða hugtak í pólitískri orðræðu, upphafinn staður fornra hetjudáða og pólitískra stofnana. Staðinn höfðu fáir séð. Kynni fólks af Þingvöllum geta því ekki verið milliliðalaus að mati Sigurðar; merking Þingvalla ræðst ekki bara af upplifun fólks af staðnum sjálfum, heldur einnig þeim hugmyndum sem fólk hefur um mikilvægi staðarins og hlutverki hans í sögu þjóðarinnar. Myndin af Þingvöllum er þó ekki jafn skýr og Sigurður vill vera láta. Undir lok átjándu aldar, til að mynda, voru hvorki „fyrirframgefnar hugmyndir“ né fagurfræði staðnum hagstæðar, jafnvel vísað í staðinn sem einn þann ljótasta á Íslandi! Vegna breyttra viðhorfa má segja að Þingvellir átjándu aldar og Þingvellir nítjándu aldar séu ekki sami staðurinn.
Alþingi var lagt niður um aldamótin 1800, enda voru Þingvellir úr alfaraleið og óhentugir til starfa embættismanna. Þegar Alþingi var síðan endurreist 1845 réðu sömu praktísku ástæður því fyrst og fremst að ákveðið var að hafa þinghaldið í Reykjavík. Það er ljóst að hinn hugmyndafræðilegi kraftur að baki kröfunni um endurreisn Alþingis vísar lítt til þeirrar stofnunar sem lögð var niður fyrir aldamótin 1800. Söguskoðun og rómantískar hugmyndir á fyrri hluta nítjándu aldar ruddu þeirri skoðun smám saman brautargengi að þjóðveldistíminn hefði verið gullöld þjóðarinnar, en henni síðan hnignað. Hið endurreista Alþingi sótti því augljóslega réttlætingu og innblástur til Alþingis þjóðveldisins fremur en þinghalds síðari tíma.
Frá 1848 til 1907 voru haldir 25 Þingvallafundir. Hér vaknar strax áhugaverð spurning: Af hverju voru baráttufundir sjálfstæðisbaráttunnar ekki frekar haldnir í Reykjavík? Hafa ber í huga að samgöngur voru erfiðar og að á Þingvöllum var aðstaða til fundahalda slæm, á meðan slík aðstaða var til staðar í Reykjavík. Reykjavík var því hinn „eðlilegi“ fundarstaður og valið á Þingvöllum þarfnast sérstakra skýringa. Að halda stjórnmálafundi á Þingvöllum hafði táknrænt gildi í sjálfu sér sem fundur í Reykjavík hefði tæplega haft. Hugmyndaheimur sjálfstæðisbaráttunnar upphóf þjóðveldið og Þingvelli sem tákn um fornt frelsi; hvorttveggja vísaði veginn til framtíðar burt frá niðurlægingu erlendra yfirráða. Það er því freistandi að túlka Þingvallafundi sem eins konar pílagrímaferðir. Þjóðernishyggjan upphóf Þingvelli sem helgan stað og með endurteknum fundahöldum var hin sérstaka staða Þingvalla í orðræðu þjóðernishyggjunnar styrkt í sessi og grundvöllur lagður að helgistað þjóðarinnar allrar. Þingvellir urðu því ekki aðeins áfangastaður örfárra hugsjónamanna, heldur staður þar sem línur voru lagðar um framtíðarhagsmuni þjóðarinnar.
Líkt og Þingvallafundir urðu ómissandi hluti af sjálfstæðisbaráttunni urðu þjóðhátíðir á Þingvöllum hluti af táknrænum hátíðarhöldum þjóðríkisins. Þessar þjóðhátíðir eru minning 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar 1874, Alþingishátíðin 1930, Lýðveldisstofnunin 1944, 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974, hátíð í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins 1994 og kristnitökuhátíðin árið 2000. Hátíðirnar hafa frá 1930 verið með því sniði að annars vegar er pólitískt innihald með þátttöku Alþingis, ræðum ráðamanna og guðsþjónustu og hins vegar skemmtun af ýmsu tagi. Þessi tvískipting kallast á við þann hugmyndalega grunn sem hátíðirnar byggjast á; annars vegar Alþingi þjóðveldisins sem holdgerving hins sjálfstæða ríkis og síðan þá hugmynd að Alþingi þjóðveldistímans hafi verið annað og meira en staður til að útkljá deilumál og setja lög, heldur þjóðhátíð: miðstöð menningar, skemmtunar og viðskipta tvær vikur á ári. Sigurður Nordal kallaði Alþingi til forna þjóðhátíð og þjóðarskóla, þar hefði þjóðin orðið til. Á þjóðhátíðinni 1974 sagði Gylfi Þ. Gíslason, þá forseti Alþingis, að á Þingvöllum hafi þeir útlendu menn sem námu landið „orðið Íslendingar“ því samhliða hinu forna Alþingi „var hér ávallt samtímis haldin þjóðhátíð […] Um íslenska þjóð má með sanni segja að hún hafi fæðst á Þingvöllum.“ Ef þjóðin varð til á Þingvöllum má segja að hún hafi með táknrænum hætti átt að endurfæðast eða staðfesta áframhaldandi tilvist sína sem sjálfstæðrar einingar með hátíðahöldum á Þingvöllum.
Þingvellir urðu því á nítjándu öld tákn fyrir glæsta sjálfstjórn landsmanna fyrr á öldum auk þess sem nýtt viðhorf til náttúrunnar ruddi sér smám saman til rúms. Í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar runnu sagan og náttúran saman í eitt samkvæmt guðlegri forsjá. Hin stórbrotna og fagra náttúra hæfði hinni glæstu sögu og hetjuskap fortíðarinnar. Í hinu fræga kvæði sínu „Ísland“ tengdi Jónas saman þjóðveldið og Þingvelli; staðurinn verður að tákni fyrir fornt frelsi og frægð og hnignun hans – „nú er hún Snorrabúð stekkur“ – táknræn fyrir hnignun þjóðarinnar. Í kvæðinu „Fjallið Skjaldbreiður“ lýsir Jónas því hvernig „guð og eldur“ búa til bergkastala handa frjálsri þjóð. Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti, sagði á Alþingishátíðinni 1930, að Þingvellir væru „þinghöll“ og „þingsalur af guði gerður“; 1944 vísaði Sigurgeir Sigurðsson biskup til Þingvalla sem „musteri, sem hönd Drottins sjálfs hefir gjört“ og líkti Þingvöllum við „dýrlega hamrakirkju.“ Líkingarnar um Þingvelli sem kastala, höll og musteri, kallast á við þá staðreynd að á Þingvöllum er fátt sýnilegra ummerkja um forna frægð. Það er ljóst að tengsl sjáanlegra mannvistarleifa á Þingvöllum og Alþingis á þjóðveldistímanum eru ekki skýr, enda erfitt að bera saman frásagnir frá 13. öld um enn eldri atburði og stofnanir við sýnilegar mannvistarleifar, sem eru líklega flestar frá 18. öld. Umræða um forn mannvirki á Þingvöllum hefur því að miklu leyti snúist um ágiskanir og jafnvel hreinan tilbúning. Lögberg, helgasti staður Þingvalla, er ágætt dæmi um þetta. Lögberg var að líkindum síðast notað 1271 og hvarf staðsetning þess smám saman í gleymsku. Óvissan um staðsetningu Lögbergs kom þó ekki í veg fyrir að þar væri lýðveldið stofnað 1944.
Bergkastalalíking Jónasar Hallgrímssonar og aðrar líkingar af sama meiði gera landslagið að sýnilegu tákni; það „talar til augnanna.“ Mikilvægi sýnilegra tákna af þessu taginu má rekja til Endurreisnartímans, en fékk byr undir báða vængi undir lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu vegna byltingar í samgöngum og nýrrar tækni á borð við ljósmyndun og kvikmyndir. Við þessar aðstæður urðu sjónræn þjóðartákn í formi bygginga, jafnvel borgarhluta sem höfðu sameiginlega og sýnilega vísun fyrir ólíka hópa í samfélaginu.. Nauðsynlegt er að setja Þingvelli í þetta samhengi: hin sjónræna upplifun af Þingvöllum er sterk og auðvelt að gera sýnilegt tákn úr landslagi Þingvalla, hvort sem er með ljósmyndum, teikningum og málverkum. Þingvellir eru ekki aðeins kjörinn helgistaður vegna tengsla Alþingis og gullaldarinnar við staðinn, heldur ekki síður vegna þess að sjónrænt getur tilkomumikið landslag Þingvalla bætt úr skorti þjóðarinnar á fornum byggingum og tilkomumiklum rústum.
Þingvellir, líkt og aðrir staðir af svipuðum toga, eru þó opnir fyrir ólíkri túlkun. Viðhorf Halldórs Laxness til Þingvalla var til dæmis á skjön við einhliða upphafningu staðarins. Þingvellir voru helgur staður í hans huga ekki aðeins vegna náttúrufegurðar eða glæstrar fortíðar, heldur einnig vegna þess að staðurinn var tákn um niðurlægingu og kúgun alþýðufólks í gegnum aldirnar. Halldór reyndi því að endurskilgreina hugtakið helgi með því að láta það ná til neikvæðra hluta ekki síður en jákvæðra. Í Íslandsklukkunni er til að mynda fjallað „um þennan helga stað Þíngvelli við Öxará þar sem fátækir menn hafa verið píndir svo mikið að seinast fór bergið að tala.“ Líkt og örnefni á borð við drekkingarhyl og gálgaklett bera með sér, hefðu „fyrirframgefnar hugmyndir“ okkar um Þingvelli getað verið með öðrum hætti. Í stað þess að leggja áherslu á glæsta fortíð, hefðu kúgun og erlend yfirráð verið ráðandi stef.
Þingvellir eru ekki aðeins helgistaður þjóðarinnar, heldur einnig þjóðgarður. Hugmyndir fólks um hvað það hefur í för með sér hafa breyst mikið. Í sönnum ungmennafélagsanda var til að mynda mikil skógrækt á Þingvöllum, gjarnan á erlendum trjátegundum. Slík skógrækt þykir í dag andstæð hugmyndum um þá náttúruvernd sem þjóðgarðar snúast um. Hjartastaðurinn, hinn sérstaki staður Íslendinga, er á heimsminjaskrá UNESCO. Því fylgja ýmsar kvaðir um vernd og umgegni. Viðhorf okkar til Þingvalla hafa því breyst og munu halda áfram að breytast á næstu árum.
Birgir Hermannsson
Greinin er stytt útgáfa af greininni „Hjartastaðurinn: Þingvellir og íslensk þjóðernishyggja“ Bifröst Journal of Social Science — 5-6 (2011-2012). Nálgast má greinina á skemman.is