Eygló Harðardóttir

Nafn

Eygló Harðardóttir

Ferilskrá

Eygló (f.1964) vinnur gjarnan tví- og þrívíða abstraktskúlptúra úr pappír, innsetningar og bókverk. Hráefni eins og pappír, bæði nýr og endurnýttur, litríkt fundið efni, plast, viður, grafít og gler leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og eru drifkraftur til að kanna möguleika og takmarkanir miðisins hverju sinni.  Hún lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983–87) og Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie, í Enschede, Hollandi (1987–90), en auk þess hefur hún lokið Meistaragráðu í Kennslufræðum við Listaháskóla Íslands (2014). 

Á ferli sínum hefur Eygló starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis, þar á meðal einkasýningar í Nýlistasafninu (2018) og Harbinger og Týsgallerí (2015) og Listasafni ASÍ (2013). Sumarið 2018 tók hún þátt í nokkrum samsýningum m.a. heimagalleríinu 1.h.v., Listasafni Íslands og hjá Wind and Weather Window gallerí á Listahátíðí Reykjavíkur.

Samhliða listsköpun, sem hún hefur hlotið starfslaun, styrki og viðurkenningar fyrir, hefur Eygló sinnt kennslu frá árinu 2000, bæði í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík. Verk Eyglóar eru meðal annars varðveitt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Ríkisútvarpinu og menningarsetrinu Kultuurikauppila í Finnlandi. Frá árinu 2015 hefur Eygló unnið innan ramma bókverksins og dvaldi hún nýlega hjá WSW Residency, í New York. Þar gerði Eygló ýmsar efnis- og litatilraunir á prentverkstæði, og varð útkoman meðal annars bókverkið Annað rými.