Byggingarfræði og þyngdarafl

Laugardaginn 16. mars verður opnuð sýning á nýjum og nýlegum verkum eftir Hallstein Sigurðsson í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum. Hallsteinn er gagnmenntaðasti myndhöggvari sinnar samtíðar og helsti fulltrúi hins opna og rýmissækna málmskúlptúrs hér á landi, en sá skúlptúr á sér rætur í verkum myndlistarmanna á þriðja og fjórða áratug aldarinnar, rússneskra konstrúktífista, Julio Gonzalez, Picasso, Alexanders Calders og Davids Smith. Að auki var Ásmundur Sveinsson allt í senn, föðurbróðir Hallsteins, kennari og fyrsti gagnrýnandi. Um þennan frænda sinn segir Hallsteinn á einum stað: „(Hann) spurði mig alltaf margra spurninga og ég skil það eftir á hvað honum var annt um velferð mína. Hann sagði gjarnan: „Þetta er allt undir þér sjálfum komið."

 

Hallsteinn hóf sýningarhald um miðjan sjöunda áratuginn og á nú að baki hartnær fimmtíu ára feril. Hann nam höggmyndalist í Reykjavík og Bretlandi, fór svo námsferðir til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hallsteinn hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um lönd.

 

Verk eftir Hallstein er að finna í öllum helstu söfnum á landinu, en auk þess á almannafæri í Borgarfirði, að Vífilsstöðum, í Grímsnesi, í Borgarnesi, á Húsavík, Ísafirði, Seltjarnarnesi, Keldnaholti, Búðardal og víða í landi Reykjavíkur; til að mynda er úrval mynda eftir hann nú að finna í Gufunesi.

 

Spurður um útskýringu á verkum sínum tekur Hallsteinn sér í munn orð Ásmundar frænda síns þar sem hann segir: „Myndhöggvarar hugsa fyrir horn, málarinn hugsar á fleti."Og bætir við frá eigin brjósti:" Þetta er afskaplega einföld og góð útskýring á því hvernig myndhöggvarar hugsa."

 

Þetta er fyrsta einkasýning Hallsteins í Listasafni Reykjanesbæjar. Á sýningunni getur að líta rúmlega þrjátíu verk, þ.á.m. mörg „svif" eða „hreyfildi" sem ekki hafa áður sést á einum stað. Sýningunni fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda ljósmynda og inngangi eftir Aðalstein Ingólfsson.

 

Sýningin, sem ber heitið Byggingarfræði og þyngdarafl, verður opnuð kl. 15.00 laugardaginn 16. mars og eru allir boðnir velkomnir við opnunina sem er á dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum.

Sýningin er opin virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00 og stendur til 1. maí n.k.

Nánari upplýsingar gefa Hallstein Sigurðsson hallsteinn@simnet.is 869-5365 og Aðalsteinn Ingólfsson adalart@mmedia.is 898-8466.

Hvort sem Hallsteini Sigurðssyni myndhöggvara líkar það betur eða verr, þá er sérstaða hans í íslenskri samtímalist algjör. Íslensk þrívíddarlist er komin út um víðan völl, en Hallsteinn byggir enn á þeim efnislega og hugmyndalega grunni sem lagður var af þeim Gonzalez, Calder og David Smith á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir hvað hugmyndir þeirra voru róttækar. Nú skyldi losa þrívíddarlistamanninn undan áþjáni hins gegnheila efnis sem verið hafði hrygglengjan í list hans í árþúsundir. Þess í stað vildu menn innlima sjálft rýmið, helsta hugðarefni nútímamannsins, og gera það að grundvallarþætti listsköpunarinnar. Nútímaleg logsuðutæki og stórvirkar pressur gerðu þeim kleift að hantéra með járn, brons og ál – og síðar stál - sem væri það deigur leir, teikna með þessum málmum í ljósvakann, gera hann að myndfleti án endimarka. Hlutverk áhorfandans var ekki lengur að bera kennsl á listhlutinn sem listamanninum þóknaðist að laða fram úr efninu, heldur að gerast þátttakandi í kosmísku rannsóknarferli.

 

Hallsteinn Sigurðsson var vissulega ekki fyrstur Íslendinga til að leggja fyrir sig málmvinnu af þessu tagi. Bæði Ásmundur Sveinsson og Sigurjón Ólafsson áttu sér gjöful málmtímabil, sama má segja um eftirkomendur þeirra, Gerði Helgadóttur og bræðurna Guðmund og Jón Benediktssyni. En Hallsteinn er sá eini þeirra sem hefur með skipulegum hætti brotið til mergjar meginforsendur hins opna málmskúlptúrs á þessari öld. Á fimmtíu ára ferli hefur hann unnið sig í gegnum kúbísk viðmið þeirra Gonzalezar og Davids Smiths, tileinkað sér og þróað áfram svifmyndir Calders og fundið nýja fleti á heimilislegum gólf-og borðskúlptúrum læriföður síns, Anthony Caro.

 

Á þessari lærdómsríku vegferð hefur Hallsteinn smám saman færst nær hugmyndafræði sjálfs konstrúktífismans. Samkvæmt henni gerist listamaðurinn eins konar verkfræðingur sem rannsakar eigindir þess efnis sem hann er með undir, járnsins og rýmissins, út frá forsendum byggingarfræðinnar og þyngdaraflsins. Í þessu felst að þótt niðurstöður þrívíddarlistamannsins séu sértækar – abstrakt - eru þær, í krafti síns húmaníska ívafs, hverju þjóðfélagi jafn nauðsynlegar og uppgötvanir vísindanna.

 

Aðalsteinn Ingólfsson