Ráð

Í tilefni Ljósanætur opnar sýningin Ráð, fimmtudaginn 1. september 2022, í Listasafni Reykjanesbæjar.

Sýningin Ráð er samansett af nýju listráði Listasafns Reykjanesbæjar.

Listráð skipaða þau; Kristinn Már Pálmason, Andrea Maack og Gunnhildur Þórðardóttir. Öll eru þau tengd Reykjanesbæ, annað hvort með búsetu eða eru fædd og uppalin í bæjarfélaginu.

Nafn sýningarinnar er tilkomið út frá hlutverki listráðs, sem er að gefa safnstjóra ráð og vera ráðagóð.

Myndsköpun Kristins er byggð á myndtáknum og teikningu, þar sem hvert tákn er sjálfstæð eining með sitt eigið þyngdarafl og sinn sérstæða lofthjúp. Táknin eru kunnugleg, en á sama tíma er það áhorfandans að túlka meiningu myndmálsins. Það sem veldur aðdráttarafli eða þyngdarkrafti er massi hlutanna eða efnismagn. Þyngdarkrafturinn berst gegnum efni þannig að táknin hafa áhrif hvort á annað hvar sem þau eru staðsett á myndfletinum. Þannig er hægt að líta á myndverk Kristins eins og mynd af himingeimnum, þar sem við mannfólkið, túlkum massa alheims í geimfyrirbærum, eins og  geimþokur, sólstjörnur og reikistjörnur, en milli þeirra er neikvætt rými sem þó hefur áþreifanlega þyngd, mögulega er þar hulduefni eða hulduorka sem heldur myndfletinum saman.

Myndverk Kristins Más Pálmasonar, eru nýleg verk sem unnin eru á árunum 2021 – 2022.

Kristinn Már Pálmason er fæddur í Keflavík árið 1967 og tilheyrir því hinni svokölluðu pönkkynslóð. Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og fjórum árum síðar útskrifaðist hann með MFA gráðu frá The Slade School of Fine Art, University College London. Kristinn er einn af stofnendum gallerís Kling og Bang og annar stofnandi og sýningarstjóri Anima gallerís.

Myndverk Gunnhildar styðjast oft við fundna endurunna hluti sem finna má í nærumhverfi listamannsins. Segja má að hún setji á svið eigin upplifun af hinu hversdagslega lífi, sem í tilfelli Gunnhildar er meira eins og ævintýri. Gunnhildur býður áhorfandanum upp á brot úr degi, úr tíma og rúmi, brot úr náttúrunni, brot úr ljóði, þar sem oft má finna hættulega dulúð sem dregur áhorfandann inn í myndheim listamannsins.

Myndverk Gunnhildar Þórðardóttur, eru unnin árið 2022.

Gunnhildur Þórðardóttir er fædd árið 1979 og ólst upp í Keflavík. Hún fluttist til Cambridge eftir að útskrifast af náttúru- og félagsfræðibraut ásamt uppeldisbraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1999. Í Englandi lagði Gunnhildur stund á kvennabókmenntir í Newnham College.  Ári síðar fór hún í Listaháskólann í Cambridge (Cambridge School of Art, Anglia Ruskin University). Hún útskrifaðist þaðan árið 2003 með BA(Honours) Art & Art History og lauk MA Arts Management árið 2006 frá sama háskóla.

Andrea Maack, sýnir verkið The Scented Cave, þar sem reynsla hennar sem fjölskynjandi vera er grundvöllur myndverksins. The Scented Cave sameinar þef, sjón og heyrn, listamaðurinn rýfur mörkin á milli listsköpunar og tísku. Listsköpun Andreu er drifin áfram af þörf fyrir að skapa verk sem höfða til allra skynfæra, sem hefur leitt hana inn á svið þefskynsins. Árið 2010 leit ANDREA MAACK vörumerkið dagsins ljós og ilmlína hennar samanstendur nú af 10 ilmum sem hafa vakið athygli í ilmheiminum fyrir fegurð og frumleika. Ilmir Andreu fást í fjölda landa og fjallað hefur verið um þá í tímaritum eins og franska Vogue, Artnet og Wallpaper.

Verkið The Scented Cave var framleitt árið 2015.

Andrea Maack útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2005 og hefur verið virk í myndlistarheiminum bæði hér heima og erlendis. Andrea hefur setið í stjórn Nýlistasafnsins og var framkvæmdastjóri Sequences Real Time Festival í Reykjavík 2007.

Andrea býr og starfar í Reykjanesbæ.

Hugmyndin að bjóða listamönnum í nýju listráði Listasafns Reykjanesbæjar að sýna í Bíósal Duus Safnahúsa, kom frá menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, Guðlaugu Maríu Lewis. Þannig er sýningin samstarfsverkefni menningarfulltrúa og listasafnsins.

Sýningin stendur til og með sunnudagsins 9.október 2022. Sýningunni verður framlengt til 1. nóvember 2022.