Mannlegar Víddir

Þann 15 mars n.k. verður sýninginMannlegar víddir opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar. Á henni er að finna verk eftir tvo listamenn, Stefán Boulter og Stephen Lárus Stephen, sem báðir hafa sérhæft sig í gerð mannamynda. Báðir eiga þeir erlenda feður og hafa sótt listmenntun sína til annarra landa, Stefán til Noregs og Ítalíu, Stephen Lárus til Bretlands.

 

Að öðru leyti eru þeir afar ólíkir. Mannamyndir Stefáns Boulter eru mestmegnis lágstemmd einkasamtöl hans við vini og kunningja, eða einræður hans sjálfs, tilraunir til að laða fram og festa á striga kenndir og hugsanir þeirra sem hann fjallar um, með útlistun á látbragði þeirra. Um leið einkennast mannamyndir hans af dulúð, sem er eins konar staðfesting þess að sérhver manneskja sé „eyland", varðveiti innra með sér einkaveröld sem enginn annar hafi aðgang að. Stefán býr og starfar á Akureyri, en hefur sýnt verk sín víða um heim. Hann var einn af aðstoðarmönnum norska listmálarans Odds Nerdrum meðan hann bjó í Reykjavík.

 

Stephen Lárus hefur hins vegar getið sér gott orð fyrir portrettmyndir af ýmsum „opinberum" Íslendingum. Málverk hans af Sólveigu Pétursdóttir, fyrrverandi Alþingismanni og forseta Alþingis, vakti nokkuð umtal þegar það var vígt fyrir tveimur árum; þetta málverk er að finna á sýningunni. Yfirlýst markmið Stephens er að koma á framfæri viðmóti fyrirsæta sinna, án þess að ganga of nærri einkalífi þeirra. Þarna er um að ræða jafnvægislist þar sem listmálarinn þarf að taka tillit til margra þátta, sjálfsvirðingar þeirra sem sitja fyrir, þjóðfélagsstöðu þeirra, og ekki síst þess hlutverks sem portrettmyndirnar eiga að gegna. Meðan á vinnuferlinu stendur er listmálarinn í stöðugu „viðræðusambandi" við margar þekktustu mannamyndir listasögunnar; þær eru honum allt í senn áskorun, viðmið og hugmyndabanki. Hér gefst gullið tækifæri til að sjá saman komin mörg helstu portrett Stephens Lárusar hin síðari ár, en mörg þeirra hafa hvergi verið til sýnis opinberlega.

 

Sýningunni er framar öðru ætlað að sviðsetja samspil þessara ólíku viðhorfa til mannamyndagerðar, í því augnamiði að skerpa á sérkennum beggja. Á sýningunni verður einnig að finna formyndir listamannanna að nokkrum sýndum verkum, allt frá frumdrögum til nákvæmra lokaútlistana. Meðan á sýningunni stendur munu þeir Stefán og Stephen Lárus ræða viðhorf sín til portrettgerðar og leiðbeina sýningargestum. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

 Sýningin verður opnuð þann 15. mars kl. 14 og stendur til 27. apríl 2014.

Mannlegar víddir

Þeir Stefán Boulter og Stephen Lárus Stephen eiga fleira sammerkt en skírnarnafnið og hollustu við mannamyndir. Báðir eiga þeir erlenda feður og hafa sótt listmenntun sína til annarra landa. Stefán Boulter á rætur að rekja til Bandaríkjanna, en var einn af mörgum lærisveinum hins sérstæða norska mannamyndamálara, Odds Nerdrum. Stephen Lárus er afsprengi margra alda gamallar og öflugar mannamyndahefðar í Bretlandi, þar sem hann er upp alinn. Uppruni þeirra og menntun skýrir að hluta sérstöðu þeirra í íslensku myndlistarlífi, þar sem ekki er fyrir hendi samfelld mannamyndahefð og mannamyndir eiga undir högg að sækja.

En þar með lýkur skyldleika þessara tveggja listmálara. Mannamyndir Stefáns Boulter eru mestmegnis einkasamtöl hans við vini, fjölskyldu og hann sjálfan, tilraunir til að laða fram og festa á striga tilfinningar og hugsanir „viðmælenda“ sinna með útlistun á fasi þeirra; um leið er dulúð þessara mynda staðfesting þess að sérhver manneskja varðveitir með sér einkaveröld sem enginn utanaðkomandi hefur aðgang að.

Stephen Lárus fæst hins vegar við að koma á framfæri „opinberu“ viðmóti misjafnlega þekktra aðila, án þess að ganga of nærri einkalífi þeirra. Þetta er jafnvægislist þar sem taka verður tillit til margra þátta, óska og óskhyggju þeirra sem sitja fyrir, sjálfsvirðingar þeirra og þjóðfélagsstöðu, að ógleymdu því hlutverki sem myndirnar eiga að gegna. Meðan á vinnuferlinu stendur er listmálarinn í stöðugu viðræðusambandi við þekktar mannamyndir listasögunnar; þær eru honum allt í senn áskorun, viðmið og forðabúr.

Með þessari sýningu er ætlunin að sviðsetja nokkurs konar núning þessara ólíku viðhorfa til mannamyndagerðar, sem vonandi er til þess fallinn að skerpa á sérkennum beggja. Ennfremur er kappkostað að veita innsýn í sköpunarferlið að baki mannamyndunum með sérstakri áherslu á formyndir listamannanna, allt frá  rissi til nákvæmra smámynda af verkunum.

Undantekningarnar eru áhugaverðastar

Að halda að við getum komið að tómum striganum eins og óskrifað blað eru draumórar einir. Við erum sköpuð úr því sem við upplifum og því sem skynfærin nema, öllu sem við höfum séð og heyrt. Verk mín eru einskonar andleg dagbók og stundum finnst mér þau fjalla um  innra líf mitt fremur en það sem er sjáanlegt á striganum, myndirnar eru þannig persónulegar táknmyndir. Þegar vel tekst til skynjar áhorfandinn það sem bindur okkur öll saman sem mannverur, hið sammanlega. Ég hef áhuga á því sem við þekkjum, en vitum ekki endilega afhverju við þekkjum það. Handverkið er í mínum huga rödd eða eins og ég kýs að kalla það, tungumál sálarinnar, það er tungumál sem nær langt út fyrir strigann. Þetta snýst ekki aðeins um það að sýna mynd, heldur hvernig sú mynd er tjáð og gerð, í handverkinu felst innihaldið, það er lykillinn.

Ég er þess fullviss að hvernig maður gerir það sem maður gerir, en ekki hvað maður gerir vegur einna þyngst, góður ásetningur nægir ekki. Ég lærði að líta á listamenn fortíðarinnar sem lifandi samtímamenn; það hjálpaði mér að losna við tillærða komplexa sem ég tel marga listamenn  þjást af, sérstaklega varðandi frumleikann. Það losaði mig einnig undan þeirri byrði að telja mig nauðbeygðan að nota það sem samtímalistirnar upphefja sem listrænt viðmið. Þar er þrýst á það að menn fylgi hjörðinni, listamenn eru beinlínis hvatir til þess og verðlaunaðir . Ég forðast að nota tákn sem eru augljósar vísanir í samtímann. 

Það felst ákveðin gildra í því að endurspegla tíðarandann í sífellu, að feykjast eins og lauf í vindi eftir nýjustu tískustraumum. Maður getur ekki bæði fylgt tíðarandanum og verið á undan sinni samtíð.  Það sem er ekki dæmigert er nefnilega áhugaverðast, undantekningarnar.

 

 

Að missa sig

Hvað er portrettmynd, og hvað tryggir gæði hennar?

Portrettmynd er ekki aðeins mynd af manneskju. Portrettmynd er ekki heldur túlkun listamanns eða persónuleg skoðun hans á manneskjunni, til þess höfum við skopmyndateiknara. Skopmyndin smættar manneskjuna, bútar hana niður í auðþekkjanlega og einfalda andlitsdrætti. Afreksmenn meðal skopmyndateiknara megna að einfalda útlit tiltekins einstaklings uns það breytist í skilningsgóða samfellu nokkurra einfaldra drátta og punkta.

Portrettmynd ætti hins vegar að veita okkur tækifæri til að “missa okkur“ í takmarkalausum möguleikunum sem hver manneskja felur í sér. Góð portrettmynd ætti fyrst og fremst að vera vitnisburður um erfiðleikana sem fylgja því að koma áðurnefndum takmarkalausum möguleikum fyrir í einni mynd. Um Vélazquez var sagt að í portrettmyndum sínum kynni hann að „halda sig til hlés“. Í portrettmyndum sínum eykur hann við skilning okkar á því sem felst í þessari lýsingu; hann sýnir okkur að í stað þess að gerast málsvari þeirra sem hann málar mynd af, þá þjónar listamaðurinn hlutverki sínu best þegar hann veitir fyrirsætum sínum tækifæri til að gerast eigin málsvarar.

Hins vegar eru ríkjandi forsendur í  listsköpun yfirleitt á skjön við þennan skilning. Ómeðvitað freistast áhorfandinn til að grafast fyrir um viðhorf listamannsins, eins og þau birtast í portrettmyndinni, á kostnað innihaldsins. Um þetta segir John Currin: „Höfundurinn, listamaðurinn, er alltaf viðfangsefnið í myndunum. Í myndrænum skáldskap verður viðfangsefnið að vera eitthvað annað en höfundurinn. Ég held að tilgangurinn með því að mála mynd af einhverju eða einhverjum sé að búa til skáldskap úr málverkinu.“

Hvernig leysum við þessa þverstæðu, þ.e. að portrettmyndin eigi að vera vel heppnað myndverk sem beri höfundi sínum fagurt vitni, en um leið eigi listamaðurinn að „halda sig til hlés“ svo fyrirsæta hans megni að tala eigin máli í myndinni?

Svarið blasir við í hvert sinn sem við gaumgæfum framúrskerandi portrettmynd og „missum okkur“ andspænis fyrirsætunni og takmarkalausum möguleikunum sem hún felur í sér, með svipuðum hætti og listmálarinn „missti sig“ andspænis henni. Og sjá, þverstæðan er ekki lengur fyrir hendi, því í hvert sinn sem við gaumgæfum framúrskarandi portrettmynd sjáum við ummerki eftir listamann sem hefur „misst sig“ í meðhöndlun sinni á andlitsdráttum fyrirsætunnar. Hvað sem líður öðrum listrænum hæfileikum listamannsins, þá er það hæfileiki hans til að „missa sig“ sem sker úr um ágæti portrettmynda hans.