Vordagar

VORDAGAR 

 

Ekki eru þeir margir meðal vor, listmálararnir af eldri kynslóð, sem enn varðveita með sér drauma þess framsækna og mannbætandi módernisma sem vaknaði til lífs á nýjan leik í kjölfar heimstyrjaldar númer tvö. Þá virtist myndlistin vera ein leið til að græða sár og sameina nútímamenn undir merkjum formfegurðar, innra samræmis hlutanna og tilfinningalegs sannleika.

 

Einn þessara listmálara er Hafsteinn Austmann sem kornungur og óforvarendis hrærðist um tíma í yfirþyrmandi hringiðu þessarar hugsjónatengdu abstraklistar í henni París, í nánu samneyti jafnt við eldri listjöfra á borð við myndhöggvarann Zadkine sem unga oflátunga á borð við Yves Klein. Með kynni af þessum listamönnum í farteskinu, svo og ýmis áhrif frá málurum á borð við Magnelli, Herbin og Vasarely, sneri Hafsteinn heim til Íslands árið 1955. Þar varð hann virkur þátttakandi í róttækri endurskoðun íslensku abstraktlistarinnar seint á sjötta áratugnum.

 

Allar götur síðan hefur Hafsteinn unnið út frá þeim meginforsendum sem bestu menn gáfu sér á umræddu tímabili, en lagað þær stöðugt að þörfum sínum og kröfum samtímans. 

 

Myndir Hafsteins, olíumálverk jafnt sem vatnslitamyndir, virðast ríkari af blæbrigðum tilfinninganna en flest annað sem flokkast undir myndlist í dag. Hins vegar tekur listamaðurinn áhorfendum sínum vara fyrir að tengja tilfinningar eða upplifanir sem kunna að slæðast inn í myndir hans við þann sem heldur um pentskúfinn; myndirnar séu honum tæki til að vinna sig frá upplifunum sínum, ekki til að velta sér upp úr þeim.

 

Markmið Hafsteins, fyrr og nú, er að búa til myndir sem hafa burði til að lifa sjálfstæðu lífi löngu eftir að hann er búinn að sleppa af þeim hendinni. Til þess þurfa þær að hafa sterk bein, síkvikan kjarna og öfluga nærveru. Þegar best lætur mynda þær veröld sem veitir fyrirheit um órofa samhengi hlutanna; mögulega heilun hins tætta nútímamanns.

 

Fyrir Suðurnesjabúa sætir þessi vorsýning á nýlegum verkum Hafsteins Austmann nokkrum tíðindum, þar sem þetta er í fyrsta sinn sem listamaðurinn sýnir í héraðinu. Ég er sannfærður um að heimamenn munu taka honum fagnandi.

 

 

Aðalsteinn Ingólfsson