Tilfinningalegur heiðarleiki kvenna – er hann staðreynd?

Málþing um sýninguna Kvennaveldið í Listasafni Reykjanesbæjar sunnudaginn 17. janúar kl. 15.00.

Sýningin „Kvennaveldið: Konur og kynvitund“ stendur nú yfir í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum.  Á sýningunni er að finna verk eftir tólf listakonur, Doddu Maggý, Guðnýju Kristmanns, Guðrúnu Tryggvadóttur, Hlaðgerði Írisi, Huldu Vilhjálmsdóttur, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Louise Harris, Magdalenu Margréti Kjartansdóttur, Rósku, Valgerði Guðlaugsdóttur og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Verkin segja frá tilurð kynhvatar og kynþroska og upphefja áður „óumræðanleg“ fyrirbæri á borð við sköp og fýsn kvenna, flétta saman eigin líffræði, táknfræði og sagnfræði og listakonurnar fara samkvæmt texta í sýningarskrá, ekki í felur með langanir sínar og ímyndanir.

 

Nú er ætlunin að halda málþing í safninu sunnudaginn 17. janúar kl. 15.00 – 16.30 þar sem velt verður upp nokkrum spurningum m.a. hvort þessi svokallaði „tilfinningalegi heiðarleiki“ listakvennanna gagnvart líkamanum sé staðreynd og hvort þessi heiðarleiki geti beinlínis verið sú fílósófía sem bjargað getur heiminum? Stjórnandi málþingsins er Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur og sýningarstjóri, dr. Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor við HÍ verður með stutta framsögu   og listakonurnar Guðrún Tryggvadóttir, Kristín Gunnlaugsdóttir og Magdalena Margrét Kjartansdóttir eru þátttakendur í pallborði.

 

Allir eru velkomnir á málþingið og ókeypis aðgangur.

 

 

 

Gallery - Kvennaveldið: Konur og kynvitund