Lög unga fólksins

Laugardaginn 26. janúar verður sýningin Lög unga fólksins opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum. Á henni er að finna ný verk, málverk, skúlptúra og innsetningar, eftir sex unga myndlistarmenn, Davíð Örn Halldórsson, Guðmund Thoroddsen, Jóhönnu Kristbjörgu Sigurðardóttur, Mörtu Maríu Jónsdóttur, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Ragnar Jónasson. Öll eru þau fædd á árunum 1974 til 1982 og eiga að baki bæði einkasýningar og samsýningar heima og erlendis. Tveir þeirra, Jóhanna Kristbjörg og Ragnar, eru búsettir erlendis.

 


Heiti sýningarinnar er tvírætt, vísar bæði til áhuga listamannanna á dægurtónlist og dægurmenningu almennt og hins „lagskipta málverks", bæði í tæknilegu og menningarlegu tilliti, enda eru verk þeirra samsett úr mörgum lögum nútíma sjónmenningar. Þetta eru verk máluð á striga, tréplötur, viðarbúta og aðskotahluti, höggin í rótarhnyðjur, hlaðin úr keramíkvösum, að ógleymdum verkum eftir Davíð Örn og Ingunni Fjólu, sem gerð eru sérstaklega fyrir sýningarrýmið.

 

 

Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Sigrún Sandra Ólafsdóttir, sem til skamms tíma rak Gallerí Ágúst. Í formála segir Aðalsteinn m.a.:"Með örfáum undantekningum eru listamennirnir ekki uppteknir af því að fá beina útrás fyrir sterkar tilfinningar, villt ímyndunarafl og húmor, heldur leita þeir leiða til að koma á framfæri því sem þeim liggur á hjarta með hlutlægari hætti en áður, ekki síst með því að sölsa undir sig ýmis viðmið eldri málaralistar."


Sýningin Lög unga fólksins verður opnuð þann 26. janúar kl. 15.00 og stendur til 10. mars. Hún er opin alla virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Ókeypis aðgangur.

Sýningin Lög unga fólksins samanstendur af verkum sex listamanna sem eiga það sameiginlegt að vera á svipuðum aldri, hafa talsverða reynslu í myndlistarheiminum og hafa fengist við málverkið á sinn sérstaka hátt á undanförnum árum. Þrátt fyrir að vera oft kallaðir ungir listamenn eiga þeir allir að baki fjölda einka- og samsýninga bæði hér á Íslandi sem og erlendis og allir hafa þeir sótt menntun á sínu sviði. Listamennirnir sem hér sýna hafa unnið með málverkið sem sinn miðil en hafa undanfarin ár þróað sína myndlist hver á sinn hátt. Sumir hafa nánast yfirgefið strigann á meðan aðrir hafa víkkað út miðilinn með því að færa hann út á gólf og upp í loft, nota óhefðbundin efni eða skera út í málverkið. Enn aðrir halda tryggð við strigann og takast á við formin og litina á hefðbundinn hátt. Áhugavert væri að velta fyrir sér hvort þeir listamenn sem ólust upp á áttunda og níunda áratugnum hafi orðið fyrir áhrifum litagleði og forma sem sjá mátti í nýtilkomnum tónlistarmyndböndum, hönnun, tísku, teiknimyndum og fleiru úr dægurmenningu þessara ára. Skærir litirnir, formin og fantasían í verkum hinna hugdjörfu listamanna gæti bent til þess, þó engin leið sé að setja þau öll undir sama hatt hvað áhrifavalda varðar. Þó má fullyrða að þessi sex manna hópur hefur nú þegar sýnt að vert er að fylgjast með verkum og vinnu þeirra í framtíðinni.