Áframhald

Continuity

Fimmtudaginn 5. september kl.18:00. opnar Gunnhildar Þórðardóttir sýninguna „Áframhald" í Listsafni Reykjanesbæjar og er sýningin liður í dagskrá Ljósanætur.

 

Titill sýningarinnar vísar í áframhaldandi þróun á verkum Gunnhildar frá síðustu sýningu og til þeirra efna sem verkin eru gerð úr, enda sjálfbærni ofarlega í huga hennar. Á sýningunni eru tvívíð og þrívíð verk sem ýmist eru unnin úr fundnum hlutum eða tilfallandi afskurði, t.a.m. timbri, bárujárni og textíl. Gunnhildur sækir innblástur til bernskuáranna í Keflavík, hluti tengda sjómennsku og náttúru og mannvirki á Reykjanesinu.

 

Hluti sýningarinnar er innsetning sem sérstaklega er ætluð yngri gestum safnsins en þeim býðst að setjast niður, skoða rýmið og skapa. Á sýningartímabilinu verður boðið upp á listsmiðjur og leiðsagnir fyrir skóla en einnig verða viðburðir um helgar.

 

Sýningin stendur til 27. október en safnið er opið virka daga kl.12.00 -17.00 og um helgar kl. 13.00-17.00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

 

Nánari upplýsingar um Gunnhildi Þórðardóttir í síma 898-3419 og á vefsíðu hennar www.gunnhildurthordardottir.com

Mynstur fortíðar

Þegar fyrirtæki hófu að framleiða olíumálningu á 19. öldinni og selja hana í þar til gerðum umbúðum gátu listamálarar, sem höfðu áður maukað litaduft í lokuðum vinnukytrum og blandað það í olíu og bindiefni,  yfirgefið vinnuherbergi sín og haldið utandyra með sitt iðnaðarframleidda efni. Nú gátu þeir staðið úti í tjarnargarði, á engi eða í fögrum dal með hádegissólina í bakið og málað það sem fyrir augum bar með fyrirhafnarlítilli athöfn í litablöndun. Þessi nýjung varð til þess að listmálarar á borð við Claude Monet og Vincent Van Gogh töldu sig getað fangað augnablikið sem þeir upplifðu í náttúrunni með snarpri pensilskrift og ólgandi litaflæði.  Um leið hrintu þeir af stað byltingu í málaralist, en hún var ekki bara bundin við hugmyndafræði  þeirra um eðli málverksins. Hún var líka sprottin af möguleikunum sem þessi iðnaðarframleidda vara hafði upp á að bjóða. Möguleikunum á að grípa hvern þann lit sem átti við þetta augnablik, klína honum á strigann og láta hann blandast þar saman við aðra liti.

Snemma á 20.öldinni velti franski listamaðurinn Marcel Duchamp þessum breytingum fyrir sér og varð ljóst að þar sem málverk eru listaverk gerð með iðnaðarframleiddri vöru er ekkert því til fyrirstöðu að gera listaverk með annarskonar iðnaðarframleiddum vörum. Út frá því gerði hann fyrstu tilbúningana (Ready made), sem voru listaverk samsett úr fundnum  hlutum.

Gunnhildur Þórðardóttir er listamaður sem vinnur listaverk samsett úr fundnum hlutum en að sama skapi fæst hún við samsetningu lita með iðnaðarframleiddri vöru að hætti listmálarans. Gunnhildur er listamaður á 21. öldinni og hefur af þeim sökum sínar eigin ástæður fyrir notkun á tilbúnum iðnaðarframleiddum vörum, aðrar  en þær sem fyrrgreindir listamenn höfðu. Hugur Gunnhildar liggur til sjálfbærni, þ.e.a.s. að hún notar efni sem til fellur í afskurði og endurnýtir það í listaverk.  Fundnir hlutir í verkum Gunnhildar fjalla kannski ekki endilega um eðli listarinnar í ætt við Duchamp, heldur vísa þau frekar í heimspekileg og samfélagsleg markmið samtímans um sjálfbæra þróun sem m.a. beinist að því að sóa ekki efniviði sem hægt er að nýta í annað og draga þannig ekki úr möguleikum framtíðarkynslóða. En hugmyndin um sjálfbæra þróun er jú ákveðin viðbrögð við ofgnótt af iðnaðarframleiðslu sem ekki var ofarlega í hugum manna á dögum Duchamps, Monets eða Van Goghs. Hún skiptir hins vegar máli á okkar tímum.

Við getum sagt að fundir hlutir í verkunum Gunnhildar séu í raun fundin form sem listakonan nýtir í litrík formræn listaverk, tvívíð sem þrívíð. Þetta eru mynsturkennd verk sem vega salt á milli málaralistar, höggmyndalistar og  hönnunar. Myndefnið sækir hún í nærumhverfi Reykjanesbæjar , í hafið, klettana, strandirnar og manngerða hluti sem einkenna Reykjanesið, þar sem listakonan sleit barnaskónum sínum. Innblástur listaverkanna felst þá ekki í túlkun á augnablikinu úti í tjarnargarði, á engi eða í fögrum dal með hádegissólina í bakið. Innblásturinn er sóttur í hversdagsleikann, mynstur fortíðar, æsku og umhverfi hennar  sem og von fyrir æsku  framtíðar með sjálfbærri þróun.