Hópur fjórtán myndlistarmanna opnar sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum, Keflavík í dag kl. 16, en þetta er önnur sýningin í hinu nýja safni. Hópurinn sýnir undir hatti Gullpensilsins, en svo nefnist félagsskapur listamannanna. Sýningin er sú sjötta í röðinni, en hópurinn hefur einnig sýnt á Kjarvalsstöðum, Berlín, Siglufirði og Færeyjum. Félagsskapinn skipa Birgir Snæbjörn Birgisson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Georg Guðni Hauksson, Hallgrímur Helgason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Jóhann Ludwig Torfason, Jón B.K. Ransu, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigtryggur Árni Sigurðsson og Þorri Hringsson.
"Félagsskapurinn varð til þegar hópur listmálara ákvað að hittast reglulega til að ræða saman, fræðast, örva, ögra og spegla hvern annan," segir hópurinn. "Hópurinn ákvað fljótt að sýna saman og var fyrsta sýningin í Gallerí Gangi 1999.
Nafnið "Gullpensillinn" kom til vegna hugmynda meðlimanna um að í myndlist, og þá í listmálun, væri verið að breyta gildi efns líkt og gullgerðarmenn eða alkemistar reyndu að gera við ódýra málma á miðöldum. Nafnið hefur því með háleita sköpun að gera, en ber einnig með sér sjálfshæðni."