Á bóndadag

Föstudaginn 20. jan. opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýninguna " Á Bóndadag " í Listasafni Reykjanesbæjar. Í sýningarskránni segir Aðalsteinn Ingólfsson m.a. : " Í myndverkum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, á sér stað óvenjulegra stefnumót íslenskra og erlendra myndlistarhefða en við höfum áður séð. Annars vegar eru verk hennar íslenskara en allt sem íslenskt er, sprottin beinustu leið upp úr margra alda gamalli tálgu-og tréskurðarhefð meðal þjóðarinnar, í bland við alþýðlega sagnalist af kynlegum kvistum eins og þeim sem birtast ljóslifandi í skáldsögum Jóns Thoroddsen. Á hinn bóginn sækir Aðalheiður vinnubrögð sín til myndlistarmanna beggja vegna Atlantsála sem meðvitað og ómeðvitað ögruðu hámenningarlegum viðhorfum neysluþjóðfélagsins með endurvinnslu úrgangs af ýmsu tagi, upp í hugann koma Merz-hús dadaistans Kurts Schwitters, jafnvel einnig umhverfisverk einfaranna Fernands Cheval í Lyon og Simons Rodia í Los Angeles."


Sýningin er liður í verkefninu Réttardagur- 50 sýninga röð og mun vera sú 34. í röðinni. Stefnt er að því að setja upp 50 sýningar á tímabilinu júní 2008 til júní 2013 sem allar fjalla á einn eða annan hátt um sauðkindina og þá menningu sem skapast út frá henni. Nú þegar hafa sýningarnar ratað í flesta landshluta auk Hollands, Þýskalands og Bretlands. Verkefnið vinnur Aðalheiður yfirleitt í samstarfi við heimamenn og aðra listamenn á hverjum stað fyrir sig.


Að þessu sinni taka 11 listamenn auk Aðalheiðar, þátt í því að gera Þorrablótsstemmningu á Bóndaginn í Reykjanesbæ. Gestalistamennirnir eru Arnar Ómarsson og Sean Millington sem gera rýmið fyrir viðburðinn, Guðbrandur Siglaugsson gerir textaverk, Gunnhildur Helgadóttir gerir borðbúnað, Jón Laxdal gerir fylgihluti, Nikolaj Lorentz Mentze gerir hljóðfæri og hljómsveitin Hjálmar verður með uppákomu við opnun. Á opnuninni flytur Aðalheiður dansverk og boðið verður upp á veitingar að þjóðlegum sið.


Listasafn Reykjanesbæjar hefur í nokkur ár staðið fyrir kynningu á íslenskri myndlist í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Í næstu viku verður hægt að sjá þar skúlptúra eftir Aðalheiði undir heitinu „Ferðalangar" og telst það 35.sýningin í Réttardagsverkefninu.


Sýningin stendur til 18. mars. Aðgangur ókeypis.

Réttardagur - 50 sýninga röð

Þessi töfrum líki dagur þegar fé er smalað af fjalli, upphaf nýs tímabils, menning og allsnægtir.

 

Verkefnið á uppruna sinn í mínu nánasta umhverfi þar sem ég bý 20 metra frá Reistarárrétt í Hörgársveit í Eyjafirði og einnig uppvaxtarárunum á Siglufirði við fjárbúskap afasystur minnar í túninu heima. Við áttum heima ofarlega í bænum, fyrir ofan kirkjuna, alveg við fjallsrætur. Sem barn fékk ég að hjálpa til við þau störf sem fylgja búskapnum, ýmist úti eða inni. Merkilegt hvað fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóðarsál Íslendinga. Innan um alla nýsköpun heldur sauðkindin velli.

 

Ýmsar myndir mannlífs hafa verið viðfangsefni mitt alla tíð. Fyrst á tvívíðan flöt, en nú í seinni tíð þrívíðan.  Þegar vinna mín beindist að sauðkindinni áttaði ég mig á því að ég hafði verið að vinna á svipuðum nótum alla tíð. Með þessu verkefni gefst mér færi á að koma hugsunum mínum skýrar á framfæri og skoða í þaula alla fleti íslenskrar bændamenningar.

 

Sýningin “ Á Bóndadag “ í Listasafni Reykjanesbæjar er sú 34. í röðinni í Réttardagsverkefninu og fjallar um samkomuhald Íslendinga á Þorra fyrr og nú. Þegar nágrannar hittast með afurðir sauðkindarinnar haganlega raðað í Þorratrogin. Kvenfélagið sér um barinn og hljómsveitin er skipuð heimamönnum.  Það er eins og tíminn standi kyrr í félagsheimilinu, fátt breytist annað en klæðaburður og hárgreiðsla gestanna.

 

Ég hef gjarnan fengið fólk til liðs við mig. Fyrirlesara, tónlistarfólk, börn og unglinga, leikara, ljóðskáld og aðra myndlistamenn.  Að þessu sinni eru það listatvíeykið Ar-Se Arnar Ómarsson og Sean Millington sem skapa rýmið og Arnar föt í fatahengi, Jón Laxdal Halldórsson gerir skó, töskur og flöskur, Gunnhildur Helgadóttir gerir glös, Nikolaj Lorentz Mentze smíðar hljóðfæri, Guðbrandur Siglaugsson á textaverkin og hljómsveitin Hjálmar leikur fyrir dansi. Öll unnum við að sameiginlegu verki sem hér er sýnt sem einn stór skúlptúr.

 

Guðrún Þórsdóttir, Brák Jónsdóttir, Jón Einar Björnsson, Margrét Guðbrandsdóttir, Odda Júlía Snorradóttir, Ugla Snorradóttir og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir aðstoðuðu við uppsetningu verksins og gerð sumra verkanna.  Öllu þessu fólki sem og starfsfólki Listasafns Reykjanesbæjar kann ég ómetanlegar þakkir.

 

Markmið verkefnisins er að sýna breiða mynd af samfélagi sem lætur ekki mikið yfir sér en er engu að síður undirstaða vænlegs lífs. Hinar ýmsu hliðar menningar sem við tökum sem sjálfsögðum hlut og hugum því ekki dags daglega að mikilvægi hversdagsleikans.

 

Tími verkefnisins er á milli 45 og 5tugs afmælis míns. Ég hef frá því ég var 35 ára sett upp afmælissýningar. Sú umfangsmesta var " 40 sýningar á 40 dögum " allt ólíkar sýningar settar upp í 14. löndum.

 

www.freyjulundur.is

 

 

Bóndadagur

 

Í myndverkum  Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, á sér stað óvenjulegra stefnumót íslenskra og erlendra myndlistarhefða en við höfum áður séð.  Annars vegar eru verk hennar íslenskara en allt sem íslenskt er, sprottin beinustu leið upp úr margra alda gamalli tálgu-og tréskurðarhefð meðal þjóðarinnar, í bland við alþýðlega sagnalist af kynlegum kvistum eins og þeim sem birtast ljóslifandi í skáldsögum Jóns Thoroddsen. Á hinn bóginn sækir Aðalheiður vinnubrögð sín til myndlistarmanna beggja vegna  Atlantsála sem meðvitað og ómeðvitað ögruðu hámenningarlegum viðhorfum neysluþjóðfélagsins með endurvinnslu úrgangs af ýmsu tagi, upp í hugann koma Merz-hús dadaistans Kurts Schwitters, jafnvel einnig umhverfisverk einfaranna Fernands Cheval í Lyon og Simons Rodia í Los Angeles.

 

Einnig er ljóst að innsetningarhefð síðustu áratuga í íslenskri myndlist hefur haft einhver áhrif á framsetningarmáta Aðalheiðar, glöggt auga hennar fyrir sviðsetningum þeirra atburða eða ástands sem hún kveikir til lífsins, en umfangsmest þeirra er tvímælalaust umbreyting hennar á sýningarsalnum hér í Listasafni Reykjaness. Aðalheiður lauk námi í Myndlistarskólanum á Akureyri árið 1993, en tveimur árum síðar gerði hún fyrstu mannamyndir sínar í fullri stærð úr timburbútum og fundnum hlutum. Upprunalegur ásetningur Aðalheiðar var ekki endilega að vinna verk úr aðskotahlutum, heldur kviknaði hann upp úr fjárþröng sem varð til þess að hún gerði sér ferð á gámasvæði Akureyringa í leit að heppilegum efniviði. Fyrstu viðbrögð listakonunnar voru forundran yfir því óheyrilega magni timburs og gamalla húsgagna sem féll til í bæjarfélaginu upp á hvern dag. Í  framhaldinu fór hún að draga að sér afgangstimbur, búta það niður, bæta við afsagi úr fyrirliggjandi verkum eða verkum annarra og raða þessum föngum saman í sitjandi og standandi fígúrur sem hún síðar málaði. Fígururnar kölluðu síðan í auknum mæli á ákveðna umgjörð og við bættust bakgrunnur, borð, bekkir og ýmislegt smálegt.

 

Það var síðan eftir flutning þeirra hjóna, Aðalheiðar og Jóns Laxdal, myndlistarmanns,  að Freyjulundi, gömlum samkomustað íbúa í Arnarneshreppi, árið 2004, að  skúlptúrum af skepnunum í sveitinni fór að fjölga:  köttum, hundum, nautgripum og ekki síst kindum. Sérstaklega hljóp mikill vöxtur í kindasafnið í Freyjulundi, ekki síst fyrir það að listakonan var ávallt með fyrir augunum tilbúna sviðsmynd fyrir þær, sjálfa Reistarárrétt. Nú vinnur Aðalheiður að langtímaverkefni um réttardaginn, sem hún lítur á sem dag fullnægju, gnægtar og endurfæðingar fyrir okkur mannfólkið, en einnig dag feigðar, upphaf endalokanna fyrir sauðféð.

 

Úr fjarlægð virðast myndir Aðalheiðar af fólki við leik og störf óhefluð smíði, í tvöfaldri merkingu orðsins, en þegar nær dregur opinberast áhorfendum  næmleiki  hennar jafnt í stóru sem smáu, lýsandi líkamsstellingar og látbragð sem vekja til lífsins bæði þekktar persónur og óþekkt alþýðufólk, oft með kátlegu  ívafi, en án þess að gera það á nokkurn hátt hjákátlegt. Aðstæður sem listakonan lýsir í þessum mannamyndum eru ofur venjulegar, en yfirlýst markmið hennar er einmitt að fá okkur til að staldra við og taka eftir undursamlegum innviðum hversdagsleikans. Í þessum verkum er Aðalheiður ekki einvörðungu að fá útrás fyrir persónulegt ímyndunarafl sitt, heldur eru þau jafnframt eins konar samfelldur minnisvarði um óþekkta smiðinn, handverksmennina sem smíðuðu, söguðu niður og máluðu hlutina eða viðina sem ganga í endurnýjun lífdaganna fyrir hennar tilstilli. „Mér líkar tilhugsunin að vera hluti af heild...það gefur verkum mínum aukna vídd“, segir Aðalheiður í viðtali.

 

Verk sitt í Listasafni Reykjaness, samkomuhús „úti á landi“ með yfirstandandi fagnaði í tilefni Bóndadags,  fólkinu úr sveitinni, hljómsveit og öðru tilheyrandi, gerir Aðalheiður  í samvinnu við þau Jón Laxdal, Guðbrand Siglaugsson, Gunnhildi Helgadóttur, Arnar Ómarsson, Sean Millington, Nikolaj Lorentz Mentze og hljómsveitina Hjálma. Hér er saman kominn þverskurður þjóðarsálarinnar í bráð og lengd. Íbúum á Suðurnesjum býðst að taka þátt í veislu fyrir mörg skilningarvit.