Sog

Áhorfandi í leit að þekkingu

RENNSLI

Sest á stól andspænis listmálara á vinnustofu þar sem hærra er til lofts en í öðrum húsum. Setningar streyma um ... Vatn hefur mótað farveg sinn, straumá, jökulsá og bergvatn hafa skapað ásýnd sína í árþúsundir í samlífi við jarðveginn sjálfan og loftslagið. Einhverskonar strigarennsli á birtuskilum, litabreytingar og straumhvörf sem hrynja saman í vatninu. Málningin má ekki þorna, ein pensilstroka verður að sameinast annarri, rennslið má ekki stöðvast. Ef rennslið truflast storknar áin, þurrkast upp eða fer yfir bakka sína. Höfundurinn fer inn í verkið, rennslið, strauminn, hrynjanda. Litirnir sjö renna saman og sundur þangað til þeir koma á áfangastað í verkinu. Málverkið er jafn óútreiknanlegt og veðrið. Málarar og veðurfræðingar gera mælingar, bera saman og fá niðurstöður en fólkið skynjar veðrabrigðin og listina. Vísindamenn gera umhverfismat en áhorfandinn stendur orðlaus gagnvart hrikafegurð. Hann þarf ekki að fá að vita um kílóvattstundir eða hvort það er fiskur. Hann gæti þó langað til að vera veiðimaður og stökkva í vöðlur og vaða út ána í með stöng. Maðurinn er þversögn og það er sitthvað að trúa og vita, skynja og hins vegar að reikna. Efinn um gildið býr í hjörtunum en síhreyfingin í umhverfinu skapar hrynjanda sem listamaðurinn leitast við að grípa og miðla gegn efanum. Næmnin á hrynjanda náttúrunnar vex og brátt ber á umhyggjusemi gagnvart henni – samhljómi. Listamaðurinn túlkar landið milliliðalaust á strigann. Hann situr undrandi við hyl og endurspeglar eitthvað sem býr milli náttúru og mannlífs. Hann veit að það er ekki rökrétt en gerir það samt.

 

NÁTTÚRUSÝN

Sá sem sest á árbakkann og gefur sér tíma til að horfa lengi í ána nemur rytma í lífinu: verðandi. Það sem er ... er á örskotsstund orðið eitthvað annað. Lífið virðist ekki vera neitt sem hönd festir á. En sá sem situr við þar til vitundin og vatnið renna saman í tíma skynjar festuna.

Ég er áhorfandi.

Hann er veiðimaður, stendur lengi við á eða vatn og veiðir fiska. Hann er listamaður sem stendur tímunum saman við strigann og málar strauminn til að höndla lögmál. Gerir tilraun til að grípa það sem hann dáist að, birtuna og formið. Hann segir:

„Ég trúi því að málverkið sé náttúruafl eða frumafl. Veiðihvötin er frumhvöt. Þegar ég geng til veiða, vaktin hefst og sjálfur veiðiskapurinn fer í gang breytist skynjunin mjög róttækt, maður breytir um eðli. Náttúrusjónin verður einbeitt, allur líkaminn tekur þátt. Maginn, nefið, allt dótið. Markmiðið er einfalt og skýrt. Eðlisávísunin er virkjuð í botn.“

Litatúpurnar í skúffunum á vinnustofunni minna á flugur í fluguboxi. Hvaða liti skal nota á þennan striga í þessa mynd á þessum tíma til að veiða karakterinn í þessari á ...

„Þegar best lætur upplifi ég það að mála eins og veiði. Ég reyni að koma undirbúningi og forvinnu málverksins þannig fyrir að þetta algleymi og sú einbeiting sem einkennir veiðimann verði til. Ef það tekst, verður niðurstaðan, málverkið oftast gott. Ef það tekst skerpist náttúrusjónin og maður öðlast eigin náttúrusýn,“ segir Sigtryggur Bjarni Baldvinsson.

 

RÓMANTÍK

Áin rennur áfram, smáár og lækir falla í hana, allt streymir í fögrum tóni. Maður lýsti aðdáun sinni á djúpum og miklum gljúfrum og landslagið virtist greipt í huga hans og sál. Hann sagði: „Það er afar fallegt á þessum slóðum, litirnir í fjöllunum eru sérstakir og birtan í loftinu ólýsanleg. Stórfengleg fjöll, svo klettótt og breytileg eftir því hvernig sólin skín á þau.“ Ég undraðist orð hans en efaðist ekki um þau, því hann var auðheyrilega náttúrubarn. Ég undraðist vegna þess að þessi maður var blindur. Hann hafði alist upp í sterkum tengslum við náttúruna og unni henni. Honum voru því allir vegir færir. Ást hans á landinu vó þyngra en blindan. Hinn blindi nam tóninn. Sigtryggur nam litinn. En ég er áhorfandi í eirðarlausum heimi. Fæstir heyra þennan tón sem er handan skarkalans eða litina sem þokan hylur. Fæstir búast við að heyra eða sjá eitthvað markvert, enda rómantíkin liðin undir lok.

 „Ég er ekki sammála því, rómantíkin er blússandi lifandi hjá fjölda af frábæru listafólki. Helftin af þjóðinni er bergnumin af náttúrunni sem hverfur. Fólk hefur fundið sér eitthvað heilagt. Og það er rómantískt,“ segir Sigtryggur.

 

EFINN

Málverkið er ekki blekking. Málaður himinn speglast í vatni. Hann er líka hylur sem lokkar. Málverkið er náttúrufyrirbrigði. Pensilfarið er einn af grunnþáttum málverksins og getur falið í sér allt frá dýpstu sálarangist til innhaldslauss skreytis.

„Ég sækist eftir því að vinnsla málverkanna, hin físíska nálgun við strigann með málningunni, málunin sjálf, verði einhverskonar rennsli,“segir Sigtryggur. „Blanda eins samviskulega og ég get grunnlitina í verkinu sem geta verið til dæmis sjö bláir tónar. Áður hef ég markað fyrir helstu birtuskilum, litabreytingum og straumhvörfum á strigann. Þá getur rennslið hafist. Ég leitast við að sameinast hrynjandi vatnsins og mála verkið í einni lotu. Til þess að þetta takist þarf ég að halda einbeitingu allt ferlið sem getur tekið upp í sólarhring.“

Það er sitthvað að trúa og vita. Málverkið er ekki blekking þrátt fyrir efann sem nagar listamanninn. Þetta er spurning um úthald, þrek og næmni.

„Efanum léttir skyndilega og það sem ég hrærði saman í eymd og volæði fyrir viku er orðið af einhverju haldbæru. Ég hef gengið það oft í gegnum þetta ferli að jafnvel á botninum veit ég að ég er að ganga í gegnum ferli.“

Málverkið hefur alltaf fylgt manninum og hverfur um leið og hann. Málverkið hefur gagnvirk áhrif á vitundina.

 

ÁHORFANDI

Narkissos beygði sig niður að tærri lind til að svala þorsta sínum. Hann leit spegilmynd sína og varð umsvifalaust ástfanginn af sjálfum sér. „Nú skil ég,“ hvíslaði hann, „hvers vegna aðrir hafa þjáðst af mínum völdum, því ég blátt áfram brenn af ást til sjálfs mín. En hvernig get ég notið fegurðarinnar sem speglast í vatninu? Ég er bundinn þessari mynd, ég get ekki yfirgefið hana.“ Narkissos var áhorfandi en hann sá aðeins sjálfan sig. Áhorfandinn þarf meira. Eftir gönguferðir um landið, þar sem ár renna í aðrar ár, fljót, vötn eða til sjávar. Eftir að hafa gengið með ám upp eða niður, vaðið yfir þær, kastað steinum út í þær og jafnvel gert smástíflur. Eftir að hafa lært nöfnin, veitt silung, tekið sundsprett. Eftir að hafa lagst á magann, bergt af vatninu, sest við bakkann og sameinast straumnum, horft á spegilmynd mína renna burtu, bjóst ég ekki við nýrri reynslu. En svo rataði ég inn í vinnustofu Sigtryggs og sá botnlaus litbrigði í vatninu á striganum og yfirborð sem speglar heiminn. Sá náttúru og striga renna saman.

„Hlutverk mitt er að finna sjónarhorn eða glugga þar sem þau meintu grundvallarsannindi sem ég leita að endurspeglast og setja þau svo fram á þann hátt að þau veki forvitni fólks og vonandi opni eitthvað fyrir því,“ segir Sigtryggur.

Listmálarinn er miðill. Ég sökk inn í málverkið, horfði þangað til vatnið tók að renna. Eftir að hafa numið festuna sem umvefur strauminn, þá opnaðist eitthvað og ég sá það sem ég hafði ekki séð áður. Það sem opnaðist var þekking þótt henni væri ekki miðlað á hefðbundinn hátt.

 „Ég tel að rannsókn listmálara sé meira í ætt við trúarlega leit en vísindalega rannsókn. Mér finnst það aukna vægi sem náttúran í sínu hreina og óspillta formi virðist hafa, réttlæta slíka rannsókn. Vaxandi tilfinning fyrir landinu veitir lífsfyllingu í heimi efahyggju,“ segir Sigtryggur.

 

ÞEKKING

Hugtakinu þekking er of þröngur stakkur búinn og það getur haft vafasamar afleiðingar, því ákveðnir hópar sækja vald sitt til viðurkenndrar þekkingar. Listmálari getur miðlað þekkingu á landslagi, þekkingu sem annars yrði ekki numin. Tíðarandinn gerir það að verkum að mjög brýnt er að landslaginu verði sinnt á ný af alúð: málverkið sem náttúra. Eftir að ég nam þekkinguna sem býr í málverkum Sigtryggs og hélt aftur á vit landsins, gekk með ám og yfir ár, skynjaði ég fleira en áður. Ég tók með mér myndavél og myndaði lifandi vatn sem aldrei nemur staðar, ár sem sprikla af gleði eins Brúará, ár sem voru brúnaþyngri og fljót sem mér tókst engan veginn að skilja. Ég á bók um þetta fljót: Lagarfljót – mesta vatnsfall Íslands, en mig skortir þá þekkingu sem Sigtryggur gæti mögulega miðlað með list sinni. Ef þær myndir væru til gætu þær vegið þungt í umhverfismati um Fljótið. Skrifuð skýrsla um Fljótið er ágæt, einnig ljósmyndir en ef ég væri umhverfisráðherra myndi ég biðja um mörg málverk af því. Því málverk miðlar þekkingu, dýpt og túlkun sem fæst ekki annars staðar, skýrt dæmi um það er Elliðaá (2003-2005) í náttúrusýn Sigtryggs. Straumur Elliðaár og karakter birtist í rauðum og dökkgulum litum á dökkum grunni og vekja hjá mér hugsanir um myrkfælni Benedikts Sveinssonar föður Einars Benediktsonar skálds. Málverkið er þáttur í sögu Elliðaár.

„Það tók mig tvö ár að fullgera þetta verk og glímdi ég meðal annars við það í 25 tíma striklotu án þess að ná því fram sem ég ætlaði mér. Það má því kannski segja að það sé einhver draugur í henni. Ég er ekki frá því að ég hafi verið að lesa frábært verk Guðjóns Friðrikssonar um skáldið á þessum tíma og borðið sem við fjölskyldan mötumst við var áður í eigu Einars Ben – en engin meðvituð söguleg tengsl eru á ferðinni hjá mér í þessu verki,“ segir Sigtryggur.

 

UNDRUN

Þekkingin er verðmæt og efinn hverfur aldrei. En það er undrunin sem gerir okkur að lifandi fólki. Undrun barnsins er hjartnæm, einnig undrun annarra lífvera; kettlinga, hvolpa, kálfa, jafnvel fuglsunga. Undrunin yfir hátterni hlutanna er upphafið að nýrri hugsun í huga sérhvers einstaklings. Slík undrun er á undanhaldi í skilvirkum nútímaborgum. Til að forðast firringuna og öðlast sýn þarf borgarbúinn að hverfa á vit náttúrunnar því það er dapurlegt að vera ævinlega í skipulögðu rými. Hann þarf að undrast utan mannvirkja. Slíka undrun þarf að sækja í regluna sem náttúran býr til og finna má í verkum Sigtryggs. Áhorfandinn undrast andspænis málverkum af Soginu. Hann hefur séð þessa á renna en er ef til vill hættur að taka eftir henni. Hann hefur einnig lesið um Sogið og heyrt sögur og ljóð en nú hefur hann öðlast nýja sýn.

„Mig hefur lengi langað til að mála Sogið,“ segir Sigtryggur. „Ég las eitt sinn skáldsögu eftir Steinunni Sigurðardóttur þar sem birt er skálduð minningargrein um mann sem átti sumarbústað í Þrastarskógi og birt er ljóðræn lýsing á seigfljótandi Soginu. Mér finnst orðið „seigfljótandi“ rétt karakterlýsing á Soginu.“

Hann hefur málað svo lengi að hann losnar undan hefðinni og þroskast á eigin forsendum. Listamaðurinn fer í ham og þegar hann málar verður einbeitingin að algleymi líkt og hjá veiðimanni sem stendur við á. En hver er munurinn á reiðubúnum listmálara gagnvart striganum og reiðubúnum veiðimanni gagnvart ánni?

„Samband myndast við ána og verkefnið er að höndla karakterinn. Ég hef áhuga á físíksum eiginleikum vatnsins: hvernig vatnið rennur og hvernig það lætur. Brúará býr yfir gáska en Sogið er eðlisþyngra,“segir Sigtryggur.

Áhorfandinn einbeitir sér enn, öðlast algleymi og undrast yfir því að málverkið er ekki aðeins mynd af vatni, ekki dauft endurkast, heldur einskonar náttúra í sjálfu sér.

 

Gunnar Hersveinn, rithöfundur

 

Þakkir: Brúará, Aðalsteinn Ingólfsson, Elliðaá, Ragna Sigurðardóttir, Lagarfljót, Friðbjörg Ingimarsdóttir, Sogið og Ragnheiður Jónsdóttir.