Blómahaf

Blómahaf nefnir Elínrós Blomquist Eyjólfsdóttir sýningu sína í Bíósalnum í Duus Safnahúsum sem verður ein af sýningum safnsins á Ljósanótt og verður opnuð 1.september nk. Á sýningunni sem verður að hluta til yfirlitssýning á verkum hennar getur að líta málverk, teikningar og skissur, postulín og skartgripi. Sýningarstjóri er Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður.

Myndheimur Elínrósar er draumkenndur en á sama tíma raunsær þar sem myndefnið er málað af mikilli nákvæmni og af virðingu fyrir efninu. Á myndunum lifnar gróðurinn við og hefur áferð hollensku meistaranna en fyrirmyndir eru ávallt alvöru plöntur. Form og listræn fegurð myndanna hefur mikið gildi og er hægt að skynja lífrænan kraft þeirra. Elínrós býr og starfar í Reykjanesbæ og hefur tekið þátt í sýningum víða bæði á Íslandi og erlendis. Eftir víðtækt nám í postulínsmálun hóf Elínrós nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands þar sem hún lauk námi úr málaradeild á árinu 1987. Árið 1995 lauk hún mastersnámi í málun frá Skidmore College í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig sótt fjölda námskeiða erlendis og verið í gestavinnustofum. Elínrós er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í Nordiska Akvarellsallskapet. Elínrós tekur þátt í listamannsspjalli sunnudag 4. september kl. 15. Sýningin stendur til 6. nóvember. Nánari upplýsingar á www.elinros.is