Arngunnur Ýr með ný verk í Listasafni Reykjanesbæjar
Fimmtudaginn 23. október verður opnuð sýning á nýjum verkum Arngunnar Ýrar í Listasafni Reykjanesbæjar og ber sýningin heitið Upphafið. Arngunnur Ýr stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófum frá San Francisco Art Institute og Mills College í Bandaríkjunum. Arngunnur hefur sýnt víða og er löngu orðin þekkt fyrir sínar „himnesku" náttúrumyndir. Aðalsteinn Ingólfsson segir í sýningarskrá sem gefin er út af þessu tilefni: „ Í seinni tíð hafa málverk Arngunnar Ýrar fengið á sig æ frumspekilegra yfirbragð. Þær sýna landslag sem er í mótun og upplausn í senn og vekur því með okkur tilfinningar sem sveiflast á milli aðdáunar á þeirri endurnýjun sem stöðugt á sér stað í skauti náttúrunnar og ótta yfir eyðingarmætti hennar." Sýningin stendur til 7. Desember.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum er opinn alla daga frá kl. 11.00 til kl. 17.00 og þar er ókeypis aðgangur.