Opnun sýningarinnar Fimmföld sýn

Á vormánuðum var fimm listamönnum boðið að taka þátt í verkefni þar sem þeir unnu með upplifanir sínar af Suðurnesjunum. Áhersla var lögð á tvívíða miðla og verk á pappír. Listamennirnir eru Anna Hallin, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Helgi Þorgils, Olga Bergmann og Rósa Sigrún Jónsdóttir. Þeim gafst kostur á að hafa vinnuaðstöðu í gamla samkomuhúsinu í Höfnum. Þau gengu mörg hver um landið í kring um Hafnir og söfnuðu litaprufum og sjónarhornum sem síðan runnu inn í verkin þeirra. Lágróður og vegghleðslur fundu sína leið í saumspori, ströndin og höfnin mótuðust á blaði, hólar og hæðir voru rispuð á koparplötur, hugleiðingar um náttúrufyrirbæri eins og flekaskilin og jafnvel flugumferðin varð að innblæstri. Ný sýn opnaðist á kunnugleg fyrirbæri sem listamennirnir gerðu að sínum með því að tvinna þau inn í verk sín.

 

Umsjónarmenn verkefnisins eru Hafnabúarnir Valgerður Guðlaugsdóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson.

 

Verið velkomin á opnun lokasýningar verkefnisins í Stofunni Duus Safnahúsum laugardaginn 13. júlí kl: 14 00. Sýningin mun standa frá 13. júlí til 18. ágúst.

 

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Gallery - Fimmföld sýn