Dæmisögur úr sumarlandinu

Málverk 2000 - 2013

Á sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, Dæmisögur úr sumarlandinu, er að finna úrval nýlegra olíumálverka eftir Karólínu Lárusdóttur, sem fengnar eru að láni frá einkaaðilum. Sérstök áhersla er lögð á stærri verk listakonunnar, sem að jafnaði eru ekki eins aðgengileg og minni málverk hennar, grafíkmyndir og vatnslitamyndir.

Það „sumarland“ sem hér um ræðir er það forðabúr minninga sem listakonan hefur unnið upp úr „dæmisögur“ sínar, sem fjalla framar öðru um mannlífið í Reykjavík á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta var mikill umbrotatími í íslensku þjóðfélagi, velmegun eftirstríðsáranna hafði veruleg áhrif á fjölskyldu og hegðunarmynstur fyrstu „alvöru“  borgarbúa í sögu landsins. Málverk Karólínu segja sögur af þessu fólki, byggðar bæði á atburðum sem tengjast hennar eigin fjölskyldu, sem lék stórt hlutverk í bæjarlífinu um margra áratuga skeið, og gömlum ljósmyndum. Um leið veltir hún því upp hvort þessar sögur feli ekki í sér marktækar lýsingar á eðlisþáttum íslenskrar þjóðar, t.a.m. þrautseigju, fálæti og nýjungagirni. Þótt margar þessara mynda einkennist af alvöruþunga, er einnig að finna í þeim græskulausa fyndni og djúpan mannskilning.

Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, sem er höfundur bókar um listakonuna sem kom út á síðasta ári.

 

Dæmisögur úr Sumarlandinu

Hér fyrr á árum var myndlist Karólínu Lárusdóttur stundum flokkuð meðal frásagnarlegra myndskreytinga með tregablöndnu ívafi, og þar með skör lægra en önnur íslensk myndlist. Vaxandi þekking á myndlistarlegum uppruna listakonunnar í Bretlandi, þar sem hún var búsett mikinn hluta ævi sinnar, og aukinn skilningur á því sem á sér stað í myndum hennar, hefur að mestu slegið á gamla fordóma. Viðhorfsbreytingar til verka Karólínu gætir m.a. í umsögninni sem birtist í Morgunblaðinu árið 2006, þar sem hún er sögð sýna fram á að „hefðbundið fígúratíft málverk (geti) svo sannarlega verið merkingarbært í samtímanum á forsendum frásagnarlegs innihalds ekki síður en formgerðar.“

Þegar verk Karólínu eru gaumgæfð til hlítar birtist okkur glöggur þjóðfélagsrýnandi, sem sækir innblástur sinn aðallega í minningabrot og ljósmyndaefni frá uppvaxtarárum sínum, sjötta og sjöunda áratugnum. Þessi efniviður verður henni líkingamál í umfjöllun um  íslenskt samfélag á uppgangstímum eftirstríðsáranna og áhrif þessa uppgangs á hugsunarhátt og hegðan samlanda sinna í þátíð og nútíð.  Fólkið í verkum hennar er að sönnu klætt upp á gamla mátann, en þær kringumstæður, manngerðir og hegðunarmynstur sem myndirnar sýna eru sannarlega enn við lýði.  Grunneining samfélagsins, fjölskyldan, er oftast í forgrunni verkanna, en undir þeirri ímynd sem hún snýr að áhorfandanum á tyllidögum – á jólum, í kaffiboðum, á veitingastöðum - örlar á margháttuðum samskipta-og tilvistarvanda sem ekki var fyrir hendi í stéttskiptu bænda-og sjómannasamfélagi fortíðar. Hjón eru orðin hvort öðru fráhverf, innbyrðis samkennd fólksins hefur rofnað í firringu bæjarsamfélagsins, flestir eltast við skammvinna afþreyingu eða nýjustu tísku, mannasiðir eru úr lagi gengnir. Það er engu líkara en velsældin hafi reynst nútíma Íslendingum um megn. Í verkum Karólínu stekkur engum bros, allra síst litlu stúlkunni, staðgengli listakonunnar, sem stundum villist inn á einhverja samkunduna í sumarlandi minninganna.

Borgarsamfélagið hefur hins vegar kennt hóflega veraldarvönum Íslendingum að þykjast, leika þau hlutverk sem þeim „hefur verið úthlutað í samræmi við viðteknar siðvenjur og tíðaranda“, svo ég vitni í inngang minn að nýlegri bók um Karólínu. Það eru þessar sviðsetningar mannlegra samskipta sem listakonan grannskoðar framar öðru, stundum af verulegum alvöruþunga og angurværð, en einnig af djúpum mannskilningi og góðlátlegri kímni.

Það er verulegur fengur að því að fá til sýningar í Listasafni Reykjaness í sumar úrval nýlegra málverk í einkaeigu eftir listakonuna, og vill undirritaður þakka þeim mörgu sem féllust á að liðsinna safninu. Sýningarstjóri kann Gunnari Helgasyni, Sveini Þórhallssyni og Hrafnhildi Sigurðardóttur sérstakar þakkir fyrir milligöngu þeirra.