Lok Ljósanætursýninga og leiðsögn

Á sunnudag lýkur þeim þremur sýningum Listasafns Reykjanesbæjar sem opnaðar voru á Ljósanótt.

Sérstök leiðsögn Aðalsteins Ingólfssonar, sýningarstjóra, verður um sýninguna Veruleikinn og vindingar hans, úrvalsgrafík frá Póllandi og hefst hún á sunnudag kl. 15. Í þeirri sýningu er kastljósi beint að framlagi Pólverja til listar og menningar þar sem vitað er að hartnær fjórðungur bæjarbúa er nú af pólskum uppruna. Sýningin var sérstaklega valin fyrir Listasafnið af Jan Fejkiel, forstöðumanni Fejkiel gallerísins í Kraká, en sú stofnun nýtur mikillar virðingar innan og utan Póllands fyrir vandaðar sýninga-og útgáfustarfsemi í þágu pólskrar grafíklistar á undanförnum tveimur áratugum. Þess má geta að hægt er að festa kaup á verkunum en u.þ.b. helmingur þeirra er nú þegar seldur.

Í Stofunni mun Reynir Katrínar taka á móti gestum alla helgina frá kl. 12-17 í sýningu sinni sem gengið hefur undir yfirskriftinni Galdrameistari og skapandi listamaður. Reynir býður gestum og gangandi einnig upp á örspádóma gegn vægu gjaldi.

Í Bíósal lýkur sýningunni Óvænt stefnumót þar sem fimm listakonur af Suðurnesjum, sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið með einkasýningu í safninu, leiddu saman hesta sína á óvæntu stefnumóti á Ljósanótt. Þetta eru listakonurnar Gunnhildur Þórðardóttir, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Sossa.

Ókeypis aðgangur verður þennan dag og því um að gera að láta ekki þessar flottu sýningar framhjá sér fara.

 

 

Gallery - Pólsk úrvalsgrafík