Próf / Tests

Á sýningunni Próf/Tests er að finna 57 olíumálverk, öll í sömu stærð og í tveimur litum: hvítum og rauðum. Fyrirmynd málverkanna eru 57 þungunarpróf. 56 verkanna eru með einu rauðu lóðréttu striki á hvítmáluðum striga og liggja þau líkt og rauður þráður í gegnum sýninguna en 57. verkið sker sig úr enda sýnir það tvö rauð, lóðrétt strik. Hvert málverk táknar einn mánuð í því 57 mánaða ferli sem það tók okkur hjónin að verða barnshafandi. Málverkin bera því heiti þess mánaðar og árs sem hvert þungunarpróf var tekið, allt frá febrúar 2012 til októbers 2016. Verkin eru persónuleg en um leið lýsa þau reynsluheimi margra. Sýningin Próf/Tests er fyrst og fremst hugsuð til að finna tilfinningum og erfiðri reynslu farveg og í leiðinni vekja athygli á málefnum sem varða ófrjósemi í formi myndlistar.

Hugmyndin:

Þegar ég fékk hugmyndina að málverkasýningunni Próf/Tests hafði glugginn á þungunarprófinu birst mér með einu striki sem síendurtekið stef í rúmt ár. Þegar hugmyndin að sýningunni kviknaði var því ekki áætlað að verkin yrðu jafn mörg og raunin varð. Ég er þó þakklát fyrir að verkin urðu 57 því á tímabili var ég ekki lengur viss hvort að sýningin yrði að veruleika yfir höfuð. Sjálf var ég heldur ekki viss hvort ég hefði taugar í að opna mig á þennan hátt fyrir almenningi en hugmyndin að sýningunni var þó sífellt að gera vart við sig í huga mér. Það var ekki fyrr en ég sá verkið, Henry Ford Hospital (1932), eftir nöfnu mína Fridu Kahlo á sýningu hennar og Diego Rivera, Art in Fusion, á Musée de l'Orangerie í París á haustmánuðum 2013 að ég vissi að ég ætlaði að láta verða af sýningunni, þ.e.a.s. ef ég yrði svo lánsöm að geta lokað henni með verki af tveimur strikum. Verk Kahlo sýnir upplifun hennar á fósturmissi og snart mig svo djúpt að ég stóð í tárum á sýningargólfinu. Á þessari stundu vissi ég að sýningin Próf/Tests væri stærri en ótti minn við afhjúpun og gagnrýni. Ég ber þó ekki ein þungann af afhjúpuninni og því var næsta skref að segja eiginmanni mínum frá hugmyndinni. Ég hefði ekki þurft að mikla það fyrir mér því hann tók vægast sagt vel í hugmyndina, eins skapandi og stórkostleg mannvera hann er, og hvatti mig heilshugar til að framkvæma hana. Hugmyndin að sýningunni hefur verið lengi í bígerð en ekki var unnt að hefjast handa fyrr en lokaverkið, verkið með tveimur strikunum, varð að veruleika.

Á meðan einhverjir finna sig í málverkum af neikvæðu prófi eru kannski aðrir sem kunna betur að meta málverkið af jákvæða prófinu. Verkin eru mjög persónuleg en ekki síður táknræn. Persónuleg vegna þess að með verkunum er ég – og við hjónin – að opna fyrir hluta lífs okkar sem við höfum hingað til haldið út af fyrir okkur og táknræn þar sem hvert strik á sýningunni stendur fyrir eina tilraun sem hefur mistekist. Og hvert strik táknar jafnframt von og þrá okkar hjóna til að eignast barn. Ég vona að pör í sömu eða svipaðri stöðu munu finna huggun í verkunum og vonandi munu þau vera eins konar haldreipi þeirra sem hafa, mánuð eftir mánuð, horft á aðeins eitt strik birtast á þungunarprófi.

Miðillinn:

Eins og fyrr segir eru fyrirmyndir málverkanna gluggi á þungunarprófi sem sýnir hvort prófið sé jákvætt, neikvætt eða ógilt. Glugginn sem hafður er til hliðsjónar er með fjórar hliðar líkt og strigi og er hvert málverk í raun eftirlíking gluggans í stækkuðum hlutföllum. Þar sem sýningin Próf/Tests er að mörgu leyti hugmyndalist velti ég miðlinum mikið fyrir mér. Ég útfærði hugmyndina í öðrum miðlum í huganum, sem ljósmyndasýningu eða jafnvel sem videóverk, en leitaði þó alltaf á upphafspunkt og fannst málverkið best til þess fallið að ramma hugmyndina inn. Það sem mér finnst einnig mikilvægur kostur málverksins sem miðil er áþreifanleiki strigans og áferðin sem olíulitirnir skapa. Viðfangið er einfalt í uppsetningu og útkoman auðþekkjanlegar minímalískar línur á þrívíðum fleti.

Uppsetning:

Verkin bera heiti þess mánaðar sem þau standa fyrir, allt frá febrúar 2012 til október 2016, og hefur sýningin þannig upphaf og endi. Því er mikilvægt að þau séu sett upp í réttri tímaröð.

Sýningarskrá:

Í sýningarskrá verður m.a. að finna ljósmyndir af vinnuferlinu, af þungunarprófum, upplýsingar og myndir af uppsettum fósturvísum eftir glasafrjóvganir hjá Art Medica og IVF, verðskrá málverkanna og þakkir til þeirra sem styrktu sýninguna á einn eða annan hátt.

Stutt lýsing á bakgrunni:

Ég starfa sem tónlistarmaður og stunda einnig nám í jazz-söng við tónlistarskóla F.Í.H. Ég stundaði listnám í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum og útskrifaðist af listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti áður en ég hélt í listfræði í Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifaðist með BA-gráðu árið 2015. Hluta af náminu stundaði ég við listabraut Sorbonne-háskólans í París. Ég hef starfað við ýmislegt tengdu listum. Ég hef haldið listasmiðjur fyrir börn, bæði á vegum Sandgerðisbæjar og Listasafns Reykjavíkur, og unnið að rannsóknum í tengslum við listfræðslu barna á Íslandi. Einnig hef ég annast sýningargæslu og leiðsagnir í Safnahúsinu á Hverfisgötu á vegum Þjóðminjasafns Íslands.