Við geigvænan mar - Náttúra Reykjanessins

Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar opnar laugardaginn 1. júní kl. 14.00. Sýningin ber heitið „Við geigvænan mar „ og þar má sjá verk sem lýsa náttúru Reykjanessins og unnin á tímabilinu 1942-2005 eftir ýmsa listamenn . Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson og verkin koma frá Listsafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Landsbankans , Listasafni Reykjanesbæjar og svo eru nokkur í einkaeigu.


„Lengi vel var Reykjanesið ekki ofarlega á lista íslenskra landslagsmálara. Leit þeirra að séríslenskri fegurð sem stæðist samanburð við það fegursta sem fannst í öðrum löndum leiddi þá iðulega að stöðum þar sem gat að líta mikilfenglegri og litríkari viðfangsefni en þótti vera á Reykjanesinu. „Það var tæplega fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að viðhorf listamanna til náttúrunnar á Reykjanesinu tóku að breytast. Þessi viðhorfsbreyting tengdist vaxandi áhuga Íslendinga á uppruna sínum í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930; gat hugsast að harðhnjóskuleg náttúra landsins væri einmitt lykillinn að þrautseigju landans, þúsund ára úthaldi hans út við geigvænan mar? Engu að síður tók það listmálara nokkurn tíma að nema land á Reykjanesi. Þar rann heimamönnum á borð við Magnús Á. Árnason og Eggert Guðmundsson blóðið til skyldunnar. Smám saman sagði nálægðin við Reykjavík til sín. Og vildu menn fjalla um úfinn sjó og lífsháska var stutt að fara í brimið beggja vegna Reykjanesskagans, sjá málverk eftir Jón Stefánsson, Veturliða Gunnarsson, Hrólf Sigurðsson, Jóhannes Geir , Eirík Smith o.fl." Eins og segir í sýningarskrá sem gefin er út af þessu tilefni.


Sýningin, „Við geigvænan mar" verður opnuð kl. 14.00 laugardaginn 16.júní og verður opin virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00 og stendur til 18. ágúst.

Reykjanes og myndlistin

Lengi vel  var Reykjanes ekki ofarlega á lista íslenskra landslagsmálara. Leit þeirra að séríslenskri  fegurð sem stæðist samanburð við það fegursta sem finnst  í öðrum löndum leiddi þá iðulega að Húsafelli þar sem gat að líta mikilfenglegri og litríkari viðfangsefni en víðast hvar annars staðar, austur í gróðurvinina Fljótshlíð, eða jafnvel enn lengra í austurátt, í heiðríkjuna undir Vatnajökli.  Hrjóstrugt og fjandsamlegt  landslagið á Reykjanesi  var ekki í samræmi við þá mynd sem íslenskir listamenn vildu draga upp af sínu „fagra föðurlandi“.

 

Það var tæplega fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að viðhorf listamanna til náttúrunnar á Reykjanesinu tóku að breytast. Þessi  viðhorfsbreyting tengdist vaxandi áhuga Íslendinga á uppruna sínum í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930; gat hugsast að harðhnjóskuleg náttúra landsins væri einmitt lykillinn að þrautseigju landans, þúsund ára úthaldi hans út við geigvænan mar?

Engu að síður tók  það listmálara nokkurn tíma að nema land á Reykjanesi. Þar rann heimamönnum á borð við Magnús Á. Árnason og Eggert Guðmundsson blóðið til skyldunnar. Gunnlaugur Scheving varð Reykjanesmálari fyrir einskæra  tilviljun eftir að Sigvaldi Kaldalóns, héraðslæknir í Grindavík, skaut yfir hann skjólshúsi snauðan og umkomulausan. Smám saman sagði nálægðin við Reykjavík til sín. Keilir er í bakgrunni býsna margra mynda af höfuðborgarsvæðinu. Og vildu menn fjalla um úfinn sjó og lífsháska var stutt að fara í brimið beggja vegna Reykjanesskagans, sjá málverk eftir Jón Stefánsson, Veturliða Gunnarsson, Hrólf Sigurðsson, Jóhannes Geir  og Eirík Smith. 

 

Upp úr stríðinu uppgötvuðu listamenn aðdráttarafl Krýsuvíkur; Kjarval  fór þangað á sjötta áratugnum til að fanga þau ótrúlegu litbrigði sem þar fyrirfinnast, Ásgrímur stuttu áður til að reyna á þolmörk vatnslitatækninnar í hveramyndum sínum. Enn fara listamenn, íslenskir og erlendir, til Krýsuvíkur svipaðra erinda. Með tímanum varð Sveinn Björnsson  nánast eitt með ójarðnesku litrófinu á hverasvæðinu og  svartur og mjúkur sandsteinninn ofan við vatnið varð Sverri Haraldssyni og Hauki Dór kveikja myrkra tilbrigða um landslagið innra með okkur.  Raunar hefur Krýsuvík einnig sett mark sitt á myndlist í öðrum löndum, sjá stórbrotin málverk norsku listamannanna Odds Nerdrum og Patrick Huse, sem sýnd hafa verið í alþjóðlegum listhúsum.

 

Landslag hefur að sönnu aðra þýðingu fyrir listamenn nútímans en forvera þeirra. En hvernig sem þeir eru innstilltir gagnvart landslagi, virðast þeir finna hugmyndum sínum samsvörun í náttúrunni á Reykjanesi. Hún kemur fyrir í verkum svo ólíkra listamanna sem Jóns Axels, Georgs Guðna og Húberts Nóa og öðlast nýja merkingu í meðförum sérhvers þeirra.