Sumarsýningar 2024

Erlingur Jónsson - einkasýning og Inn í ljósið - úr safneign

Listasafn Reykjanesbæjar opnar tvær sýningar miðvikudaginn 12. júní kl. 17:00 - 19:00, í 30 ára afmælisviku Reykjanesbæjar.

 

Erlingur Jónsson

Í innri sal verður sýning á verkum listamannsins Erlings Jónssonar (1930-2022) úr einkasafni fjölskyldu hans. Einnig verða sýndar ljósmyndir af listamanninum sem eru í eigu listasafnsins.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd, ólst upp lengst af í Hafnarfirði og flutti Keflavíkur þar sem hann starfaði sem kennari til fjölda ára. Erlingur einbeitti sér alla tíð að listsköpun meðfram kennslustörfum, hafði frumkvæði af því að stofna Baðstofuna, myndlistarskóla í Keflavík, og einnig vann hann lengi með Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara. Erlingur fór til Noregs á áttunda áratugnum til þess að mennta sig í myndlist, að loknu námi kenndi hann við framhaldsskóla í Osló og síðan við listadeild háskólans í Osló.

Árið 1991 var Erlingur fyrstur til þess að hljóta útnefninguna bæjarlistamaður Keflavíkur, nú Reykjanesbæjar, en stór hluti útilistaverka bæjarins eru eftir hann. Einnig eru skúlptúrar eftir Erling á opinberum stöðum í Noregi og Danmörku.

 

Inn í ljósið

Listasafn Reykjanesbæjar er að flytja safneign sína í nýtt varðveisluhús í sumar og í því ferli hefur ýmislegt dýrmætt komið í ljós. Sýningin „Inn í ljósið“ samanstendur af verkum úr safneign og aðallega landslagsverkum eftir íslenska listmálara. Þar á meðal er verk eftir Jóhannes S. Kjarval sem listasafnið fékk að gjöf frá Íslandsbanka.

Listamenn:

Áki Gränz, Ásgrímur Jónsson, Ásta Árnadóttir, Ásta Pálsdóttir, Einar Falur Ingólfsson, Eiríkur Smith, Guðmundur Karl Ásbjörnsson, Guðmundur Maríasson, Gunnhildur Þórðardóttir, Gunnlaugur St. Gíslason, Ilmur Stefánsdóttir, Jóhannes Geir Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Magnús Á. Árnason, Ólafur Túbals, Pétur Friðrik Sigurðsson, Sigmar V. Vilhelmsson, Þorlákur R. Haldorsen.

 

Sýningarnar munu standa til 18. ágúst 2024.