Úlfur við girðinguna
Ef lýsa ætti í stórum dráttum yfirbragði íslenskrar málaralistar á undanförnum áratugum kemur lýsingarorðið „innhverfur“ oftar en ekki upp í hugann. Listfræðilega getum við kallað þessa myndlist hlutbundna, fígúratífa, huglæga, konseptúela eða expressjóníska. En sama hversu ágeng sem hún gefur sig út fyrir að vera, er hún fyrst og fremst innhverf, snýst um einhvers konar uppgjör innra með myndlistarmönnunum fremur en áreitið í umhverfinu. Hvernig sem veröldin veltist, öðlast fjörbrot hennar ekki þegnrétt á vettvangi íslensku málaralistarinnar fyrr en þau hafa síast í gegnum aðskiljanlegar flokkunarvélar hugans. Jafnvel „nýja málverkið“ Íslendinganna á níunda áratug síðustu aldar fjallar um tilvist einstaklingsins fremur en þau öfl, félagsleg eða pólitísk, sem setja honum skorður, öfugt við það sem við sjáum í þessari tegund málaralistar úti í heimi.
Á þessu er ein stór undantekning, sem er þó næstum marklaus, þar sem listamaðurinn sem í hlut á, nefnilega Guðmundur Erró, hefur um langt skeið tilheyrt hinu stóra vestræna menningarsamfélagi, ekki bara Íslandi. En ég nefni hann nú samt til sögunnar þar sem hann haft talsverða þýðingu fyrir Úlf Karlsson, sem nú sýnir í Listasafni Reykjanesbæjar. Úlfur vísar til Errós í ræðu og riti og nefnir sérstaklega víðsýni hans og pólitíska meðvitund sem birtast í margbrotnum víðáttumyndum af helstu viðburðum samtímans. Og bætir við: „Mín verk eru eins og tímalína með ólíkum römmum, mismunandi eftir því sem er að gerast í heiminum í kringum mig og hvar ég er staddur þá stundina“. Leiðir þessara tveggja „úthverfu“ og alltumfaðmandi listamanna hafa raunar legið saman, bæði hér heima og úti í Austurríki, þar sem sami galleristinn, Ernst Hilger, þjónustar þá báða.
Sýningu sína í Listasafni Reykjaness nefnir Úlfur Við girðinguna, og vísar þá til eiginlegrar staðsetningar hennar, nálægt gömlu flugvallargirðingunni þar sem fyrrum mættust íslensk og bandarísk menning: Íslendingasögur og teiknimyndasögur, rímnastemmur og rokktónlist, sviðakjammar og Hersheys súkkulaði. En sýningin er líka um girðingar í óeiginlegri merkingu, mörkin milli hins smáa og hins stóra, eyjaskeggja og meginlandsbúa, hins heimatilbúna og aðfengna, hins þekkta og óþekkta. Og sýning Úlfs staðfestir með sínum hætti, og af sérstökum ástríðukrafti, þá niðurstöðu Errós að girðingin er ekki lengur held. Fiðrildi austur í Asíu blakar vængjum og kemur af stað hvirfilbyl hinu megin á hnettinum. Ofbeldi og óáran utan landsteina eru á augabragði orðin hluti af heimsmynd okkar, þökk sé snjallsímanum.
En fyrir myndlistarmenn er þetta ástand líka sóknartækifæri, eins og stjórnmálamenn segja gjarnan. Listamenn með opin huga og sterk bein, eins og þeir Erró og Úlfur, þurfa ekki að leita sér að viðfangsefni, viðfangsefnin koma til þeirra. Það hefur verið tilhneiging að líta á ofgnóttarmyndir á borð við þær sem þeir Erró og Úlfur gera, alfarið sem ádeilur. En við skulum ekki gera lítið úr þeirri allt að því gastrónómísku nautn sem fylgir því að sitja við gnægtarborð heimsviðburða og dægurmenningar og geta smakkað á öllu. Það er auðvelt að gera hróp að fyrirbæri eins og Donald Trump, en þýðingarmeira, erfiðara – og áhrifameira - að byggja upp myndrænt líkingamál þess fjölbreytta fáránleika sem hann er fulltrúi fyrir.
Ekki svo að Úlfi sé tíðrætt um Donald Trump í verkum sínum. Hann hefur meiri ánægju af ýmiss konar minni háttar persónum, úr raunveruleikanum jafnt sem teiknimyndaseríum. Þær brjótast áfram með kænsku eða bellibrögðum, í sýndarveröld sem vísar í margar áttir samtímis. Myndir Úlfs eru litríkur vettvangur óútkljáðra átaka, skyndilegra hugljómana og ókláraðra frásagna. Mörkin milli veruleika og óraunveruleika eru yfirleitt óljós. Og á endanum skilur listamaðurinn eftir heilmikið fyrir okkur að ígrunda, löngu eftir að myndir hans eru horfnar okkur sjónum.
Aðalsteinn Ingólfsson