Sporbaugur

Listamennirnir Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth opna sýninguna Sporbaugur/Ellipse, hjá Listasafni Reykjanesbæjar, laugardaginn 28. maí klukkan 14:00.

Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth, eru bæði vel þekkt fyrir ævintýralegan myndheim þó með ólíkum hætti sé. Ein kynslóð listamanna skilur þau að en á sama tíma tilheyra verk þeirra sömu fjölskyldu. Bæði eru þau þekkt fyrir súrrealíska túlkun á heiminum, ásamt pönkuðu viðhorfi til heimsins.

Sýningin er gerð sérstaklega fyrir rými Listasafns Reykjanesbæjar.

Listamennirnir hafa ákveðið að vinna með hið þekkta fyrirbæri sem flest börn á vesturlöndum þekkja, en það eru litabækur.

Um efnistök þeirra Björns Roth og Gabríelu Friðriksdóttur, segir listfræðingurinn Jón Proppe:

„Litabækur fyrir börn eru í raun mjög undarleg fyrirbæri. Til hvers eru þær? Þær þroska ekki sköpunarkraftinn því það er bannað að lita út fyrir og eina sjálfstæða ákvörðun barnsins liggur í litavalinu. Kannski er uppeldislegt gildi þeirra ekki flóknara en þetta: Að kenna barninu að fylgja reglum og sætta sig við að fá ekki að ráða nema því sem minnstu skiptir í lífinu.

Litabók Gabríelu og Björns virðist fylgja þessum fyrirmyndum en hér skiptir samhengið þó öllu. Bókin er sett fram sem þáttur í listsýningu og litaðar útgáfur þeirra af myndunum hanga á veggjum safnsins: Bókin er orðin listaverk og opinberuð gestum safnsins á svipaðan hátt og þegar barn kemur hlaupandi til mömmu til að sýna henni hvað það litaði flott í litabókina sína. Þetta er allt eins og í ævintýri og þannig losnar ímyndunaraflið úr fjötrum. Innsetningar og myndbandsverk taka svo við og leiða okkur enn lengra inn í dularfullan heim þar sem allt getur gerst og allt getur orðið að list.“

 

Gabríela Friðriksdóttir (1971) vinnur gjarnan þvert á listform inn í innsetningar, þar sem óhefðbundinn efniviður sameinast listmiðlum eins og teikningum, málverki, skúlptúr og hreyfimyndum. Í verkunum birtast jafnan súrrealískir smáheimar í einstöku myndmáli á mörkum náttúru og draumkenndrar fantasíu í stöðugum umskiptum, með vísanir í táknfræði og andleg kerfi sem framsett eru í hennar eigin goðafræði.

Gabríela útskrifaðist af skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1997 og stundaði nám við AVU akademíuna í Prag veturinn 1998. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2005 með verkið „Versations Tetralógía“. Gabríela býr og starfar í Reykjavík.

Björn Roth (1961) hefur starfað við myndlist frá seinni hluta áttunda áratugarins, ferill sem hófst í samruna tónlistarsköpunar og gjörningalistar með Freddy and the Fighters (1975-1978) og Bruna BB (1979-1982). Hann vinnur í stöðugu flæði tilrauna, þar sem hversdagsleikinn rennur saman við listsköpun, með miðla eins og teikningu, málverk og skúlptúr í innsetningum sem jafnan eru unnar beint inn í rými.

Björn stundaði nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Hann fór í kjölfarið að vinna með föður sínum, Dieter Roth, í nánu samstarf á árunum 1978-1998 og hefur síðan stýrt dánarbúi hans meðfram eigin listsköpun. Björn býr og starfar í Mosfellsbæ og Basil, Sviss.

 

Listasafn Reykjanesbæjar, gefur út bók af tilefni sýningarinnar Sporbaugur/Ellipse sem þjónar bæði sem sýningarskrá og litabók, gripurinn er númerað myndverk gefið út í 500 eintökum sem gestir safnsins geta eignast á hóflegu verði.

Sýningin Sporbaugur/Ellipse, er styrkt af Myndlistarsjóði.

Sýningin stendur til og með sunnudagsins 13. nóvember 2022.

 

Sporbaugur

Litabækur fyrir börn eru mjög undarleg fyrirbæri. Til hvers eru þær? Þær þroska ekki sköpunarkraftinn því það er bannað að lita út fyrir og eina sjálfstæða ákvörðun barnsins liggur í litavalinu. Kannski er uppeldislegt gildi þeirra ekki flóknara en þetta: Að kenna barninu að fylgja reglum og sætta sig við að fá ekki að ráða nema því sem minnstu skiptir í lífnu. Litabók Gabríelu og Björns virðist fylgja þessum fyrirmyndum en hér skiptir samhengið þó öllu. Bókin er sett fram sem þáttur í listsýningu og útgáfur listamannanna af myndunum hanga á veggjum safnsins: Bókin er orðin listaverk og opinberuð gestum safnsins á svipaðan hátt og þegar barn kemur hlaupandi til mömmu til að sýna henni hvað það litaði flott í litabókina sína. Þetta er allt eins og í ævintýri og þannig losnar ímyndunaraflið úr fjötrum. Innsetningar og myndbandsverk taka svo við og leiða okkur enn lengra inn í dularfullan heim þar sem allt getur gerst og allt getur orðið að list.

Hvernig stendur á því að fullþroskaðir listamenn hafa þennan áhuga á upplifun og umhverf barna? Pablo Picasso sagði oft – minnist Marína sonardóttir hans – að það hefði tekið hann alla ævina að læra að mála eins og barn. Hann var örugglega ekki að meina að myndirnar hans væru barnalegar heldur að það væri eitthvað í huga og heimssýn barnsins sem hann hefði glatað og þurft að endurheimta. Það er gríðarlega erftt að setja sig í spor barnsins, eins og sést til dæmis á því hvað fyrstu kaflarnir í sjálfsævisögum eru yfrleitt klunnalegir og einkennast helst af allt of nákvæmun, en þó gloppóttum, frásögnum og eftiráskýringum. Í heimi barnsins getur allt gerst því það er enn að kanna heiminn og átta sig á sjálfu sér, allt er nýstárlegt og spennandi. Barnið hefur ekki enn reynslu og reglur til að skilja veruleikann og bregðast við honum og þess vegna geta jafnvel hversdagslegir hlutir vakið sterk tilfnningalega viðbrögð. Veröld barnsins er ekki fullmótuð og það
fetar línudans um marga heima í stöðugri óvissu. Þegar við eldumst og þroskumst skreppur veröldin saman, við lærum að passa inn í hana og það er fátt sem kemur okkur á óvart.

Í daglegu líf fullorðinna er óvissan óvinur; við verðum að vita hver og hvar við erum og hvað við eigum að gera. Fyrir listamenn er þetta alls ekki einfalt. Þeir standa fyrir framan auðan strigann og eiga að búa til úr engu eitthvað sem getur talað til fólks og skipt það máli og er, umfram allt, nýtt. Það dugar listamanni ekki að gera bara eins og í gær, frekar en ljóðskáld getur endurnýtt ljóð í bók eftir bók. Hin hliðin á þessu er ritstíflan þar sem engin ný hugsun verður til og allt virðist tóm endurtekning og stagl. Hið fullkomna frelsi sem listamaðurinn tekur sér getur verið lamandi og til að komast yfr þröskuldinn þarf að feta línudans eins og barnið án þess að vita hvert línan liggur.

Gabríela hefur oft áður unnið með tilvísanir í heim barna og sýnt furðuverur af ýmsu tagi og leikföng sem líta sakleysislega út en reynast svolítið skuggaleg þegar betur er að gáð. Í þessu endurspeglast ímyndunarafl barnsins en þar er einmitt oft stutt milli gleði og ótta. Við höfum öll verið börn þótt við munum ekki nema óljóst eftir því og Gabríela hefur lag á því að plokka þessa rykföllnu strengi og kveikja aftur með okkur minninguna um óvissu æskunnar; það er ómstríður hljómur. Leið Björns aftur til æskunnar var líklega styttri en stríðari. Hann ólst upp við hlið föður síns, Dieter Roth, og með honum var lífð stöðugt sköpunarferli: Myndlist, tónlist, bækur, sýningar, skargripir og mygla – jafnvel úr Morgunblaðinu gat Dieter búið til listaverk sem fræðimenn hafa talið marka tímamót í nútímalistasögunni. Listin og lífið runnu saman í eitt. Í heimi barnsins er heldur enginn munur á þessu tvennu: Hvert andartak er nýtt og nýstárlegt.

Hvernig stendur þá á því að við flest týnum þessu barnslega sjónarhorni sem höfum þó öll horft frá í æsku? Kannski er það máltakan þegar við lærum að greina hlutina í umhverf okkar að og gefa þeim nafn, gera greinarmun á fólki og hlutum og ímyndunum; við lærum umgengnisreglur og kurteisi, lærum að lesa og fræðast eins og fullorðnir og að lita ekki út fyrir í litabókina. Myndlist tuttugustu og tuttugustu og fyrstu aldar er að mestu leyti framúrstefnulist. Það þýðir að listamaðurinn er alltaf einu skref á undan okkur hinum. Hann prófar þetta og hitt, tekur sénsa og þarf stundum að henda öllu dagsverkinu ef tilraunin gekk ekki upp. Þetta er landkönnun þar sem vörður eru fáar og misvísandi, ekkert kort fnnst og áttavitinn snýst í hringi.

Af hverju getur þetta fólk ekki bara gengið glatt til vinnu sinnar og leitt hjá sér allt þetta skrítna og óvissa, furðudýrin og ófreskjurnar? „Þegar ég var barn, hugsaði ég og dró ályktanir eins og barn. En þegar ég óx úr grasi lagði ég barnalega hluti til hliðar,“ sagði Páll postuli í fyrsta bréf sínu til Kórintumanna. Honum lá á að losa sig við víðsýni og umburðarlyndi barnsins, enda varði hann mestöllu líf sínu í að segja öðrum hvernig þeir ættu að haga sínu líf og allt það tuð er nú í Biblíunni – rúmlega helmingur af Nýja testamentinu. Hann varð fyrirmynd besservissera um allan hinn kristna heim sem trúðu honum og leituðust við að ala börn sín og eiginkonur upp í þessum anda: Það eru reglur og lögmál og boðorð sem ber að virða og það er algjörlega bannað að lita út fyrir. Myndlistin er fyrir okkur hin.

Jón Proppé