Opnun Ljósanætursýninga í Duus Safnahúsum
Verið velkomin við opnuna Ljósanætursýninga í Duus Safnahúsum
Listasafn Reykjanesbæjar opnar eftirfarandi sýningar:
Sýningin Eitt ár á Suðurnesjum er ljósmyndasýning sem er afrakstur samkeppni sem safnið stóð fyrir. Öllum Suðurnesjamönnum var boðið að senda inn myndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru á Suðurnesjum á einu ári, nánar til tekið frá 17.júní 2017 til 17.júní 2018. 350 myndir bárust og eru þær allar til sýnis, ýmist útprentaðar eða á skjám í Listasal Duus Safnahúsa.
Sýningin Eitt ár í Færeyjum er ljósmyndasýning sem er afrakstur samkeppni sem Norræna húsið í Færeyjum stóð fyrir. Öllum Færeyingum var boðið að senda inn myndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru í Færeyjum á einu ári, nánar tiltekið frá flaggdeginum 2016 til flaggdagsins 2017. Vinningsmyndirnar 12 má sjá útprentaðar í Bíósal Duus Safnahúsa ásamt öðrum innsendum myndum á skjám.
Sýningin Endalaust er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og Handverks og hönnunar og inniheldur verk úr endurunnum efnivið. Um er að ræða fjölbreytt og ólík viðfangsefni og koma 20 hönnuðir að sýningunni.
Útilistaverkið Súlan afhjúpað. Í tilefni afmælis þriggja safna bæjarins árið 2018, ákvað bæjarstjórn að Súlan, listaverk eftir Elísabetu Ásberg sem afhent hefur verið í áraraðir sem menningarverðlaun bæjarins, verði stækkað og sett upp við Duus Safnahús.
Þá opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar sýninguna ...Svo miklar drossíur. Silver Cross barnavagnar hafa verið vinsælir á Íslandi í langan tíma. Sýningin er samstarfsverkefni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Thelmu Björgvinsdóttur, sem hefur rannsakað og kynnt sér sögu vagnanna hér á landi. Á sýningunni verður fjöldi glæsilegra vagna frá ýmsum tímum, auk fjölda ljósmynda af vögnum í notkun.
Bæjarstjóri, Kjartan Már Kjartansson opnar allar sýningarnar. Boðið er upp á lifandi tónlist og léttar veitingar. Sýningarnar standa til 4.nóvember.