Veruleikinn og vindingar hans Rzeczywistość i jej wariacje

Úrvalsgrafík frá Póllandi / Wybór dzieł polskiej grafiki

Í september fer í hönd árleg „Ljósanótt“ Reykjanesbæjar með listsýningum og öðrum menningarviðburðum á Suðurnesjum. Nú verður kastljósi sérstaklega beint að framlagi Pólverja til listar og menningar þar sem vitað er að hartnær fjórðungur bæjarbúa er nú af pólskum uppruna.  Af þessu tilefni verður opnuð vegleg sýning á pólskri grafíklist í Listasafni Reykjanesbæjar þann 5.september n.k. undir yfirskriftinni Veruleikinn og vindingar hans, úrvalsgrafík frá Póllandi. Sýningin er sérstaklega valin fyrir Listasafnið af Jan Fejkiel, forstöðumanni Fejkiel gallerísins í Kraká, en sú stofnun nýtur mikillar virðingar innan og utan Póllands fyrir vandaða sýninga- og útgáfustarfsemi í þágu pólskrar grafíklistar á undanförnum tveimur áratugum. Fejkiel verður viðstaddur sýningaropnun og mun svo kynna verkin á sýningunni bæði fyrir samlöndum sínum á Íslandi og öðrum gestum sunnudaginn 8. september kl.14.00.

Staðsetning Fejkiel-galleríssins í Kraká er engin tilviljun, þar sem listaakademían þar í borg hefur frá upphafi útskrifað fleiri þekkta grafíklistamenn en nokkur annar listaskóli í Póllandi. Úrval verka eftir eldri kynslóð þessara grafíklistamanna gat að líta á eftirminnilegri sýningu að Kjarvalsstöðum árið 1977; á sýningunni í Listasafni Reykjaness er yngsta kynslóð pólskra grafíklistamanna aðallega í sviðsljósinu.

Einhverjir kannast e.t.v. við verk þeirra Jaceks Sroka og Wejman-hjónanna, sem haldið hafa einkasýningar á Íslandi, en þau sýna hér ný verk, en að auki eru á samsýningunni verk eftir nokkra þekktustu grafíklistamenn Pólverja í dag, eins og Jerzy Jędrysiak, Krzystof Skórczewski og Jan Pamuła, sem er frumkvöðull í gerð stafrænna grafíkverka í Evrópu. Alls eru sýnendur 25 talsins. Mestur hluti verkanna verður til sölu.

Safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.

...

5-go września o godz.18:00 w Muzeum Sztuki w Reykjanesbær (Duus Safnahús) otwarta zostanie wystawa, na której będzie można zobaczyć ponad 50 prac polskiej grafiki. Wystawa została zorganizowana we współpracy z cieszącą się dużym uznaniem zarówno w Polsce, jak i poza jej granicami Jan Fejkiel Gallery z Krakowa. Przedstawiciele Ambasady Rzeczpospolitej Polskiej w Islandii biorą udział w otwarciu wystawy. Jan Fejkiel przedstawi zebranym gościom wybrane dzieła.

Muzeum jest otwarte codziennie w godzinach 12:00-17:00, a ekspozycja Rzeczywistość i jej wariacje będzie wystawiona do 3 listopada.

 

HLUTLÆG FRÁSÖGN OG HUGLÆG TJÁNING

Fyrir tilstilli Listasafns Reykjanesbæjar er okkur aðstandendum Jan Fejkiel gallerísins í Kraká mikil ánægja að fá að kynna fyrir Íslendingum verk 25 grafíklistamanna sem sýna að staðaldri á vegum þess. Flestir þeirra eru útskrifaðir frá Listaakademíunni í Kraká, elsta listaskóla Póllands, en hann hélt nýlega upp á 200 ára afmæli sitt. Í tilefni þessara tímamóta var okkur umhugað um að velja til þessarar sýningar ný og framsækin grafíkverk eftir markverða nemendur skólans, sem um langt skeið hefur verið í fararbroddi listgreinarinnar í Póllandi.

Auk þess að draga saman nýleg verk helstu grafíklistamanna vildum við benda á ákveðin kynslóðarskipti í greininni. Kynslóðarskipti endurspegla ekki eingöngu mismunandi áhugamál einstaklinga, heldur einnig breytilega grafíktækni þeirra. Meðal sýnenda eru eldri listamenn sem enn starfa af krafti, yngri listamenn á hátindi ferils síns og nýlega útskrifað hæfileikafólk. Flestir sýnenda eru mikilvirkir og hafa unnið til ótal viðurkenninga, innanlands sem utan, auk þess sem þeir hafa tekið þátt í fjölmörgum samsýningum á vegum Jan Fejkiel-galleríssins.

Í grafíklist okkar Pólverja á sér stað stöðug víxlverkun milli hlutlægrar frásagnar og huglægrar tjáningar, sem er til marks um hvorttveggja, raunsæishneygð okkar og þörf okkar fyrir að brjóta hana til mergjar í óhlutbundnu myndmáli. En þessi víxlverkun hefur tekið breytingum í tímans rás, bæði hvað varðar form og inntak verkanna. Þess vegna sýnum við nú hvorttveggja hlutlæg og óhlutlæg verk. Hér getur því að líta kerfisbundin abstraktverk við hlið kröftugra verka með fígúratífu inntaki. Hvorugt er kynslóðarbundið. Eldri og yngri listamenn vinna jöfnum höndum með hlutlægt og óhlutlægt myndmál. Hins vegar er sýningunni ekki ætlað að vera vettvangur fyrir togstreitu ólíkra viðhorfa til listar og lífs. Þetta er fremur spurning um blæbrigðamun, óljós tilbrigði um veruleikann og tilraunir til að gera hið óhlutlæga raunverulegra. Þegar listamenn taka sér stöðu mitt á milli þessara tveggja viðhorfa, opnast þeim alls kyns nýjir möguleikar til tjáningar, eins og gjörla má sjá á þessari sýningu.

Stanisław Wejman og Jacek Sroka eru fulltrúar þeirrar fígúratífu grafíklistar sem var ofarlega á baugi í Póllandi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Myndir Jaceks Sroka, ágengar og grimmilegar, voru framlengingar alþjóðlegs expressjónismans í lok síðustu aldar. Þær hafa breyst í seinni tíð, orðið ívið settlegri og malerískari, en heimssýn listamannsins er lítt breytt. Sroka, sem vinnur ætingar og akvatintur á málmplötur, leitar að vísu fanga víðar en hann gerði. Eftir sem áður fjallar hann á óvæginn hátt um mannskepnuna, bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar hennar, og er þá bæði launfyndinn og kaldhæðinn. Árum saman hefur Stanislaw Wejman einbeitt sér að úrvinnsu á einu tilteknu mótífi, graskerinu. Í einfaldleik sínu og innbyggðum  fjölbreytileika verður graskerið listamanninum tilefni til endalausra tilbrigða, og þá er allt undir, breytilegt litróf þess, áferð og lögun. Að sögn Wejmans stjórnast grafíklist hans af leitinni að  „innbyggðri margfeldi og fjölbreytileika heilleikans“. Graskerið er í senn einfalt, áþreifanlegt og breytilegt, og með viðkomu í myndmáli óhlutbundinnar myndlistar tekur það oftar en ekki á sig ímynd hvorttveggja mannshöfuðsins og hnattarins, heimkynna okkar allra.

Í myndum sínum einskorðar Krzysztof Tomalski sig að mestu við einn lit og sérstakt afbrigði af lágprentun. Veraldarsýn hans er lágstemmd og átakanleg, og hún setur mark sitt á rannsóknir hans á tilurð forma, hluta og hins „nýja manns“. Í myndröðum hans verða líkamspartar að líkingum fyrir manninn í alheiminum, fanga taktfastrar myndbyggingar, eins konar nútíma framlengingu af klassískri mannsímynd Vitrúviusar.

Małgorzata Malwina Niespodziewana tilheyrir yngri kynslóð grafíklistamanna og teiknara. Viðfangsefni hennar er mannslíkaminn og hið „fígúratífa“ í víðasta skilningi, hvorttveggja sérstök einkenni hans (eða þess) og kynuslinn sem honum fylgir, ásamt því sem kalla mætti hið „sammannlega“. Rannsóknir hennar einkennast af nýjum skilningi á eðli hins hlutbundna. Einnig gætir ákveðinnar tvíræðni í vinnubrögðum hennar. Þótt hún sé fullfær um að vinna raunsætt, kýs hún á stundum að hlaupa útundan sér og leiða verk sín til lykta með huglægu myndmáli.

Árum saman settu menn samasammerki milli grafíklistar og bókaútgáfu; í kjölfarið var farið að setja saman sérstakar grafíkmöppur fyrir safnara. Í dag á grafík sér samastað í listasöfnum, galleríum og á veggjum einkaheimila. Þótt grafíklistir gegni nú öðru hlutverki en þær gerðu, og sjónlistir séu almennt fjölskrúðugri en fyrrum, eru áfram náin tengsl milli einstaklingsins og grafíkverksins. Og eftir sem áður er áhorfandanum í lófa lagið að „lesa“ grafíkmyndir eins og  handrit. Þessi hefðbundnu tengsl áhorfenda og grafíkmynda eru ofarlega í hug nokkurra listamanna á sýningunni, sérstaklega þeirra sem halda tryggð við ætinguna. Þeir fást ekki sérstaklega við gerð smámynda, en reyna ekki heldur að þyrma yfir áhorfendur með stórum myndflötum. Teikning þeirra er þéttriðinn vefur, til þess fallinn að skapa margbrotinn söguþráð sem erfitt er að komast til botns í á augabragði. Við gefum okkur á vald völundarhúsi línunnar, sjáum hvernig hún kemur til móts við hefðbundna fjarvídd, um leið og við fylgjumst með átökum óreglulegra og kraftmikilla forma.

Krzysztof Skórczewski birtir okkur átakanleg heimssýn, þar sem hátimbraðar byggingar í misjöfnu ástandi leika aðalhlutverkið. Þessi svart-hvíta sýn er öllu áhrifameiri fyrir hárnákvæma útlistun listamannsins á öllum smáatriðum. Í eldri myndröðum um Babelturninn og Örkina hans Nóa fjallar listamaðurinn um goðsagnalega byggingalist sem endurspeglar margvísleg straumhvörf í sögu mannkyns. Hann heldur enn tryggð við hátimbraða byggingarlist, gæðir hana helgi og goðsagnalegum mikilfengleik við miðbik heims. Skórczewski er einnig í uppáhaldi meðal yngri listamanna, sem hafa sérstakt dálæti á ljóðrænni fantasíunni í verkum hans.

Sýn Jerzy Jędrysiak á tilveruna er alþýðlegri en um leið súrrealískari, sem ræðst af samspili ólíkra frásagna og uppákoma í verkum hans. Listamaðurinn teflir saman tjáningarríkum og hæfilega ýktum nærmyndum af mannlífi og hugmyndum um skipan alheimsins. Það er vissulega engin upplýsingaþurrð í þéttriðnum prentvefnum sem listamaðurinn birtir okkur; hann minnir í senn á furðufyrirbærasöfn miðalda og safn um ímyndunaraflið.

Þeir sem hrífast af kraftmikilli teikningu fá töluvert fyrir sinn snúð í verkum Kacper Bożek, nefnilega margar kynslóðir af litríkum furðuverum í skipulegi ringulreið sem einkennist af hryllingi, kynferðislegri óþreyju og vítiskvölum. Grafíkþrykk hans eru uppfull með smáatriði, hamslaus og ofhlaðin, í senn vélræn og náttúrutengd. Ímyndunarafl listamannsins reynir bæði á tæknilegt bolmagn ætingarinnar sem er kjörmiðill hans, og þær tæknilegu aðstæður sem eru fyrir hendi á vinnustofum flestra grafíklistamanna.

Línuteikningin í dúkristum Mörtu Bożyk einkennist af annars konar ímyndunarafli og formgerð. Listakonan er sér fyllilega meðvituð um aðdráttarafl óhlutbundins myndmáls, eins og sést á því hvernig hún nálgast myndefni sitt, krónublöð blóma. Í meðförum hennar verða þau eins konar framlengingar holdsins. Í stærri grafíkverkum sínum fer listakonan eins nálægt blöðunum og hún kemst og persónugerir þau eftir megni. Með því að skerpa andstæður svarthvítrar teikningarinnar sneiðir hún framhjá hvorttveggja andlausum eftirlíkingum og ódýrri skreytilist dyngjunnar.

Grafíklistamenn eru ekki eingöngu uppteknir af línuteikningu, heldur láta þeir sig einnig varða ferðalag litanna á yfirborði myndflatarins. Frumleg og mergjuð steinþrykk Paulinu Żmuda í hálffígúratífum stíl eru afsprengi langvarandi rannsókna á eðlisþáttum sjálfsprottinnar málaralistar. Sama má raunar segja um súrrealíska myndveröld Bartlomiej Chwilczyński, sem leitar innblásturs í ýmsu því sem gerist fyrir tilviljun í deiglu grafíkvinnustofunnar.

 Snert af skapandi stjórnleysi er að finna í grafíkverkum Krzysztofs Świętek. Í steinþrykkjum sínum á hann orðastað af nútíma fjölmiðlamenningu, m.a. með því að tefla saman eigin teikningum og málverkum og ljósmyndaefni og alls konar tilfallandi efni úr fjölmiðlum. Auk þess nýtir hann sér fundið efni á borð við teiknimyndir, húðflúr og veggjakrot á almannafæri.

Þeir sem vilja mála fremur en teikna á prentstein eru ekki endilega á höttum eftir frjálsri og leikandi formgerð. Það sést gjörla þegar við gaumgæfum takfasta sýn Ewelinu Malysa á veruleikann. Það eru klárlega malerískir taktar í kerfisbundinni hreinstefnu hennar, sjá rákirnar sem þvera grunnform hennar, en í stað þess að slá um sig með hressilegum strokum, teflir hún fram stöðluðum einingum, sem bera vott um áhuga henna á tölvugrafík.

Þetta þróunarferli frá hefðbundinni plötu-og prentsteinsgrafík til tölvugrafíkur, sömuleiðis frá stílfærðum mannamyndum til hreinstefnu, á sér raunar hliðstæðu í myndlist Jans Pamula, brautryðjanda í tölvugrafík í Póllandi og þótt víðar væri leitað. Pamula hóf að vinna með tölvugrafík í vísindamiðstöðvum landsins snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Í nýjustu grafíkverkum hans renna saman reglufesta hreinstefnunnar og ljósstreymi Op-listar. Listamaðurinn á sér skoðanasystur í Agnieszku Lakoma, einni af yngri fulltrúum tölugrafíkur í Póllandi. Í verkum hennar fara hins vegar saman áhrif Op-listar og áhugi á nýjum og áður óþekktum víddum, sveipum og bylgjuhreyfingum, ekki ósvipað ýmsu þvi sem stjarnvísindin hafa opinberað okkur.  Í fljótu bragði virðist okkur Rafal Pytel fást við viðlíka sjónhverfingar í strangflatalist sinni. Hún er óvenjuleg fyrir það að listamaðurinn teflir saman stafrænni aðferðafræði og hefðbundinni dúkristu, og leggur þá mest upp úr hinu síðarnefnda. Óhlutbundin form hans, sem minna á tækniteikningar, hafa ekki einungis til að bera hráan frumkraft, heldur eru þau mótuð af sérstakri alúð, með mjúklátum blæbrigðum ljóss og skugga. Við það verða þau meira en þau sjálf, öðlast nýja merkingu.

Flestir listamenn vilja frekar fást við hinn náttúrulega sjónheim heldur en sýndarveruleika, sömuleiðis er þeim flestum annt um prentvinnuna á verkstæðinu. Þessi tengsl við veruleikann og handavinnuna eru hluti af ákveðinni nautn, sem er náskyld því algleymi sköpunargleði og tilrauna sem gagntekur listamanninn þegar myndlistarvettvangurur hans virðist takmarkalaus. Þessa leik-og sköpunargleði er sannarlega að finna í grafíkverkum Agnieszku Dobosz, Magdalenu Chmielek, Önnu Sadowska, Karols Szafran, og Mörtu Wakuly-Mac.

Agnieszka Dobosz teiknar, málar og þrykkir myndir sínar út frá stöðluðu pappaformi, og endapunktur á því ferli eru verk sem stundum virðast við mörk hins forgengilega. Listakonan kveikir til lífsins stóra, næstum litlausa fleti, með nokkrum handahófskenndum línum, við það verða til óljós drög að mannamyndum og smáatriði úr nærumhverfi hennar sjálfrar. Anna Sadowska vinnur einnig út frá stöðluðum, fundnum formum í myndum sínum. Hún notar ekki viðkvæm pappaform, heldur alls konar tilfallandi járnrusl, sem gefur verkum hennar efnislegt vægi. Ryðmettuðu þrykki eftir brotajárn er telft gegn fíngerðri línuteikningu þurrnálarinnar. Segja má að andstæður af þessu tagi séu eins konar auðkenni listakonunnar.

Útgagnspunktur Karols Szafran eru stöðluð mynstur af ýmsu tagi. Þessi flötu, mjúklátu og tjáningarríku mynstur eru listamanninum eins konar leiðarstef um móderníska grafíklist, sem hann notar til könnunarleiðangra um áður óþekktar og óheyrilega spennandi víddir. Í grafíkverkum sínum gengur Marta Wakula-Mac hins vegar út frá áþreifanlegri náttúru þessa heims. Vinnubrögð hennar eru eins hrein og bein og hugsast getur, því hún þrykkir eftir plöntum sem verða á vegi hennar. Andspænis þeim verður okkur ljóst að náttúran er ekki alfarið hlutlæg, heldur á hún sér óhlutlægar víddir. Magdalena Chmielek er með yngstu þátttakendum í sýningunni. Verkum hennar má líkja við heimatilbúinn grasagarð í björtum formum og litum. Þessi verk gerir hún með því að þrykkja á pappír – og yfirþrykkja – alls konar tilfallandi og náttúrutengd mynstur sem skorin hafa verið út í dúk, uns myndflöturinn er sneisafullur. Með því að þrykkja þétt og yfirþrykkja reynir listakonan að búa til eins konar „laufskrúð“ eða „blómgun“ á pappír. Um leið eru verk hennar ekki einskærar eftirlíkingar náttúrunnar, eins aðlaðandi foldarskart, heldur kallast þau á við „frottage“ hefð Súrrealismans.

Í dag leita pólskir grafíklistamenn ekki á vit náttúrunnar í sama mæli og fyrrum. Wieslaw Skibiński er einn örfárra listamanna á þessari sýningu sem lætur sig varða náttúruna upp til fjalla. En umfjöllun hans er óvenjuleg að því leyti að hann „aftengir“ landslagið, stílfærir það af mikilli hind og fer með það eins og fyrirbæri á skjön við upprunalegt samhengi. Skibiński er völundur á mörgum sviðum grafíktækni, og verk hans bera með sér áhuga hans á bæði einfaldleika og einlægni alþýðulistar og stílbrögðum Art Nouveau-og Art Deco-hreyfinganna. Í verkum sínum á Anna Juszczak hins vegar í annars konar, og öllu huglægari, samskiptum við landslagshefðina. Viðhorf hennar til náttúrunnar eru mótuð af ferðalögum hennar jafnt í heiðríkju og svala norðursins sem gróðursæld og hitamollu suðurhvels. En fyrst og fremst fjallar hún um landslagið hið innra, þar sem rennur saman náttúra og ímyndunarafl. Þetta landslag hennar höfðar til allra skilningarvita, um leið og það er uppfullt með persónulegum táknvísunum.

Hins vegar leikur myndlist annarra listamanna öllu meira hlutverk í verkum sýnendanna hér heldur en náttúran. Skiljanlega hafa fagmenn í listum þörf fyrir tengsl og/eða samneyti við skoðanabræður sína, lífs og liðna. Allir tilheyra þeir samfélagi ímyndunaraflsins, bera virðingu hvor fyrir öðrum og skoða verk sín reglulega í ljósi þess sem aðri hafa afrekað. Í frásagnarlegum dúkristum Jerzy Jędrysiak er iðulega að finna tilvísanir í verk Picasso, Matisse, Munch, svo ekki sé minnst á verk pólska myndlistarmanninn og leikskáldið Stanislaw Ignacy Witkiewicz, en þeir eru báðir ættaðir frá Zakopane. Anna Sadowska tileinkar bandariska myndlistarmanninum Cy Twombly eitt verka sinna, auk þess sem hún vísar ítrekað til grafískar sveiflunnar í verkum Hans Hartung í öðrum verkum. Í póstmódernískum sambræðingnum sem einkennir verk Henryks Ożog bregður fyrir slitrum úr verkum Francis Bacon, Davids Hockney, Jacksons Pollock og Neo Rauch, bæði fígúrum þeirra og formgerð almennt. Anna Sobol-Wejman tileinkar eitt verka sinna Kazimir Malevich, heimsfrægum pólskættuðum listamanni, sem forðum daga tók allar forsendur myndverksins til róttækrar endurskoðunar með „súprematískum“ verkum sínum. Listakonan, sem þekkt er fyrir tryggð sína við hlutlægan veruleika og mannslíkamann, stillir upp ímyndum hins huglæga, svörtum og rauðum ferningi. Í myndröð sem hún hefur unnið að um margra ára skeið, er ævinlega að finna einfaldaða mynd af sitjandi konu við breytilegar aðstæður. Undirtitilll myndraðarinnar er „Samtöl við S.W.“, þar sem vísað er til eiginmanns listakounnar, grafíklistamannsins Stanislaw Wejman. Myndröðin er því hluti af áralangri orðræðu þeirra hjóna. Sitjandi konan kemur fyrir í fjölmörgum verkum Sobol-Wejman, og er hún þá misjafnlega heilleg í formi. En hér er ekki um að ræða einskæra formhyggju, heldur eru hugmyndir á borð við upphafningu og hinstu rök ævinlega ofarlega í huga listakonunnar.

Malevich er aðeins einn af mörgum frægum listamönnum sem pólskir grafíklistamenn hafa taugar til. Til dæmis gætir áhrifa frá Paul Cézanne í þrykkjum Wladislaw Pluta sem hann nefnir „laukar & APPELSÍNUR“. Hér er um að ræða verk í naumhyggjustíl, svarthvít tilbrigði hönnuðar um víðfrægt mótíf hins franska listjöfurs, en einnig eins konar sýniljóð, þar sem heiti myndarinnar endurspeglar uppröðunina á laukunum og appelsínunum í uppstillingu Cézannes. Hér er því áréttað með óvenjulegum hætti eitt helsta leiðarstef þessarar sýningar, samspilið/togstreitan milli hins huglæga og hins hlutlæga. En þótt myndir Pluta hafi á sér yfirbragð blákaldra og ofur einfaldra tákna, þá eru þær einnig gæddar aðdráttarafli hvelfdra og mjúklátra forma, sem vitna um náin tengsl listamannsins við umhverfi sitt.

Þótt höfundi þessarar greinar hafi verið tíðrætt um áðurnefnt leiðarstef, þá er það langt í frá eini lykillinn að þessari sýningu. Og vissulega er hægt að að nálgast hana með öðrum hætti. Best þætti okkur ef áhorfendur reyndu að gera það. Þá kæmu eflaust í ljós ýmislegt sem okkur yfirsést, fyrir það hve verkin eru nálæg okkur í tíma og rúmi. Við fögnum áhuga Íslendinga á þessum grafikverkum, og hlökkum til að sjá hvernig Listasafn Reykjanesbæjar og Aðalsteinn Ingólfsson standa að upphengingu þeirra og kynningu.

 

Jan Fejkiel