Sumarsýning í bíósal

17. júlí – 22. ágúst 2021

Duus Safnahús og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða til samstarfs í sumar við fólk sem ástundar myndlist og býr á Suðurnesjum. Góð þátttaka var um sýningarpláss, 18 einstaklingar sóttu um og af þeim voru 4 valdir til þess að sýna á tveimur samsýningum í Bíósal Duus Safnahúsa.

Seinni myndlistarsýningin af tveimur stendur frá 17. júlí til 22. ágúst 2021 og er samsýning Einars Lars Jónssonar (Larz) og Unnar Karlsdóttur.

Duus Safnahús eru opin alla daga frá 12:00 – 17:00 og er ókeypis aðgangur í allt sumar. 

Einar Lars Jónsson (Larz) 

Einar Lars (f. 1978) hefur haft áhuga á listrænni ljósmyndun í 15 ár og sýnir ljósmyndir úr sýningunni  Hugmynd | Perception. Á þessu ári hefur myndefnið einnig verið sýnt í Gallery Grástein og eins verður það sýnt í Galleríi í miðbæ Stokkhólms í desember 2021.

Myndirnar eru sýn í efnisheiminn allt í kringum okkur. Þar sem litir, form og áferð eru í aðalhlutverki. Myndirnar eru kraftmiklar með vott af dulúð og eiga að hreyfa við ímyndunarafli sjáandans. Þær eru teknar víða þó mestmegnis á Suðurnesjum. 

Einar Lars lauk B.A. í heimspeki frá Háskóla Íslands, hann var eitt ár í Feneyjum og nam þar við Ca´Foscari háskólann bæði ítölsku og heimspeki. Síðasta áratug hefur Einar Lars starfað sem knattspyrnuþjálfari og er með UEFA A og UEFA Elite þjálfaragráður. 

Unnur Karlsdóttir  

Unnur er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hefur málað og teiknað frá barnsaldri. Unnur vinnur með vatnsliti, ink (blek) og grafík í verkum sínum. Hún hefur lokið fjölmörgum námskeiðum í grafík og málun, einnig hefur Unnur tekið þátt í Nýsköpunarsmiðju Hakkit árið 2016. 

Unnur stundaði nám við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, grunnnám 1980–1981 og í textíldeild 1985–1988. Hún lærði fatahönnun við Columbine skolen í Danmörku, 1991–1993.

Unnur hefur starfað sem myndmennta- og handmenntakennari, og sem leiðbeinandi á handavinnustofu aldraða. Frá árinu 2011 hefur hún starfrækt Ljósberann sem er skermagerð.  

Einkasýningar:
Ljósanótt 2009 – Leitin 
Okt. 2009 – Konur eru gersemar
 
Samsýningar: 
Undir pressu – Duus húsum 2018
Duus húsum 2019
Kanill Jóla-Listamessa – des. 2020
 

 

Gallery - Sumarsýning í bíósal