Finnur Jónsson (1892 - 1993)

Nafn

Finnur Jónsson (1892 - 1993)

Ferilskrá

Finnur Jónsson fæddist 15. nóvember 1892 á Strýtu í Hamarsfirði. Hann kom til Reykjavíkur 1915 til að læra gullsmíði; um leið aflaði hann sér tilsagnar í teikningu, og þegar sveinsprófinu var náð 1919 hélt hann til Danmerkur til frekara listnáms. Þangað höfðu flestir íslenskir listamenn farið til þessa, en Finnur braust út úr hefðinni er hann hélt áfram til Þýskalands 1921, til Berlínar og Dresden, þar sem hann átti eftir að vera til 1925. Þarna fann Finnur valinn félagsskap, og margir þeirra sem hann kynntist voru annaðhvort þegar eða urðu síðar meðal þekktustu listamanna framúrstefnunnar á fyrri hluta aldarinnar.

Sýningin sem hann hélt eftir heimkomuna 1925 var því tímamótaatburður í íslenskri myndlistarsögu, þó að viðbrögðin bæru þess ekki vott. Listamenn voru nokkuð jákvæðir á þau óhlutbundnu verk, sem Finnur sýndi, en flestir aðrir létu sér fátt um finnast. Þessar viðtökur ollu því að Finnur pakkaði þessum myndum niður og sneri sér að öðrum sviðum í myndlistinni. Hann hefur í gegnum tíðina m.a. verið þekktur listamaður á sviði landslags og persónumynda.

Það var svo um 1970, að vitneskjan um brautryðjendahlutverk Finns á þessu sviði komst í sviðsljósið, og fengu landsmenn loks tækifæri til að berja þau augum á sýningu 1971, og síðan á yfirlitssýningu, sem Listasafn Íslands hélt á verkum listamannsins 1976, þegar listamaðurinn varð 85 ára. Á sama tíma hlaut listamaðurinn ýmsar viðurkenningar fyrir framlag sitt á listasviðinu, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Árið 1985 færðu hjónin Finnur og Guðný Elísdóttir Listasafni Íslands um 800 verk Finns að gjöf í tilefni af aldarafmæli safnsins.  Skissubækur, bréfasöfn, ljósmyndir og hlutir sem tengjast gull- og silfursmíði Finns gerðu þessa gjöf að enn merkari heimild fyrir fræðimenn til rannsókna á ferli hans, listhugsun og vinnubrögðum.

Heimild: Eiríkur Þorláksson, Morgunblaðið 1992