Tegundagreining er sambland endurlits og nýrra verka Steingríms Eyfjörð sem unnin eru árin 2020 – 2021.
Sýningin er tilraun listamannsins til að skýra kveikjuna að myndsköpuninni. Verkin eru afmörkuð og staðsett með flokkunarkerfi, mynstri sem þróast hefur á löngum ferli. Yfirflokkar á sýningunni eru: Hið ósnertanlega, Arfurinn, Heimur kvenna, Gagnrýni, Guðs eigið land, Kellingin, Decode, Comix.
Listasafn Reykjanesbæjar gefur út veglega sýningaskrá í tilefni af sýningu Steingríms Eyfjörð, þau sem rita texta eru: Halldór Björn Runólfsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Benedikt Hjartarson, Jón Bjarni Atlason og Helga Þórsdóttir. Einnig skrifar listamaðurinn eigin skýringar á myndverkunum.
Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) hefur verið virkur myndlistarmaður frá áttunda áratug síðustu aldar og í verkum sínum hefur hann unnið með fjölbreytta miðla, margvíslegt efnisval og ólík viðfangsefni. Steingrímur hefur haldið fjölmargar einkasýningar síðan 1977, ásamt því að vera valinn til þess að taka þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Þar má meðal annars nefna viðamikla sýningu á verkum hans í Listasafni Íslands árið 2006. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007 með verkið Lóan er komin sem samanstendur af 13 sjálfstæðum verkum. Árið 2017 var hann sæmdur titlinum bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Steingrímur hlaut Menningarverðlaun DV fyrir myndlist árið 2002 og var tilnefndur til Carnegie Art Award árin 2004 og 2006.
Steingrímur lauk námi við kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971–1975 og einnig deild í mótun árið 1978 undir handleiðslu Magnúsar Pálssonar og Robert Filliou. Hann lærði við Edinborgarháskóla árið 1977 og nam grafík við Ateneum Suomen Kuvataideakatemian Koulu, Helsinki 1979–1980. Steingrímur stundaði framhaldsnám í nýmiðlum við Jan van Eyck Academie, Maastricht, Hollandi 1980–1983. Hann hefur starfað við kennslu og tekið þátt í félagsstarfi myndlistarmanna. Steingrímur býr og starfar í Reykjavík
Tegundagreining stendur til og með 22. ágúst 2021.
Sýningin var styrkt af Safnasjóði.
Allir velkomnir og ókeypis aðgangur að Listasafni Reykjanesbæjar í sumar.