Úlfatími

Ný sýning Duo-systra opnar föstudaginn 10.febrúar kl. 18.00

„Tíminn milli nætur og dagrenningar. Tíminn þegar flestir deyja, þegar svefninn er hvað dýpstur og martraðir raunverulegastar. Þá sækir mestur ótti að þeim sem ekki geta sofið, og bæði draugar og drýsildjöflar fara mikinn. Flest börn fæðast einnig á Úlfatíma.“

Þessi orð sænska kvikmyndaleikstjórans Ingmar Bergmann  urðu systrunum Söru og Svanhildi Vilbergsdætrum kveikjan að nýjustu verkum sínum sem sjá má á sýningu Listasafns Reykjanesbæjar sem ber einmitt heitið Úlfatími.  Þær systur eru þekktar fyrir litskrúðug verk sín sem segja endalausar sögur, bæði þessa heims og annars og nú bregður við nýjum tóni sem ekki hefur sést áður.  Sara og Svanhildur mála sem fyrr saman, sömu verkin og á sýningunni Úlfatími má sjá 20 olíuverk sem flest eru ný og hafa ekki sést áður. Sýningin stendur til 23.apríl og verða þær systur með leiðsögn sunnudaginn 12.mars kl. 15.00. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

 

Skammdegisskraf

Viðtal Aðalsteins Ingólfssonar við Söru og Svanhildi

Aðalsteinn Ingólfsson: Þið systur eruð nokkrum sinnum búnar að segja frá því hvað varð til þess að þið fóruð að mála tvíhent, en rifjið það upp fyrir Suðurnesjamenn.

Sara Vilbergsdóttir:  Það var fyrir algjöra tilviljun. Að vísu erum við báðar myndlistarmenntaðar, en Svanhildur útskrifaðist níu árum á eftir mér og var ekki farin að praktísera neitt að ráði. Hins vegar hafði ég verið að frá 1985 eða svo.

Svanhildur Vilbergsdóttir: Ég var upptekin af brauðstritinu og ætlaði að geyma mér þann lúxus að mála myndir þangað til ég kæmist á ellilaun.

Sara: Svo var ég stödd í miðju verkefni árið 2010, sem var að mála Vestfjarðarhlutann á sjö metra langt verk sem Ferðamálaráð hafði fengið listamenn frá öllum landshornum til að mála fyrir sig. Við systur erum nefnilega Ísfirðingar. Ég átti að ljúka við minn hluta á einni klukkustund og fór þá alveg á taugum. Þá hóaði ég í Svanhildi sem kom, róaði mig niður og tók stjórnina. Saman lukum við verkinu og hlógum svo mikið við framkvæmdina að við fórum að íhuga samstarf til frambúðar.

Svanhildur: Það vildi svo til að ég var á milli vita þegar kallið kom frá Söru; ég hafði verið í krabbameinsmeðferð og þurfti að endurskoða alla tilveru mína. En sannast sagna lá ekkert í augum uppi að samkrull okkar tveggja gæti gengið upp. Þeir sem okkur þekkja vita að við erum mjög ólíkar. Utan vinnustofunnar erum við oft á öndverðum meiði. Sara er hvatvís, ég er fyrir nákvæmni. En það merkilega er að á vinnstofunni verður til þriðja manneskjan, sem er svona líka yndislega heilsteypt. Síðan höfum við málað saman.

Sara: Það er aldrei ósætti á vinnustofunni. Þar höfum við bara eina grundvallarreglu: hvorug okkar málar ein síns liðs, málverkin útheimta nærveru okkar beggja. Svo eru það næstum því óskrifuð lög að við málum aldrei hvor aðra, eingöngu sjálfsmyndir; það er mest af praktískum ástæðum.En það er iðulega eins og önnur okkar botni það sem hinni dettur í hug. Ég segi til dæmis: Ættum við ekki að færa fígúruna þarna uppi í horninu, eða snúa henni öðruvísi. Og þá svarar Svanhildur að bragði: Ég var einmitt að hugsa það sama. Og þegar  kemur að litanotkun, myndbyggingu og áherslum almennt, erum við ótrúlega oft samstíga.

AI: Litanotkun ykkar er kapítuli út af fyrir sig. Það er leitun að listamönnum sem nota bleika liti eins oft og rösklega.

Svanhildur: Það er eitthvað við bleika litinn sem gleður okkur óstjórnlega. Ef við mættum ráða mundum við skylda Reykvíkinga til að mála húsin sín eins og Mexíkóbúar. Skammdegið væri þá snöggtum bærilegra.

AI: Þekkið þið sambærileg listamannateymi úti í löndum?

Sara: Ekki alveg sambærileg. Listamenn hafa oft unnið saman, en þeir hafa þá ekki verið blóðskyldir. Að vísu höfum við haft spurnir af tvíburum í Úkraínu sem mála verk í sameiningu, en það er nánast eina fordæmið sem við vitum um. Við þurfum að kanna það mál.

AI: Hvernig munduð þið lýsa þeim myndheimi sem þið hafið skapað ykkur?

Svanhildur: Þetta er nokkurs konar ævintýraheimur þar sem fjölskyldu-og einkalíf okkar rennur saman við drauma, fantasíur og allt það áreiti sem við verðum fyrir frá opinberum fjölmiðlum, kvikmyndum, tímaritum, slúðurblöðum og samskiptamiðlum. Svo erum við líka í viðræðusambandi við gjörvalla myndlistarhefðina, að minnsta kosti fígúratífa hluta hennar. Þetta er allt orðið svo snar þáttur af lífi okkar, að stundum veit maður ekki hvar mörkin liggja. Það er kannski inntakið í þessum myndum? Töfraraunsæi var mikið tískuorð í bókmenntaumræðunni fyrir nokkrum árum. Ætli við getum ekki sölsað það orð undir okkur?

AI: Er eitthvað eitt málverk lýsandi fyrir vinnubögð ykkar?

Svanhildur: Þau eru það eiginlega öll. Til dæmis myndin af sjálfri mér þar sem ég er í geislameðferð. Þar er ég náttúrlega útafliggjandi í þartilgerðri maskínu. Og Sara bíður hinum megin við dyrnar; hún keyrði mig alltaf í þessar geislanir. En við hliðina á mér er enginn annar en Hannibal Lecter, sem er mannæta eins og bannsettur krabbinn. Það er svo auðvitað Súperman sem kemur fljúgandi mér til bjargar. Fólk spyr af hverju ég sé með George Clooney við fótagaflinn. Það var bara vegna þess að engin læknafantasía er fullkomin nema sætur læknir komi við sögu. Maður notar alls konar uppdiktaðar fígúrur til að bæði spegla og kommentera á það sem maður er að hugsa og upplifa. Svipað gerist líka í Hjartastopp-myndinni af Söru; þar stendur maðurinn með ljáinn í stað Hannibals.

Sara: Þetta krefst líka heilmikillar undirbúningsvinnu. Þegar við erum búnar að koma okkur saman um megininntakið, hrúgum við ógrynni mynda inn á tölvu og setjumst yfir það í langan tíma. Við notum Photoshop óspart og svo líka pappírsklipp upp á gamla mátann. Svo er heilmikið mál að skeyta þetta allt saman. Oft breytist mikið í sjálfri vinnslunni, eitthvað spennandi kemur upp í miðju kafi og þá tekur málverkið nýja stefnu.

AI: Margar þessar myndir eru verulega fyndnar. Er það kostur að ykkar mati?

Svanhildur: Það er eiginlega ómeðvitað. Og gerist mikið til af sjálfu sér. Sjálfar erum við stundum langt niðri út af þjóðfélagsástandi og ástandinu í heiminum. En það þarf ekki mikið til þess að við förum að hlæja. Til dæmis urðu til nokkrar fáránlegar myndir um elsku kallinn hann Tiger Woods, meðal annars  vegna þess að okkur fannst fagmál golfleikara svo sérkennilegt. Einhver klaufaskapur í útfærslu myndar verður kannski til þess að hún verður mátulega asnaleg. Þá færumst við allar í aukana og verkið fer á flug. En það sem er svolítið merkilegt er að fólk nær oftast bestu sambandi við myndirnar þar sem mest ber á persónulegri sérvisku okkar.

Sara: Það má eiginlega segja að alvaran fari vaxandi í myndunum sem við erum að gera. Þær nýjustu, sem við kennum við Úlfatíma, eru fremur táknrænar ástandslýsingar en tilbrigði við hið persónulega. Það er svo margt varhugavert að gerast í samtímanum. Eins og stendur erum við að taka púlsinn á því og ekki sér fyrir endann á því rannsóknarferli.