Gullpensillinn, Listasafn Reykjavíkur

Hópur fjórtán myndlistarmanna opnar sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum, Keflavík í dag kl. 16, en þetta er önnur sýningin í hinu nýja safni. Hópurinn sýnir undir hatti Gullpensilsins, en svo nefnist félagsskapur listamannanna. Sýningin er sú sjötta í röðinni, en hópurinn hefur einnig sýnt á Kjarvalsstöðum, Berlín, Siglufirði og Færeyjum. Félagsskapinn skipa Birgir Snæbjörn Birgisson, Daði Guðbjörnsson, Eggert Pétursson, Georg Guðni Hauksson, Hallgrímur Helgason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Jóhann Ludwig Torfason, Jón B.K. Ransu, Kristín Gunnlaugsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigtryggur Árni Sigurðsson og Þorri Hringsson.

"Félagsskapurinn varð til þegar hópur listmálara ákvað að hittast reglulega til að ræða saman, fræðast, örva, ögra og spegla hvern annan," segir hópurinn. "Hópurinn ákvað fljótt að sýna saman og var fyrsta sýningin í Gallerí Gangi 1999.

Nafnið "Gullpensillinn" kom til vegna hugmynda meðlimanna um að í myndlist, og þá í listmálun, væri verið að breyta gildi efns líkt og gullgerðarmenn eða alkemistar reyndu að gera við ódýra málma á miðöldum. Nafnið hefur því með háleita sköpun að gera, en ber einnig með sér sjálfshæðni."

Í ritverkinu Pólis (Ríkið) sakar gríski heimspekingurinn Platón listmálara um að leiða athygli fólks frá raunveruleikanum með því að búa til eftirlíkingar (mimesis).  Taldi Platón að útlit hluta væri báglegur staðgengill fyrir eðli þeirra.  Síðan á dögum Platóns hefur bæði nálgun okkar við raunveruleikann og málverkið tekið ýmsum breytingum og þótt oft megi sjá eftirlíkingu af hlut eða náttúrufyrirbæri í samtímamálveki er nokkuð víst að önnur hugmynd liggur þar að baki en bara eftiröpun.  Málarlist er skapandi vísindi, ekki ólík gullgerðarlist (alchemy) sem var viðurkennd fræði á miðöldum og allt til 18. aldarinnar.  Gullgerðarmenn leituðust við að breyta ódýrum málmi í gull, en gullið var talið æðra öðrum efnum og því sem næst guðlegs eðlis.  Líkt og gullgerðarmenn miðalda fæst listmálarinn við umbreytingu efnis.  Hannn breytir þó ekki eðli efnisins eins og gullgerðarmenn vildu gera, heldur setur hann það í huglægt (og/eða myndrænt) samhengi og breytir þannig gildi þess.

JBK Ransu