Sýningin „Það sem gerðist" opnar í Listasafni Reykjanesbæjar
Föstudaginn 13. mars kl. 18.00 verður opnuð sýning á nýjum verkum Huldu Vilhjálmsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar og ber sýningin heitið Það sem gerðist. Verkin sem Hulda sýnir að þessu sinni eru fjölbreytt bæði að efnisvali og útliti eins og segir í texta sýningarstjórans, Aðalsteins Ingólfssonar í sýningarskránni:
"Nú eru menn ekki settir út af sakramentinu fyrir ónóga fylgispekt við tiltekna hugmyndafræði, heldur sannar sig sérhver listamaður á eigin forsendum. Það hefur Hulda tvímælalaust gert, og af svo miklu örlæti að áhorfandinn á fullt í fangi með að fylgja henni eftir, gegnum völundarhús teikninga, málverk á striga, pappa, plast og tré, málaða aðskotahluti, litaða leirskúlptúra, frístandandi málverk, fljúgandi málverk, málverk með textum, frjálsa texta o.s.frv."
Sýningin er á dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum sem sett verður við sama tækifæri.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum er opinn virka daga frá kl. 11.00 til kl. 17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Sýningin stendur til 26.apríl og aðgangur er ókeypis.
Nánari upplýsingar gefa:
Hulda Vilhjálmsdóttir:Sími 846-8746
Aðalsteinn Ingólfsson: Sími 898-8466