Náttúruafl

Náttúra Íslands hefur verið viðfangsefni margra listamanna í íslenskri myndlist á 20. öld. Hún hefur verið uppspretta mismunandi tjáningarforms innan myndlistarinnar og hefur átt ríkan þátt í að skapa viss einkenni innan íslenskrar listasögu. Á sýningunni getur að líta marga ólíka tjáningarmiðla, málverk og skúlptúra, vefnað og grafíkmyndir eftir íslenskar konur. Verkin á sýningunni voru unnin á shl. 20. aldar og er ætlunin með þessari sýningu að miðla náttúruhrifum og kröftum íslenskrar náttúru. Náttúraflið endurspeglast á ólíkan hátt í ólíkum verkum, allt frá málverki Júlíönu Sveinsdóttur þar sem samspil grænna lita sýnir runna, gras og skugga trjáa úr garðinum við sumarhús hennar í Horneby í Danmörku til eðlisþungra steinskúlptúra Brynhildar Þorgeirsdóttur eða grafíkverka Hafdísar Ólafsdóttur og Valgerðar Hauksdóttur sem eiga yngstu verkin á sýningunni.

Júlíana tilheyrði fyrstu kynslóð íslenskra listamanna og málaði ávallt hlutbundið myndefni en lágt sjónarhornið í myndinni á sýningunni, það nær aðeins upp í miðjan runna svo ekki sér til himins, gefur henni dálítið óhlutbundið vægi. Myndin miðlar aðeins gróðurþekju, sem verður að segjast að er næsta frásagnarlítið málverk, enda tilgangurinn ekki annar en að miðla sýn og hughrifum málarans á sumardegi. Hér er ekki ætlunin að tengja Júlíönu inn í abstrakt myndmál íslenskrar listasögu en þó er þetta verk til þess fallið að skoða í samhengi við ljóðrænu abstraktlistina hér á landi en einn helsti merkisberi hennar var Nína Tryggvadóttir á 6. og 7. áratug 20. aldar. Verk Nínu gefa ágætt yfirlit yfir þau verk sem hún fór að mála eftir að hún yfirgaf strangflatarlistina. Nína fjallar í þeim um íslenska náttúru eins og heiti verkanna eru oft til vitnis um. Formskyn Nínu og litameðferð skapar kraftmikla frásögn í myndum sem túlka ýmis náttúruöfl eða stemmningu við ákveðnar aðstæður í náttúrunni.

Guðmunda Andrésdóttir leitaði á svipuð mið og Nína í málverkum sínum, þó verk hennar væru ávallt geómetrísk og viku aldrei út af braut línunnar til meira frjálsræðis og óhaminnar pensilskriftar eins og Nína gerði. Guðmunda sótti áhrif til náttúrunnar í verkum sínum og elstu verk hennar á sýningunni miðla ljóðrænni hugsun þar sem birtan og ljósbrot eru henni hugleikin viðfangsefni. Yngri verk Guðmundu á sýningunni eru frá þeim tíma er Guðmunda fékkst við hringformið, hreyfimátt þess og kraft og hvernig hún á einfaldan hátt fæst við andstæður hringforms sem er annars vegar kyrrt og hins vegar sem hreyfist innan sama myndflatar.

Ásgerður Búadóttir er frumkvöðull nútíma veflistar á Íslandi og verk hennar á sýningunni, þar sem efniviðurinn er bæði ull og hrosshár, er dæmigert fyrir þau verk sem Ásgerður hefur unnið í seinni tíð. Eins og heitið ber með sér vísar Ásgerður til eldfjallsins, þeirrar formmyndar náttúrunnar sem er ekki aðeins háreist yfirborð heldur tákn kraumandi krafta í iðrum jarðar. Það eru hughrif og voldugleiki þessara krafta sem Ásgerður sýnir með þeirri knöppu aðferð sem vefstóllinn lætur listamanninum eftir, með þeirri undantekningu sem hrosshárin veita henni; að brjóta upp meginformið og flötinn sjálfan. Málverk Ragnheiðar Jónsdóttur Ream á þessari sýningu standa fyrir dálítið expressjónískri aðferð, þá sérstaklega hvað litaval varðar, sterkir og kraftmiklir litir sem málaðir eru í breiðum á myndfletinum. Uppbygging flatarins er oft á tíðum sérstæð, líkt og horft sé ofan að og niður á sléttlendi. Ragnheiður vó oft salt milli þess hlutbundna og óhlutbundna en litasamsetning og beinar tilvísanir með heitum verkanna gefa þó alltaf lykilinn að myndefninu, sem er íslensk náttúra.

Hlutur kvenna hefur vaxið jafnt og þétt í íslenskri myndlist á síðustu áratugum og með kynslóð þeirra Hildar Hákonardóttur, Þorbjargar Höskuldsdóttur og Sigrid Valtingojer var almenn þátttaka kvenna innan myndlistargeirans, til jafns við karla, orðin staðreynd á áttunda áratugnum. Verk Þorbjargar Höskuldsdóttur frá 8. og 9. áratugnum gætu borið með sér pólitíska skírskotun eins og mál standa í dag, þar sem nokkurs konar sambland manngerðs umhverfis og eyðilegrar náttúru birtist í mis flóknu samspili. Þegar verkin voru máluð báru þau hins vegar ummerki poplistar og súrrealískrar arfleifðar. Myndbygging verka Þorbjargar byggir á þrívíddarteikningu þar sem heitir og kaldir litir undirstrika ólík plön og margræðni einkennir myndmálið, allt frá hughrifum hins kalda bláma í landslaginu til áríðandi spurninga um stöðu mannsins og tengsl hans við umhverfið. Skúlptúr Hildar Hákonardóttur, sem samanstendur af vefnaði, þeim miðli sem hún hefur mest unnið með, og pýramídalagaðri ljósmynd á gólfi er ekki af þeim pólitíska toga sem einkenndi mörg verka Hildar á 8. áratug 20. aldar. Hér er um mun innhverfari og persónulegri tjáningu að ræða þar sem kosmísk hugsun kemur fram í framsetningu verksins og formi. Grafíkmyndir Sigrid Valtingojer eiga uppruna sinn í íslenskri náttúru og hefur eldvirkni landsins verið henni hugleikinn efniviður. Formið í verkunum er einfalt, stílfært og hreint en það missir aldrei þann kraft sem umfjöllunarefnið býr yfir, hvort sem það eru eldfjöll eða óhlutbundnara myndmál svo sem form hljóðs.

Í upphafi níunda áratugarins barst nýtt blóð í höggmyndagerð hér á landi þegar Brynhildur Þorgeirsdóttir kom fram á sjónarsviðið og vakti fólk til umhugsunar um hefðbundin gildi innan höggmyndalistarinnar. Verk hennar minna á dýr aftan úr grárri forneskju eða eru endursköpun á náttúrunni. Hún sækir meðal annars innblástur í fyrirbæri eins og fjöll og kletta sem í meðförum hennar virðast hafa veðrast úti í náttúrunni. Önnur öfl takast á í verkum Valgerðar Hauksdóttur þar sem andstæður ljóss og myrkurs verða henni uppspretta og hraði og hringrás tímans verður að inntaki. Í myrkum sveiflukenndum strokum má merkja kraft tilfinninga sem skírskota til umbreytinga í náttúrunni. Listræn átök koma fram í verkunum á sýningunni þar sem tekist er á við miðilinn af fagmennsku og ögun. Hrynjandi og samspil ólíkra þátta í blæbrigðaríku grátónalandslagi gefur myndunum ljóðrænt yfirbragð. Hafdís Ólafsdóttir hefur í grafíkverkum sínum einbeitt sér að því ástandi náttúrunnar sem vetur og kalt loftslag skapar. Ísmyndir hennar sem hér eru sýndar miðla ekki aðeins því kalda lofti sem er eigind verka hennar heldur er myndmálið þess megnugt að túlka kyrrláta og yfirvegaða hugarsýn svo nálgast æðri veröld.

 

Harpa Þórsdóttir, sýningarstjóri