Minningar morgundagsins / Memories from tomorrow
Laugardaginn 12. mars kl: 14:00
Listasafn Reykjanesbæjar býður í annað sinn meistaranemum á fyrsta ári í sýningagerð við Listaháskóla Íslands að stýra sýningu í safninu. Minningar morgundagsins verður opnuð laugardaginn 12. mars og stendur til sunnudagsins 24. apríl 2022.
Sýningarstjórar eru Iona Poldervaart, Sara Blöndal og Sunna Dagsdóttir. Sex listamenn taka þátt í sýningunni; Elnaz Mansouri, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Sarah Degenhardt, Sarah Finkle, Victoria Björk og Vikram Pradhan.
Sýningin Minningar morgundagsins er hópsýning sem setur fókusinn á framtíðina og tengslin við sögur, umhverfi og drauma okkar.
Minningar eru sögur fortíðarinnar og á hverjum degi sköpum við frásagnir sem breytast í minningar framtíðarinnar. Tækniframfarir síðustu ára hafa nú í enn meiri mæli áhrif á daglegt líf. Með sýningunni vilja sýningarstjórarnir varpa ljósi á það hvernig lífið gæti orðið í framtíðinni og velta vöngum yfir möguleikum nýrrar heimsmyndar. Þær varpa fram spurningum um tilgang allsnægta, mennskunnar og hvað teljist til lífs; höfum við stjórn á framtíð okkar - draumum okkar - nútímanum? Hvernig mótum við frásagnir okkar og hvernig tökumst við á við umhverfið? Hvernig upplifum við tíma og rúm? Getum við deilt rými til að dreyma? Hvernig munum við búa á morgun og hvers munum við minnast þegar við lítum til baka í framtíðinni?
Meistaranám í sýningagerð er ný námsleið í myndlistardeild Listaháskóla Íslands sem kennsla hófst við haustið 2020.
Þar er litið á sýningagerð sem sjálfstæða skapandi grein, og fræðigrein, sem einskorðast ekki við myndlist heldur einnig sem leið til að stofna til samtals við önnur svið kunnáttu og sérfræðiþekkingar. Hanna Styrmisdóttir er prófessor við námsleiðina.
Þar er litið á sýningagerð sem sjálfstæða skapandi grein, og fræðigrein, sem einskorðast ekki við myndlist heldur einnig sem leið til að stofna til samtals við önnur svið kunnáttu og sérfræðiþekkingar. Hanna Styrmisdóttir er prófessor við námsleiðina.
Grafísk hönnun: Janosch Kratz
Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja