Millilandamyndir

Myndir úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, skipstjóra og Katrínar M. Ólafsdóttur

Listaverk úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, skipstjóra, og Katrínar M. Ólafsdóttur


Millilandamyndir nefnist forvitnileg sýning sem opnuð verður í Listasafni Reykjanesbæjar í tengslum við Sjómannadaginn þann 2. júní n.k. Á sýningunni er að finna úrval listaverka sem öll eru fengin að láni úr einkasafni Matthíasar Matthíassonar, skipstjóra, og Katrínar M. Ólafsdóttur konu hans. Matthías var um árabil háseti, stýrimaður og síðast skipstjóri hjá Eimskipum, og sigldi þá reglulega milli Íslands, Færeyja, Danmerkur og Antwerpen á ýmsum Fossum félagsins.


Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Matthías, ýmist einn eða í fylgd Katrínar konu sinnar, notaði hvert tækifæri til að kynna sér myndlist á þeim stöðum sem hann sigldi á, var þá fastagestur á helstu galleríum og söfnum, auk þess sem hann komst fljótt í vinfengi við listamenn alls staðar þar sem hann drap niður fæti. Matthías var ekki einasta á höttum eftir myndlist, heldur sóttist hann einnig eftir góðum jazz. Listamenn í Færeyjum, Danmörku og hér heima á Íslandi, voru í trúnaðarsambandi við þennan listelska skipstjóra, sem flutti þá og verk þeirra milli staða endurgjaldslaust, útvegaði þeim léreft, liti og pappír, auk þess sem hann gat miðlað þeim af ýmsum fróðleik um myndlistina sem hann sá á ferðum sínum. Til þess var tekið að fyrir þremur árum, þegar Matthías sigldi síðasta sinni á Þórshöfn í Færeyjum, héldu færeyskir listamenn honum hóf og leystu hann út með gjöfum.


Á ferðum sínum eignuðust þau Matthías og Katrín ágætt safn listaverka eftir nokkra helstu listamenn Íslendinga, Færeyinga og Dana, og prýðir það smekklegt heimili þeirra í Reykjavík. Þetta safn endurspeglar bæði persónulegan smekk þeirra og stóran vinahóp meðal listamanna. Listasafn Reykjanesbæjar hefur nú fengið hluta þessa safns til afnota til kynningar á Sjómannadaginn og næstu vikurnar, og kann þeim hjónum hugheilar þakkir fyrir greiðasemina.

Upp úr 1990 hóf ég í auknum mæli að vinna með færeyskum listamönnum og safnafólki að aðskiljanlegum verkefnum í Þórshöfn. Þá var það sem ég heyrði Matthías skipstjóra nefndan fyrsta sinni.  Allir virtust þekkja manninn, hann var sagður hafa flutt heilu sýningarnar til Kaupmannahafnar, Árósa eða Íslands fyrir þennan eða hinn listamanninn, keypt striga og liti fyrir aðra, nauðsynlegan pappír fyrir grafíkverkstæðið og  listaverkabækur fyrir fróðleiksfúsa. Auk þess höfðu listamennirnir sjálfir fengið að fljóta með honum milli landa þegar illa stóð á hjá þeim. Þá hafði Matthías einnig hlaupið undir bagga með því að kaupa af þeim myndir. Það fór ekkert á milli mála hvaða álit færeyskir listamenn höfðu á þessum listelska skipstjóra frá Íslandi, hann var þeim „ mikil frágerðarmaður“ .

 

Við eftirgrennslan mína hér heima kom í ljós að Matthías skipstjóri átti sér einnig stóran vinahóp meðal íslenskra listamanna, sérstaklega þeirra sem tengdust Kaupmannahöfn með einum eða öðrum hætti. Í frásögnum Vernharðs Linnet af jassuppákomum á Íslandi og í Danmörku kemur Matthías stundum við sögu, Thor Vilhjálmsson minntist stundum á þennan gáfaða skipstjóra sem hann hafði siglt með á Gullfossi forðum daga og nokkrir þungavigtarmenn í myndlist töluðu um hann sem prívatvin sinn: Bragi Ásgeirsson, Sveinn Björnsson og Tryggvi Ólafsson.

 

Listaverkasafn þeirra hjóna, Matthíasar Matthíassonar og Katrínar M. Ólafsdóttur konu hans og ferðafélaga til margra ára, er sem framlenging af óvenjulegu lífshlaup þeirra og áhugamálum. Fyrst og fremst endurspeglar það tengslanet þeirra meðal listamanna á helstu áfangastöðum Eimskips: Reykjavík, Þórshöfn, Kaupmannahöfn, Árósum og Rotterdam. Mörg verkanna eru vinargjafir listamanna og tengjast sjóferðum með einum eða öðrum hætti, önnur  hefur Matthías fengið í vöruskiptum,  enn önnur eru  keypt á vinnustofum listamanna eða uppboðum. Loks má nefna listaverk sem tengjast annarri ástríðu skipstjórans, jazzinum: málverk, teikningar og grafík af jazzleikurum, sjaldgæf og árituð plaköt og prógrömm tengd jazzuppákomum.  Öll eru þessi verk eins og sjálfsmynd eigandans: smekkleg, hlýleg og ástríðufull. Listasafn Reykjaness kann þeim hjónum, Matthíasi og Katrínu, bestu þakkir fyrir afnotin af listaverkum þeirra á sjómannadaginn og næstu vikurnar.