Hafið umhverfis landið hefur beinlínis staðið undir mestu framförum sem orðið hafa í íslensku þjóðfélagi á tuttugustu öld. Sjórinn hefur ekki síst veitt skáldum, rithöfundum og tónlistarmönnum innblástur og skreytt menningu okkar. Þannig er nálægðin við sjóinn áþreifanlegri víðar en á göngu okkar um ströndina. Íslenskir málarar hafa líkt og aðrir listamenn sótt innblástur til hafsins og veitir þessi sýning á úrvali verka frá Listasafni Íslands, nokkra innsýn í þá túlkun sem listamenn hafa fengist við þegar myndir tengdar sjó og sjósókn hafa verið málaðar. Það er nokkuð mótsagnakennt þegar hin íslenska listasaga 20. aldar er skoðuð, hversu rýr hlutur sjávarmynda er í raun þegar litið er á alla heildina. Miðað við hversu háðir Íslendingar voru og eru sjósókn og þeirri staðreynd að byggð landsins er að mestu við strandlengjuna, mætti ætla að myndefnið ætti hug og hjörtu fjölda listamanna. Finnst hinsvegar einhver rauður þráður í myndefnisvali listamanna á síðustu öld þá er það landslagið sem hefur verið vinsælasta viðfangsefni íslenskra málara, landslag inn til sveita, en ekki út með sjó. Frumherjar íslenkrar listasögu fást reyndar við sjóinn í myndum síunum, en í mun minna mæli en sjálft landslagið, þar sem fjallasýn og sveitarómantík er meginviðfangsefnið. Oftar en ekki er hafsýnin aðeins hluti landslagsins þar sem fjallið er myndefnið og sjaldnast gefur listamaðurinn á þessum tíma gaum að mannlífinu sem tengist fiskvinnslu eða veiðum.
Listasafn Íslands, Maður og Haf
- Jón Stefánsson (1881 - 1962) ,
- Kristín Jónsdóttir ,
- Júliana Sveinsdóttir ,
- Jón Þorleifsson (1891 - 1961) ,
- Finnur Jónsson (1892 - 1993) ,
- Gunnlaugur Scheving (1904 – 1972) ,
- Jóhann Briem (1907 - 1991) ,
- Jón Engilberts ,
- Ágúst Petersen ,
- Svavar Guðnason ,
- Karl Kvaran ,
- Sveinn Björnsson ,
- Veturliði Gunnarsson og
- Eyjólfur Einarsson