Sossa

Síðustu átta til tíu árin hefur hin listræna tjáning Sossu verið meira eða minna í föstum skorðum: hversdagslífið, konur við söng, við vinnu eða í kyrrstöðu, endursköpun meistaraverka listasögunnar og túlkun á myndmáli biblíunnar.  Myndir sem ávallt hafa verkað einstakar, meira að segja smærri verkin.  Tignarlegar myndir hlaðnar kímni og tillfinningu og málaðar í hreinum litum.  Sossa notar sömu tækni og impressionistar og síð-impressionistar á borð við Seurat og Signac.  Myndverkið er leyst upp í minni fleti sem í fjarlægðinni mynda skýr mynstur.  
Í nýjustu myndum sínum glímir Sossa við óhjákvæmilega afleiðingu þessarar þróunar.  Bakgrunnurinn þrengir sér fram í myndina og leysir að hluta eða öllu leyti upp myndefnið.  Hið figuratíva stefnir í að missa lögun.  Með þessu skrefi endurtekur Sossa á sinn sérstæða hátt og af innri þörf þróunina í listasögunni frá Delacroix til Monet og síðar Seurat.  Hvort hún gengur síðan alla leið til Malevich og til algerrar óhlutbundinnar túlkunar, mun tíminn einn leiða í ljós.  Þó er ekki margt sem bendir til þess.  Sossa hefur, líkt og Cézanne, meiri áhuga á hinu næma samspili hins hlutbundna við hið óhlutbundna sem og myndar og bakgrunns.  Myndir hennar eru leikur, hvort tveggja í senn gagnvirkar og ágengar og stjórnast augljóslega af ferli sem hún sjálf ræður litlu um.  Samt hefur hún ekki glatað þeim undraverða hæfileika sínum að skapa verk sem geisla af litaleði og næmleika fyrir hljómfalli myndbyggingarinnar.  Það er því á engan hátt mótsögn þegar hægt er að ræða í sömu andránni um hina eldri Sossu og þá sem nú leitar nýrra leiða.  Eins og með alla aðra góða listamenn eru þetta tvær hliðar á sama viðfangsefni.