Eitthvað í þá áttina

,,Eitthvað í þá áttina'''' sýning um kortagerð, skrásetningu og staðsetningu opnar laugardaginn 14.maí kl. 15.00 í Listasafni Reykjanesbæjar.

Á sýningunni er reynt að varpa ljósi á mismunandi nálgun og vinnuaðferðir listamanna sem fjalla um kort, staðsetningu og skrásetningu í verkum sínum.

Sumir þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni vinna markvisst út frá efninu, á meðan aðrir hafa staldrað þar við en síðan haldið í aðrar áttir. Val á verkum spannar 30 ára tímabil en sum eru unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu.
Samtímis er fléttað inn í sýninguna landfræðilegum kortum og öðru minnisverðu, frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og með því er teflt saman skráningarþörf úr listheimi og raunheimi í von um að úr verði spennandi samtal.

Eftirfarandi listamenn eiga verk á sýningunni;
Ásta Ólafsdóttir, Bjarni H.Þórarinsson, Didda Hjartardóttir Leaman, Einar Garibaldi Eiríksson, Etienne de France, Eygló Harðardóttir, Gjörningaklúbburinn, Hildigunnur Birgisdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Inga Svala Þórsdóttir, Ingirafn Steinarsson, Katrín Sigurðardóttir, Kristinn E.Hrafnsson, Kristinn G.Harðarson, Kristín Rúnarsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Þorgerður Ólafsdóttir.

Sýningarstjórar eru Didda H.Leaman og Inga Þórey Jóhannsdóttir.

 

 

Eitthvað í þá áttina

Tilgangur sýningarinnar er að gefa mynd af mismunandi nálgunum og vinnuaðferðum listamanna sem fjalla um kort, staðsetningu og skrásetningu í verkum sínum. Þegar skoðuð voru verk frá seinustu þrjátíu árum tengd þessu viðfangsefni, varð ljóst að af nógu er að taka í fleiri
eða stærri sýningar. 

Sumir listamennirnir sem kynntir eru vinna markvisst útfrá umfjöllunarefninu, á meðan aðrir hafa staldrað þar við en síðan haldið í aðrar áttir. Í verkum fremsta og aftasta listamanns í stafrófsröðinni, Ástu Ólafsdóttur og Þorgerðar Ólafsdóttur, er viðfangsefnið töskur. Á milli tilurðar tösku Ástu og Þorgerðar liðu þrjátíu og þrjú ár. Taska Ástu frá því 1978, Hans og Gréta, inniheldur í hnotskurn áhöld kortagerðar, brauð og smásteina til að marka leiðina. Í ævintýrinu brást brauðið vegna hungraðra fugla sem tíndu það upp í sakleysi sínu, en steinarnir þjónuðu sama tilgangi án þess að freista fuglanna og vísuðu veginn. Taska Þorgerðar er bakpoki unninn 2011 með það að sjónarmiði að sá sem leggur af stað með hann í ferðalag hafi möguleika á að týna sér, jafnvel í kunnuglegu umhverfi, í pokanum er þó öryggistæki, stikur sem tímabundið geta markað för hans fram og aftur. Til að tapa áttum þarf ferðalangurinn að vera reiðubúinn að skoða hlutina í nýju ljósi og finna það sem yfirsést hefur í umhverfinu.

Með vali á þessum verkum og uppsetningu sýningarinnar vakir einnig fyrir okkur að skoða verkin í sögulegu samhengi. Hér varða eldri verkin veginn og eru í samspili við nýrri verk, unnin sérstaklega fyrir sýninguna. Í öðrum hluta sýningarinnar eru landfræðileg kort og annað minnisvert, fengið að láni frá Byggðasafni Reykjanesbæjar, sem gefur mynd af staðháttum á Reykjanesi og skráningu gegnum tíðina. Það er von sýningarstjóra að með því að að tefla saman skráningarþörf úr listheimi og raunheimi skapist spennandi samtal.

Didda Hjartardóttir Leaman og Inga Þórey Jóhannsdóttir
 

 

 

 

 

 

 

 

AFMÖRKUN – AÐGREINING – FLOKKUN – LANDAMÆRI

Þörfin fyrir að flokka veruleikann á ákveðinn hátt er líklega hluti af lífi fólks alls staðar í heiminum. Franski mannfræðingurinn Claude Levi-Strauss undirstrikaði að alls staðar leitast fólk við að flokka umhverfi sitt til þess að koma reglu á það, og taldi að flokkun í andstæður væru manneskjunni mikilvæg til skilnings á umhverfi sínu og samfélagi. Flokkun í andstæður, svo sem svart og hvítt, gott og vont, er því hluti af skilningsleit manneskjunnar á heiminum og gefur honum merkingu. Norski mannfræðingurinn Fredrik Barth dregur athygli að flokkun á nokkuð annan hátt með því að benda á afmörkun sem lykilþátt í sköpun ólíkra hópa eða þjóðerna. Með því beinir Barth sjónum að því að það þarf að búa til landamæri og viðhalda þeim til að gefa „menningardótinu“ inntak og merkingu. Landamærin skapa tilfinningu fyrir heild þess sem þau reyna að ramma inn.

Heimili WoDaaBe fólksins í Vestur-Afríku endurspeglar vel hversu fjölbreytilega manneskjur flokka og afmarka umhverfi sitt. Með hjarðmennsku reyna WoDaaBe að nýta sér erfið lífsskilyrði Sahel svæðisins án þess þó að reyna að brjóta landið undir sig. Þeir flytja oft búferlum á nokkurra daga fresti til að nýta sér gras og vatn á þessu þurra landsvæði. Heimili þeirra samanstendur ekki af tjaldi eða annars konar skjóli og er því að sumu leyti í andstöðu við heimili eins og við á Íslandi skiljum hugtakið því það felur hvorki í sér veggi af neinu tagi né er það bundið ákveðnu rými. En rétt eins og á íslensku heimili eru mjög skýrar reglur um skipulagningu þess og uppröðun hluta, sem og hverjir hafa aðgang. Meðal mikilvægustu hluta þess sem mynda heimili WoDaaBe eru borð, rúm, eldstæði og kálfareipi sem raðað er upp á ákveðinn hátt. Bakhlið heimilisins snýr í austur en framhlið þess í vestur. Þrátt fyrir að menn og dýr vakni því í sífellu á nýjum stað, er það alltaf innan sama heimilisins, innan um sömu hlutina sem raðað er upp á sama hátt með sólina í sömu
afstöðu. Þannig má kannski segja að frá ákveðnu sjónarhorni er það umhverfið sem hreyfist og breytist en heimilið sem standi kyrrt.

Reglusemi í uppröðun og fyrirfram ákveðin notkun ákveðinna rýma má ekki síður sjá á íslenskum heimilum, sem endurspeglast meðal annars í því að í langflestum tilfellum stendur stofa fyrir opið eða afmarkað rými með sófa, borði og tveimur stólum þar sem gestir hafa frjálsan aðgang en svefnherbergi af rúmi, náttborði og skáp þar sem mjög afmarkaður fjöldi einstaklinga stígur inn óboðinn.Þó má leggja sérstaka áherslu á flokkun og afmörkun í tengslum við þróun þess sem oft er kallað nútíma samfélag. Hugtak franska heimspekingsins Michel Foucault, yfirvald (governmentality) nær yfir hvernig kortlagning af margvíslegu tagi hefur orðið mikilvægur þáttur í eftirliti og stjórnun sem og að hafa verið einn lykilþáttur í yfirráðum og stjórnun Evrópubúa yfir öðrum heimsálfum. Nýlenduviðföngum var skipt í ímyndaða kynþáttaflokka, en einnig í þjóðernishópa sem í flestum tilfellum fólu í sér mun harðari landamæri en þekktust meðal þessara samfélaga. Afmörkun einstaklings í ákveðinn hóp hafði áhrif á hvernig nýlenduveldið skipulagði líf hans og lífshætti fyrir hann, sem og réttindi og skyldur. Slík yfirráð eru þó á engan hátt bundin við nýlendutímann heldur eru samtímanum, eins og Foucault lagði áherslu á, mikilvæg til að skilja kerfi valds sem er ekki bundið eingöngu við ríkið heldur samofið ólíkum stofnunum. Kerfisbundið eftirlit og söfnun gagna hefur lagt þunga áherslu á mikilvægi vísindalegrar þekkingar sem litið er á sem hlutlaust tæki til að bæta lífsskilyrði einstaklinga. Í nafni hennar er upplýsingum safnað um innstu smáatriði í lífi einstaklinganna, og þeir flokkaðir í ákveðna hópa. Þessar upplýsingar eru í raun þáttur í því að flokka og afmarka heiminn og þannig fylgjast með, á nákvæman hátt, lífi og athöfnum einstaklinga og stjórna og móta hegðun þeirra. Söfnun upplýsinga og flokkun þeirra skapar samhliða ákveðna hópa og gefur þeim merkingu í samfélagslegu samhengi, svo sem innflytjandi, sjúklingur, fangi, borgari. Einstaklingar læra í flestum tilfellum að þekkja hlutverk sitt innan þessara flokka án þess að velta nauðsynlega fyrir sér lögmæti flokkunarinnar.

Kristín Loftsdóttir, mannfræðingur

Kortagerð – hin vísindalega sjónsköpun

Kort búa yfir sérstæðu afli til þess að tengja saman margvíslegar upplýsingar og miðla sjónrænt á einfaldan, áhrifaríkan og aðlaðandi hátt. Kort eru afar öflugur upplýsingamiðill en endurspegla ekki endilega hlutlausa mynd af raunveruleikanum. Áróðursafl þeirra hefur lengi verið þekkt og óspart nýtt af þjóðum, stofnunum og öðrum sem hafa þurft að koma upplýsingum eða áróðri á framfæri.Enginn veit hvenær fyrsta kortið leit dagsins ljós en elstu kort sem þekkjast voru rist í leirskífur fyrir um 4500 árum í hinni fornu Babylóníu. Vitað er að margar fornþjóðir kortlögðu eignalönd í ýmsum tilgangi. Samhliða menningar‐ og þjóðfélagslegum framförum var sífellt krafist meiri nákvæmni í kortagerð. Á fjórðu öld f. Kr. áttuðu Grikkir sig á kúlulögun jarðar og kynntu nýjar hugmyndir með miðbaugi og skiptingu í heit‐, tempruð og köld belti. Dicaerchus, lærisveinn Aristótelesar, dró fyrsta breiddarbauginn frá Súlum Herkúlesar (Gíbraltarklettur) langsum eftir Miðjarðarhafi. Ástæður til þess að merkja staði á kort voru af efnahagslegum toga og ekki síst mikilvægar sjófarendum.

Fyrr á öldum kostaði kortlagning óhemjufé og tíma; þetta var verk lærðra kortagerðarmanna. Frá um 1960 hafa tækniframfarir umbreytt kortagerð og flutt frá pennableki í tölvutækni. Byltingar hafa einnig komið úr öðrum áttum. Sem dæmi má nefna að tilkoma mæligagna frá gervitunglum hefur gjörbreytt sýn okkar á náttúrufar, vistkerfi og jarðfræðilega ferla. Tölvubyltingin hefur óumdeilt gert mögulegt að búa til kort sem hefði aldrei tekist með handvirkum aðferðum. Hægt er að vinna að nútímakortagerð hvar sem er svo fremi sem gagnagrunnar eru aðgengilegir. Ein afleiðing umbyltingarinnar er lýðræði kortagerðarinnar; hver sem er getur komið kortum í umferð. Það hefur tvær hliðar; sjónarmið almennings geta staðið jafnfætis vilja yfirvalda en það er engin trygging fyrir góðri hönnun eða nákvæmni. Kortum er skipt í staðfræðileg kort og áherslukort. Staðfræðileg kort lýsa landfræðilegum staðháttum þar sem dregin er fram misnákvæm mynd af landsvæðum eða borgum. Íslandskort er
dæmi um staðfræðikort, sömuleiðis götukort. Áherslukort birta eigindlegar eða tölfræðilegar upplýsingar af einhverju tagi. Slík kort sjást víða og í fjölbreytilegum birtingarmyndum. Mannfjöldakort eða úrkomukort eru áherslukort og hver kannast ekki við pólitískt landslag? Áherslukort koma upplýsingum á framfæri með þrennu móti: með skilyrtum upplýsingum um staðsetningu, tíma eða sérstaka atburði, almennum upplýsingum um staðhætti, aðstæður eðarýmisleg mynstur og með samanburði milli korta. Kort sem sýndi búferlaflutninga vesturfara í lok 19. aldar, birti siglingaleiðir, fjölda brottfluttra og ársbundna tíðni flutninga innihéldi allar ofantaldar áherslur.

Kortagerð getur sameinað þætti sem í fyrstu virðast óskyldir eins og vísindi, fagurfræði og listir. Bakhjarlar nútíma kortagerðar eru raunvísindi og gagnagrunnar. Stærðfræði og reiknilíkön móta grunninn; vörpun og hnitakerfi til þess að fella raunverulegt umhverfi niður á tvívíða mynd á trúverðugan hátt. Að baki upplýsinga liggur gagnaöflun, oft með vísindalegum aðferðum og mikilli vinnu. Það þarf ekki að birtast á sjálfum kortunum heldur ræðst af ásetningi verksins. Myndræn framsetning upplýsinga er svo lykillinn í að vekja athygli á kortum. Brúin á milli er nefnd vísindaleg sjónsköpun, jafnvægi vísinda og lista. Sjónsköpun upplýsinga er af svipuðum toga en á við þegar sjónræn framsetning og greining tölulausra upplýsinga er þjappað í samantektarform. 

Kortahönnun er í senn huglæg og efnisleg; hönnunarferlinu líkur ekki þegar kort er fullgert. Meginskrefin eru fimm; a) hvernig blasir viðfangsefnið við séð af landi í raun og veru,b) hver er tilgangurinn og markhópurinn, c) gagnaöflun í ljósi tilgangs, d) hönnun og
uppbygging og e) hver er nytsemi kortsins. Sköpunarkraftur í kortagerð er á vissan hátt sambærilegur og í listum. Munurinn felst kannski helst í að kort eru skilgreind afurð og leyfa ekki sama frjálsræði og listir. Rannsóknir benda til þess að það hvernig kort talar við áhorfanda ráðist ekki einungis af uppbyggingu studdri vísindalegum rökum heldur spili hið listræna einnig stóran þátt.

Heimildir:
Slocum, T. A., McMaster, R. B., Kessler, C. F. & Howard, H. H. (2009). Thematic cartography and geovisualization. Pearson Education, Inc. USA.

Snævarr Guðmundsson, kortagerðarmaður

Með listina í farteskinu

Upp úr miðri síðustu öld varð áherslubreyting í samtímalistum á alþjóðavísu; innreið hugmyndalistar. Listaverkið stökkbreyttist, öðlaðist nýja eiginleika og markmið. Litir og form voru ekki lengur aðalatriðið, listhluturinn - málverkið, höggmyndin - var óefnisgert, varð hugmynd, tillaga, ferli, gjörningur. Listin átti sér ekki lengur öruggan samastað í hvítu rými sýningarsalarins, óháð ytri kringumstæðum, tíðaranda og samfélagi eins og hugmyndafræði módernismans boðaði. Listaverk urðu hluti af stærra samhengi hlutanna og óaðskiljanleg frá því. Listin vildi skoða heiminn, í stað þess að láta heiminn horfa á sig. Þar sem listaverk voru nú ekki lengur endilega efnisleg og áþreifanleg, var gripið til

nýrra vinnuaðferða við sköpun þeirra. Miðlar sem mæla, flokka og skrásetja umhverfið urðu ofarlega á baugi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, jafnt í Evrópu og Bandaríkjunum.Ljósmyndin var notuð til skrásetningar, einnig kerfi eins og ýmsar mælieiningar, tíma- eða stærðareiningar að ógleymdu tungumálinu. Joseph Kosuth skilgreindi „listina sem hugmynd (sem hugmynd).“ „Myndlist er ekki leikur með liti og form,“ skrifaði Sigurður Guðmundsson. Í listheiminum fóru hugmyndir hratt á milli heimsálfa. Frumkvöðlar íslenskrar hugmyndalistar störfuðu í Evrópu og báru hugmyndir heim, með verkum sínum og í kennslu. Kristján Guðmundsson myndgerði lengd feneyskrar og íslenskrar nætur.

Að skilja heiminn
Að kortleggja og skrásetja er ein leið til að skilja heiminn. Ein leið listamanna til þess að bregðast við heimi sem verður sífellt flóknari viðfangs, óhöndlanlegur í raunveruleikanum en á einhvern hátt skiljanlegur í gegnum tákn. Hugmyndir franska heimspekingsins Jean Baudrillard um veruleika okkar sem eftirmynd af sjálfum sér, í sífellu endurvarpað í gegnum fjölmiðla voru áhrifaríkar á tímum uppgangs hugmyndalistar. Á sama tíma skrifaði franski fræðimaðurinn Guy Debord um samfélag sjónarspilsins. Ein aðferð til þess að nálgast svo flókinn raunveruleika er að afmarka hann, skoða smærri einingar í stað heildar sem við höfum fyrir löngu misst sjónar á. Sem smáþjóð og eyjarskeggjar erum við kannski sérlega áhugasöm um mælingar og kortlagningu. Samspil náttúruskoðunnar, ljóðlistar og kortagerðar birtist í starfi Jónasar Hallgrímssonar skálds sem tókst að skoða landið, kortleggja það og yrkja um það í senn. Pétur Gunnarsson rithöfundur skrifaði magnað verk sem hann nefndi Myndin af heiminum. Í víðum skilningi má segja að sérhvert listaverk sé mynd af heiminum, viðleitni til þess að skilja heiminn.Á sýningunni eru verk eftir tuttugu og tvo listamenn og vinnuaðferðir þeirra og efnistök eru afar mismunandi. Áberandi þema á sýningunni er landið sjálft og mynd okkar af því, mynd sem um leið er eins konar sjálfsmynd. Einar Garibaldi birtir í verki sínu hversu erfitt það er að hafa yfirsýn. Í málverkum sínum birtir hann takmörk þess myndmáls sem við erum vön að treysta, myndmáls landakorta. Ekki aðeins eru tákn kortanna nær abstrakt og merking þeirra lærð en ekki sjálfsprottin, heldur birtir hvert kort einungis takmarkaða mynd, er tákn fyrir stærri heildarmynd sem okkur er alltaf hulin.

Borgarumhverfið og táknmynd okkar af því er viðfangsefni Kristins G. Harðarsonar í verki þar sem upplifun einstaklings kallast á við leiðarvísi, borgarkort. Etienne De France setur fram hugmyndir sínar að möguleikum í borgarumhverfi. Híbýli og íverustaðir eru einnig viðfangsefni listamanna á sýningunni eins og í verki Sólveigar Aðalsteinsdóttur, persónulegt rými kallast á við stærri heild, opinbert rými. Hugmyndir okkar um líkamann eru bundnar tækni jafnt sem eigin skynjun í verkum þeirra Katrínar Sigurðardóttur og Eyglóar Harðardóttur. Gjörningaklúbburinn notar táknmyndir varga til þess að túlka tilhneigingar í samfélaginu og Pétur Örn Friðriksson smíðar lokuð kerfi sem rannsókn á öðrum kerfum innan
þjóðfélaga.

Kristinn E. Hrafnsson er einn þeirra listamanna sem hér sýna sem á ferli sínum hefur velt fyrir sér staðsetningu, skrásetningu, mögulegri merkingu korta og leiðarvísa á ferli sínum. Hvar erum við þegar áttavitinn sýnir bara norður? Á suðurpólnum? Eða er sýn okkar svo takmörkuð við eigin umhverfi að engar aðrar áttir rúmast í huga okkar? Og eins og Inga Svala Þórsdóttir bendir á er skynjun okkar bundin birtubrigðum norðursins. Hér hafa aðeins verið nefndir nokkrir þeirra sem eiga verk á sýningunni. Hin fjölbreyttu verk veita ekki svör heldur eru leit, leit að myndinni af heiminum, landinu og okkur sjálfum.

Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur og gagnrýnandi