Listasafn Reykjanesbæjar hefur lengi haft þann sið að vera alltaf með a.m.k. eina sýningu á Ljósanótt þar sem heimafólk er í fyrirrúmi. Að þessu sinni er það sýningin „Óvænt stefnumót“ sem opnar í Duus Safnahúsum fimmtudaginn 5.september kl. 18.00. Þarna eru leiddar saman 6 listakonur sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa allar verið með einkasýningu í safninu einhvern tímann á síðustu 15 árum. Verkin sem þær sýna eru unnin með fjölbreyttri tækni og hver um sig hefur valið sína eigin leið og sína eigin túlkun og afar spennandi að sjá hvernig stefnumótið heppnast. Þær sem taka þátt í þessu verkefni eru: Gunnhildur Þórðardóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Sossa og Valgerður Guðlaugsdóttir.
Sýningin stendur til 3.nóvember og safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.