Laugardaginn 16. mars verður opnuð sýning á nýjum og nýlegum verkum eftir Hallstein Sigurðsson í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum. Hallsteinn er gagnmenntaðasti myndhöggvari sinnar samtíðar og helsti fulltrúi hins opna og rýmissækna málmskúlptúrs hér á landi, en sá skúlptúr á sér rætur í verkum myndlistarmanna á þriðja og fjórða áratug aldarinnar, rússneskra konstrúktífista, Julio Gonzalez, Picasso, Alexanders Calders og Davids Smith. Að auki var Ásmundur Sveinsson allt í senn, föðurbróðir Hallsteins, kennari og fyrsti gagnrýnandi. Um þennan frænda sinn segir Hallsteinn á einum stað: „(Hann) spurði mig alltaf margra spurninga og ég skil það eftir á hvað honum var annt um velferð mína. Hann sagði gjarnan: „Þetta er allt undir þér sjálfum komið."
Hallsteinn hóf sýningarhald um miðjan sjöunda áratuginn og á nú að baki hartnær fimmtíu ára feril. Hann nam höggmyndalist í Reykjavík og Bretlandi, fór svo námsferðir til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hallsteinn hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um lönd.
Verk eftir Hallstein er að finna í öllum helstu söfnum á landinu, en auk þess á almannafæri í Borgarfirði, að Vífilsstöðum, í Grímsnesi, í Borgarnesi, á Húsavík, Ísafirði, Seltjarnarnesi, Keldnaholti, Búðardal og víða í landi Reykjavíkur; til að mynda er úrval mynda eftir hann nú að finna í Gufunesi.
Spurður um útskýringu á verkum sínum tekur Hallsteinn sér í munn orð Ásmundar frænda síns þar sem hann segir: „Myndhöggvarar hugsa fyrir horn, málarinn hugsar á fleti."Og bætir við frá eigin brjósti:" Þetta er afskaplega einföld og góð útskýring á því hvernig myndhöggvarar hugsa."
Þetta er fyrsta einkasýning Hallsteins í Listasafni Reykjanesbæjar. Á sýningunni getur að líta rúmlega þrjátíu verk, þ.á.m. mörg „svif" eða „hreyfildi" sem ekki hafa áður sést á einum stað. Sýningunni fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda ljósmynda og inngangi eftir Aðalstein Ingólfsson.
Sýningin, sem ber heitið Byggingarfræði og þyngdarafl, verður opnuð kl. 15.00 laugardaginn 16. mars og eru allir boðnir velkomnir við opnunina sem er á dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum.
Sýningin er opin virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00 og stendur til 1. maí n.k.
Nánari upplýsingar gefa Hallstein Sigurðsson hallsteinn@simnet.is 869-5365 og Aðalsteinn Ingólfsson adalart@mmedia.is 898-8466.