Sýning á verkum Guðrúnar Einarsdóttur

EFNI, TÍMI OG ORKA

 

Þegar Jóhannes Kjarval hóf að beina sjónum sínum að innviðum landslagsins, grjótinu, lynginu og mosanum, í stað þess að bregða upp víðáttumyndum af þekktum eða óþekktum stöðum, urðu kaflaskil í íslensku landslagsmálverki. Hvort sem samferðamenn hans gerðu sér grein fyrir því eða ekki, þá er okkur eftirkomendum a.m.k. ljóst að ekki yrði aukið á nálægðina við landið án þess að leysa það upp í frumeiningar sínar, þ.e. gera úr því óhlutbundið mynstur.

 

Tæplega hálfri öld síðar tók Guðrún Einarsdóttir upp þráðinn þar sem Kjarval sleppti honum og rakti hann áfram með rökréttum hætti. Í verkum sínum kafaði hún langt undir yfirborð landsins, grennslaðist fyrir um mótunar-og eyðingaröflin við deiglu þess og leitaðist við að gera sýnilegt hvernig efni, orka og tími leggjast á eitt og skapa þetta síkvika fyrirbæri sem við nefnum ,,náttúru”.

 

Í seinni tíð hefur Guðrún lagt bæði dýpri og heildrænni skilning í ,,náttúruna”, tengt saman hinar stóru lífrænu heildir jarðfræðinnar, smáheima líffræðinnar og ofurvíddir stjörnufræðinnar. Í nýjustu verkum hennar erum við stödd við upptök sjálfs lífsins, þar sem síbreytingin er eina staðreyndin sem hægt er að reiða sig á.

 

Um leið eru verk Guðrúnar langt í frá köld og vísindaleg; þvert á móti eru þau borin uppi af ríkum og fullkomlega ,,órökrænum” tilfinningum. Þær tilfinningar snerta umgengni okkar við þá margbrotnu og viðkvæmu lífrænu veröld sem við höfum fengið að láni og eigum að skila óskaddaðri til afkomenda okkar.

 

Aðalsteinn Ingólfsson