Ásýnd fjarskans

Sýning á akrílverkum eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur

Föstudaginn 26. október kl.18 verður opnuð sýning á nýjum málverkum Þorbjargar Höskuldsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar, sem ber heitið Ásýnd fjarskans. Er þetta fyrsta einkasýning listakonunnar í hartnær átta ár.

 

 

Þorbjörg á að baki langan og farsælan feril sem myndlistarmaður, auk þess sem hún hefur lagt gjörva hönd á leirkerasmíði og leikmyndagerð. Verk hennar er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins, og frá 2006 hefur hún verið handhafi heiðursverðlauna frá Alþingi Íslendinga.

 

Þorbjörg hóf nám sitt við Myndlistarskólann í Ásmundarsal árið 1962, meðfram því  vann hún við keramíkhönnun hjá fyrirtækinu Glit undir stjórn Ragnars Kjartanssonar og Hrings Jóhannessonar. Hún stundaði  framhaldsnám við Konunglega danska listaakademíið, undir handleiðslu danska listamannsins Hjort Nielsen, frá 1967 til 1971, samtímis þeim Tryggva Ólafssyni, Magnúsi Tómassyni og Sigurjóni Jóhannssyni.

 

Að námi loknu hóf Þorbjörg listferil sinn með sýningu í Galleríi SÚM árið 1971, og tók þátt í nokkrum samsýningum á vegum SÚM. Frá upphafi hefur hún beint sjónum sínum að viðkvæmu sambandi manns og náttúru, og þá sérstaklega þeirri vá sem steðjar að íslenskri náttúru með vaxandi áherslu landsmanna á stóriðju. Þar hefur helsta verkfæri hennar og einkunn verið hin klassíska fjarvíddarteikning, sem hún notar til að kortleggja ýmiss konar inngrip mannsins í náttúrulegt ferli.

 

Í verkum sínum hefur Þorbjörg meðal annars brotið til mergjar sérstæða náttúru Reykjanesskagans; það er Listasafni Reykjanesbæjar því fagnaðarefni að fá að kynna ný verk hennar fyrir Suðurnesjamönnum.

Ásýnd fjarskans

Í tímans rás hefur fjarskinn verið besti vinur Þorbjargar Höskuldsdóttur listmálara. Fjarskinn hefur veitt henni svigrúm til útlistunar á víddum og tign íslenska fjallageimsins og smæð okkar gagnvart honum. Án fjarskans skynjum við ekki til fulls umfang þeirra breytinga sem orðið hafa á náttúrunni í kjölfar óheftrar virkjanastefnu og annarra inngripa mannsins. Fyrir Þorbjörgu er fjarvíddin nauðsynleg formgerð fjarskans; gefur honum búning og heldur utan um hann.

En Þorbjörg  gerir sér einnig grein fyrir þverstæðunni sem innbyggð er í fjarvíddina. Hún er auðvitað inngrip í milliliðalausa skynjun okkar, lagar áhorf okkar að uppdiktuðum hugmyndum um fastapunkt einhvers staðar langt út í buskanum. Hluti af viðhorfsbyltingu listmálarans Cézanne, seint á 19 öld, fólst einmitt í að sannfæra myndlistarheiminn um að þessi fastapunktur fjarvíddar væri ekki til; þess í stað hvarflaði augað einatt vítt og breitt um sjónarsviðið.

Þetta þverstæðukennda fyrirbæri, fjarvíddin, verður samt helsta verkfæri Þorbjargar til greiningar á samskiptum okkar við náttúruna. Það nýtist henni til að tengja saman hið manngerða og náttúrulega með ýmsum hætti, stundum með ófyrirsjáanlegum niðurstöðum. Taktföst hreyfing tröllslegra steypuklumpa inn að hjarta öræfalandslagsins vekur með okkur óhug.  Flísalagnir við fjallavötn eru grátbrosleg minnismerki um átroðning mannsins. Og samspil pípulagna og fossa er stórbrotið spaug á kostnað þeirra sem virkja vilja allar sprænur á hálendinu.

En æskilegt jafnvægi þessara tveggja þátta, hins manngerða og náttúrulega, er Þorbjörgu einnig ofarlega í huga. Stuðlaberg kallast á við fornar súlur úr Endurreisnarmálverkum, flísalögnin í stofunni á sér hliðstæðu í fjöllunum allt um kring; þetta og ýmislegt fleira í þessa veru gefur í skyn að maður og náttúra séu hluti af sömu hringrás. Stundum er engu líkara en listakonan telji hið manngerða geta aukið á áhrifamátt náttúrunnar.

Þorbjörg Höskuldsdóttir á að baki langan og farsælan myndlistarferil og hefur orðið aðnjótandi margskonar heiðurs og viðurkenninga. Það er Listasafni Reykjaness fagnaðarefni að fá að sýna nýjustu verk hennar í Duus-húsum.