Síðasta sýningarhelgi sýningarinnar Líkami, efni og rými
Sunnudagurinn 13. janúar er síðasti sýningardagur þessarar áhugaverðu sýningar þar sem þær Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir leiða saman hesta sína.
Inntakið í sýningunni kjarnast nokkuð vel í þessum orðum Guðbjargar R. Jóhannesdóttur umhverfisheimspekings sem skrifaði þau í tilefni sýningarinnar:
"Að hlusta á líkamann, og hlusta á efni og rými er galdur sem við fremjum öll á hverju augnabliki en veitum því hins vegar sjaldnast athygli. Ef til vill veitum við því ekki athygli vegna þess að okkur hefur verið kennt að aftengjast líkömum okkar, að gleyma þeirri staðreynd að við erum skynjandi líkamar."