Listaverk úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, skipstjóra, og Katrínar M. Ólafsdóttur
Millilandamyndir nefnist forvitnileg sýning sem opnuð verður í Listasafni Reykjanesbæjar í tengslum við Sjómannadaginn þann 2. júní n.k. Á sýningunni er að finna úrval listaverka sem öll eru fengin að láni úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, skipstjóra, og Katrínar M. Ólafsdóttur konu hans. Matthías var um árabil háseti, stýrimaður og síðast skipstjóri hjá Eimskipum, og sigldi þá reglulega milli Íslands, Færeyja, Danmerkur og Antwerpen á ýmsum Fossum félagsins.
Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Matthías, ýmist einn eða í fylgd Katrínar konu sinnar, notaði hvert tækifæri til að kynna sér myndlist á þeim stöðum sem hann sigldi á, var þá fastagestur á helstu galleríum og söfnum, auk þess sem hann komst fljótt í vinfengi við listamenn alls staðar þar sem hann drap niður fæti. Matthías var ekki einasta á höttum eftir myndlist, heldur sóttist hann einnig eftir góðum jazz. Listamenn í Færeyjum, Danmörku og hér heima á Íslandi, voru í trúnaðarsambandi við þennan listelska skipstjóra, sem flutti þá og verk þeirra milli staða endurgjaldslaust, útvegaði þeim léreft, liti og pappír, auk þess sem hann gat miðlað þeim af ýmsum fróðleik um myndlistina sem hann sá á ferðum sínum. Til þess var tekið að fyrir þremur árum, þegar Matthías sigldi síðasta sinni á Þórshöfn í Færeyjum, héldu færeyskir listamenn honum hóf og leystu hann út með gjöfum.
Á ferðum sínum eignuðust þau Matthías og Katrín ágætt safn listaverka eftir nokkra helstu listamenn Íslendinga, Færeyinga og Dana, og prýðir það smekklegt heimili þeirra í Reykjavík. Þetta safn endurspeglar bæði persónulegan smekk þeirra og stóran vinahóp meðal listamanna. Listasafn Reykjanesbæjar hefur nú fengið hluta þessa safns til afnota til kynningar á Sjómannadaginn og næstu vikurnar, og kann þeim hjónum hugheilar þakkir fyrir greiðasemina.