LJÓS//NÓTT

LJÓS // NÓTT
„Vinsamlegast snertið „


Föstudaginn 3. september verður opnuð sýning á verkum Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar í Listasafni Reykjanesbæjar. Um einskonar innsetningu er að ræða þar sem unnið er með ljós og myrkur, veggverk og skúlptúra. Heiti sýningarinnar vísar hvoru tveggja til sjónar og blindu sem segja má að sé megin viðfangsefni sýningarinnar. Sýningin er einnig áminning um að ekki er sjálfgefið að veröldin sýni sig öll eins og hún er, þótt öll skynfæri séu virk. Listamaðurinn ætlast enda til að verkin séu snert auk þess sem í uppröðun þeirra er falið orðið „snertið" á blindraletri. Segja má að sýning Guðmundar Rúnars sé eins konar gagnrýnin úttekt á því hvernig við hin sjáandi umgöngumst veröldina og um leið tilraun til að búa til myndlist sem miðlar innihaldinu bæði til sjáandi fólks og blindra. Safnið gefur að venju út vandaðan litprentaðan bækling á ensku og íslensku um sýninguna en að auki verða prentaðir bæklingar á blindraletri.


Sýningin er á dagskrá Ljósanætur, menningarhátíðar Reykjanesbæjar og stendur til 17. október.