Ásgrímur Jónsson (1876 - 1958)

Nafn

Ásgrímur Jónsson (1876 - 1958)

Ferilskrá

Ásgrímur er einn brautryðjenda íslenskrar myndlistar og varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi. Ásgrímur fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann 1900-1903. Ásgrímur dvaldist ytra til ársins 1909 en síðasta árið hafði hann vetursetu á Ítalíu. Á leið sinni til og frá Ítalíu kom hann við í Berlín og Weimar í Þýskalandi og sá m.a. verk frönsku impressjónistanna sem höfðu djúp áhrif á hann.

Íslensk náttúra var frá upphafi aðalviðfangsefni Ásgríms og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann trúr, þótt áherslur og vinnuaðferðir breyttust á hartnær 60 ára listamannsferli. Ásgrímur vann enn fremur brautryðjandastarf við myndskreytingar íslenskra þjóðsagna og ævintýra og er einn mikilvirkasti þjóðsagnateiknari Íslendinga.

Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll eftirlátin listaverk sín ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík.

Heimild: Listasafn Íslands