Tilvist

Laugardaginn 24. mars var opnuð sýning á nýjum olíumálverkum og vatnslitamyndum eftir Jón Axel Björnsson í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin, sem ber heitið Tilvist, er fyrsta stóra sýningin á verkum listamannsins í rúman áratug.

 


Jón Axel var meðal nokkurra listamanna sem komu fram undir merkjum „nýja málverksins" snemma á níunda áratugnum, en skar sig snemma úr þeim hópi fyrir sjálfstæð vinnubrögð, ekki síst frásagnarlegan stíl sem snerist framar öðru um margháttaðan mannlegan vanda í lítt skiljanlegum heimi.


Í framhaldinu hefur myndlist Jóns Axels tekið ýmsum listrænum breytingum, orðið einfaldari og grafískari í formi, síðan nokkuð höll undir þrívíddarlist, jafnvel innsetningarformið. Nýjustu málverk hans eru opin og lífræn að formi og margræð að merkingu, en frásögnin í þeim snýst sem fyrr um leitina að einhvers konar haldreipi í hringiðu lífsbaráttunnar.


Jón Axel hefur haldið 21 einkasýningu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins og í nokkrum erlendum söfnum að auki. Hann hefur einnig myndlýst bækur og tímarit, þ.á.m. Ritsafn Snorra Sturlusonar ásamt öðrum, og hannað sviðsmyndir fyrir íslensk leikhús.


Sýningin í Listasafni Reykjanesbæjar stendur til 6. maí. Henni fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda ljósmynda og texta um listamanninn eftir Aðalstein Ingólfsson, listfræðing.


Safnið er opið virka daga kl. 12.00-17.00, helgar kl. 13.00-17.00 og aðgangur er ókeypis.

Jón Axel Björnsson hefur aldrei hræðst hugtök á borð við „frásögn“ og „sjónleik“, enda má með nokkrum sanni segja að þau séu meginstoðir í allri umfjöllun um mannleg samskipti. Eitt leiðir af öðru, það er frásögn. Eitt rekst á annað, það er sjónleikur eða „drama“. Þá gildir einu hvort um er að ræða fólk eða „bara form“. Sérhver mynda Jóns Axels er sjónleikur, þar sem á sér stað tilvistarbarátta eins eða fleiri einstaklinga. Sviðsmyndin eða myndveröldin sem listamaðurinn býr einstaklingum sínum er eins konar ímynd óvissunnar. Hvergi er fast land undir fótum né heldur haldfesta, heldur svífur mannfólkið eins og veirur um lífheim sem ýmist þenst út eða skreppur saman. Hvernig sem þessi heimur veltist og fólkið byltist, er því fyrirmunað að hafa stjórn á aðstæðum sínum, heldur hangir á jöðrum hins sýnilega, mínus megnið af holdlegum skynfærum sínum. Holdið er veikt og því gagnslaust í þessari baráttu.

Einstaklingar Jóns Axels missa þó ekki höfuðin fyrr en í fulla hnefana, þau eru höfuðatriði þessara mynda, enda miðstöð hugsunar, skynjunar og löngunar, alls þess sem gagnast okkur í leitinni að haldreipi í heimi hér. Smám saman rennur upp fyrir okkur að ískyggilegir og stundum grátbroslegir  sjónleikar Jóns Axels eru ekki síst viðleitni til að koma á einhvers konar tengslum – og sátt – milli þess sem gerist inni í höfði einstaklingsins og allt í kringum hann. Vettvangur þessarar sáttaumleitunar og jafnframt aðalleikandi í öllum myndum Jóns Axels  er sjálft rýmið. Hér á ég hvorki við fastarými Endurreisnar með sínum staka hvarfpunkti, né síbreytilegt rými Cézannes, heldur langtum flóknara og óútreiknanlegra fyrirbæri þar sem renna saman hugmyndin um hið „fýsíska“ rými með veðri, vindum og birtuskilum, hið innra rými ímyndana og tilfinninga og geistlegt rými trúarbragða og hindurvitna, jafnvel  ígrundanir vísindamanna á andefni og þar með and-rými.

Því er það sem einstaklingar Jóns Axels koma okkur stundum fyrir sjónir sem eins konar flóttamenn utan úr fjórðu víddinni: þeir renna saman við eigin skugga og annarra, mæta tvíförum sínum á hljóðhraða og virðast ekki gera greinarmun á því sem er og því sem þeir gera sér í hugarlund. Og því eru þeir líka dálítið umkomulausir og utanveltu, eins og þeir hafi ekki enn höndlað það frjálsræði sem áðurnefnd sáttargjörð hefur fært þeim. Allt hljómar þetta eins og málverk Jóns Axels séu uppfull með alvöruþunga og heimsþreytu. Sem er ekki rétt; litróf hans er djarft og hvellt sem aldrei fyrr. Formrænar útlistanir hans og útúrsnúningar einkennast af leikgleði hins fullþroska listamanns.