Ljósanætursýningar Listasafnsins opnaðar fimmtudaginn 5. september
Verið velkomin við formlega opnun nýrra Ljósanætursýninga Listasafns Reykjanesbæjar fimmtudaginn 5. september kl. 18:00.
VERULEIKINN OG VINDINGAR HANS - Úrvalsgrafík frá Póllandi
Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýningu á rúmlega 50 pólskum grafíkverkum í Listasal Duus Safnahúsa. Sýningin er unnin í samstarfi við Jan Fejkiel Gallery í Kraká í Póllandi en sú stofnun nýtur mikillar virðingar innan og utan Póllands fyrir vandaða sýninga-og útgáfustarfsemi í þágu pólskrar grafíklistar. Fejkiel verður viðstaddur sýningaropnun og verður með leiðsögn á sunnudaginn 8.september kl 14.00. Pólski sendiherrann Gerard Pokruszyński opnar sýninguna formlega þann 5.september kl. 18.00.
Við sama tilefni opnar listasafnið sýninguna ÓVÆNT STEFNUMÓT í Bíósal Duus Safnahúsa. Þar eru leiddar saman 6 listakonur úr Reykjanesbæ; Gunnhildur Þórðardóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Sossa og Valgerður Guðlaugsdóttir.
Einnig opnar listasafnið á sama tíma sýningu á fjölbreyttum verkum Reynis Katrínar, galdrameistara og skapandi listamanns í Stofunni í Duus Safnahúsum. Reynir spjallar við sýningargesti sunnudaginn 8. september kl. 15:00.